Málshöfðun gegn ráðherrum

Mánudaginn 20. september 2010, kl. 15:44:35 (0)


138. löggjafarþing — 163. fundur,  20. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[15:44]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, ef ráðherra gerist sekur um háttsemi sem varðar við refsiákvæði sem hægt er að heimfæra upp á hann með skýrum hætti þá á að sjálfsögðu að láta reyna á það og rétt að láta reyna á það. Til dæmis ef ráðherra segir þinginu ósatt og neitar að framfylgja ákveðnum lögum eins og gerðist t.d. í danska fordæminu um Erik Ninn-Hansen sem við vísum oft til.

En ég vara þingheim við því að taka ákvarðanir á grundvelli „ef ekki núna þá hvenær“-raka. Við verðum að átta okkur á því að við höfum mikið vald í höndunum. Við horfum til einstaklinga sem eiga að njóta mannréttinda. Það eru engin rök að halda því fram í þessari pontu að það verði bara að ákæra — af því bara. Ég vonast til að menn ætli ekki að sannfæra sjálfa sig í þá áttina.