Málshöfðun gegn ráðherrum

Mánudaginn 20. september 2010, kl. 16:31:15 (0)


138. löggjafarþing — 163. fundur,  20. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[16:31]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Því er ekki að leyna að ég og sjálfsagt fleiri hefðum kosið að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í þessari nefnd, hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir og hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir, hefðu skilað einhvers konar áliti fremur en að láta álit sitt koma fram hér í ræðu vegna þess að þá hefði verið hægt að vinna öðruvísi með það. Það var ekki en ég þakka þó fyrir það sem vel er gert og þessi ræða var flutt af hreinskilni og einlægni að því er mér fannst.

Það eru tvær spurningar, önnur almenn, hin sértæk. Hin almenna er þessi: Ég náði því ekki í ræðunni af hvaða ástæðu þingmaðurinn leggst gegn tillögunum. Ég skil að hún leggst gegn tillögunum, af hvaða ástæðu er það? Eins og þetta snýr að mér eru þetta eins og svona já/nei-spurningar sem maður mætir stundum í leikjum. Maður segir já og þá fer maður á einn stað og maður segir nei og þá fer maður á annan stað. Fyrstu já/nei-spurningunni svaraði þingmaðurinn neitandi. Hún sagði: Mannréttindi eru ekki virt. Þar með á þetta sem sé ekki að gerast.

Í næstu já/nei-spurningu er spurt hvort einhvers konar sök sé fyrir hendi. Ef maður svarar nei er málið búið, ef maður svarar já þá er spurningin: Er hún nægilega líkleg? Hvar er það nei hjá hv. þingmanni sem veldur því að hún er á móti tillögunni?

Síðan verður auðvitað að spyrja á eftir: Hver er munurinn á þeirri pólitísku ábyrgð að hafa haft í frammi ranga stefnu í efnahagsmálum sem leiddi til þessa hruns — einhver af þessum ríkisstjórnum hlýtur að hafa haft það — og á þeirri lagalegu ábyrgð að hafa vanrækt hlutverk sitt og ekki komið í veg fyrir eða dregið úr því áfalli sem hér varð?