Málshöfðun gegn ráðherrum

Þriðjudaginn 21. september 2010, kl. 11:05:50 (0)


138. löggjafarþing — 164. fundur,  21. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[11:05]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þessi ræða byggðist á einhverjum allsherjarmisskilningi, að ég hafi ekki talið að heill ríkisins væri ógnað. Það kom hvergi fram í máli mínu. Ég taldi hins vegar að ekki væri hægt að heimfæra upp á embættisfærslur einstakra ráðherra einhverjar aðgerðir eða eitthvert athafnaleysi sem hefði stofnað heill ríkisins í hættu eða að þeir hefðu látið undir höfuð leggjast að grípa til einhverra aðgerða sem hefðu getað forðað okkur frá slíkri hættu. Um það snýst þetta mál.

Þetta snýst ekki um það hvort ríkinu hafi staðið einhver hætta af þeim aðstæðum sem komu upp á árinu 2008 og í aðdraganda þess árs, þetta mál snýst ekkert um það. Ég dreg ekki í efa að hv. þingmaður meini vel með þessari tillögu. Ég dreg ekki í efa að hv. þingmaður telji að hann sé að gera rétt, að hann sé að sinna þeirri skyldu sem hann telur á sér hvíla til að leggja fram ákæru í þessu máli.

En það er skoðun mín að mat hans á aðstæðum sé rangt. Það er rangt hvað varðar saknæmisskilyrðin, það er rangt hvað það varðar að hér hafi átt sér stað stórfellt hirðuleysi eða ásetningur. Það mat sem hv. þingmaður leggur á hina rúmlega 100 ára gömlu venju um það hvernig þessu valdi er beitt af þinginu er líka rangt. Það er ekki hægt að túlka orð þingmannsins með öðrum hætti en þeim að hann telji að þingið hafi ítrekað brugðist skyldum sínum, að þingmenn hafi í 100 ár látið undir höfuð leggjast að virkja þessi lög og þessi úrræði, það verður ekki komist að annarri niðurstöðu.

Ég er sammála þeim sem stóðu að þessari löggjöf, þeim sem stóðu hér fyrir um 50 árum síðan og sögðu hreint út: Þetta er algert neyðarúrræði. Þingræðið er það sem við notum til þess að koma ábyrgð yfir ráðherrana. Við víkjum þeim frá.

Samskipti stjórnar og stjórnarandstöðu, þings og framkvæmdarvalds eru að rata í algerar ógöngur með þeirri tillögu sem hér liggur frammi. (Forseti hringir.) Það er ástæðan fyrir því að valdinu hefur ekki verið beitt í rúma öld.