Málshöfðun gegn ráðherrum

Mánudaginn 20. september 2010, kl. 17:06:46 (0)


138. löggjafarþing — 163. fundur,  20. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[17:06]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er túlkun hv. þingmanns að í orðum mínum áðan og ræðu hafi falist vantraust á þingmannanefndina. Ég sagði að ég virti þau sjónarmið sem hún hefði komist að niðurstöðu um en ég áskil mér auðvitað rétt eins og hver annar þingmaður í salnum að hafa sjálfstæða skoðun á málinu og byggja þar m.a. á stjórnarskránni. Ég þakkaði þingmannanefndinni fyrir vel unnin störf og sagðist virða hennar sjónarmið en áskil mér líka rétt til að mín sjónarmið séu virt í þessu sambandi.

Það að reglurnar hafi verið settar fyrir ári síðan eða hvenær það var breytir engu um afstöðu mína til landsdóms og þess hve miklir gallar eru á honum og málsmeðferðinni eins og ég lýsti áðan.