Málshöfðun gegn ráðherrum

Mánudaginn 20. september 2010, kl. 17:08:41 (0)


138. löggjafarþing — 163. fundur,  20. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[17:08]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að ekki megi lesa það úr orðum mínum að ég leggi til að málið klárist ekki á þessu þingi og gangi yfir á næsta þing. Ég hvet til þess að við nýtum þann tíma sem við höfum til að skoða málið vandlega í nefnd. Ég nefndi ágallana sem mér finnst vera á málsmeðferðinni, að þeir sem lagt er til að verði ákærðir hafi ekki haft andmælarétt og að nefndin hafi ekki farið í sjálfstæða rannsókn í málinu. Mér finnst lágmark að þeir sem lagt er til að séu ákærðir eigi a.m.k. kost á því. Þeir geti þá valið að koma með andmælarétt inn í nefndina sem ég tel auðvitað sjálfsagt að þeir hefðu átt að hafa, ekki síst þegar þingmannanefndin víkur frá niðurstöðu rannsóknarnefndarinnar.