Málshöfðun gegn ráðherrum

Mánudaginn 20. september 2010, kl. 17:14:56 (0)


138. löggjafarþing — 163. fundur,  20. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[17:14]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir góða og skýra ræðu. Hún hefur lengi haft áhuga á því að afnema landsdóm og flytja verkefni hans til almennra dómstóla og þekkir það mál mjög vel. Við hefðum betur hlustað á hana þegar hún var almennur þingmaður. Ég vil spyrja hana, af því að hún þekkir þetta svo vel, varðandi Tamílamálið. Þegar maður ber þetta saman við danskan landsdóm þá hafði ráðherrann stöðu grunaðs manns þá þegar og rannsóknin hófst. Er það ekki öndvert við málið hér þar sem ráðherrarnir hafa ekki enn stöðu grunaðs manns þó að komin sé fram kæra?

Síðan langar mig til að spyrja hæstv. ráðherra sem var í ríkisstjórninni sem hér um ræðir, veit hún hvers vegna ríkisstjórnarfundir voru ekki haldnir? Var það vegna lausmælgi, ótta við að mjög verðmæt ríkisleyndarmál bærust út sem gætu valdið miklu tjóni eða hvað var það?