Málshöfðun gegn ráðherrum

Þriðjudaginn 21. september 2010, kl. 11:17:15 (0)


138. löggjafarþing — 164. fundur,  21. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[11:17]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef ekki sagt að ekkert hafi verið fyrirsjáanlegt. Þvert á móti. Ég skrifaði sjálfur grein í febrúar þetta ár og sagði að grípa yrði til aðgerða strax og ég listaði það upp sem ég taldi að þyrfti að gera eftir minni bestu vitund og þekkingu. Auðvitað var öllum ljóst að mikil hættumerki voru uppi. En var öll atburðarásin fyrirsjáanleg fyrir ráðherrana? Var hún þannig fyrirsjáanleg að það lægi fyrir miðað við sérþekkingu þeirra og þær aðstæður sem þeir bjuggu við þá hvað væri hægt að gera? Er hægt að halda því fram af einhverri sanngirni að menn hafi í kæruleysi setið í viðkomandi ráðherrastólum á þessum tíma, að menn hafi ekki starfað eftir bestu vitneskju og þekkingu af fullum heilindum við að reyna að bjarga hér verðmætum og heill þjóðarinnar? Ég held ekki. Það hefur ekkert með það að gera að mönnum var ljóst að mikil hættumerki voru uppi. Þó það nú væri. Skuldatryggingaálagið var komið í hæstu hæðir. Menn fengu engin lán. Við ræddum um það hér ítrekað — ítrekað í þessum sal — hversu alvarlegt ástandið væri. Auðvitað var mönnum ljóst að þetta gat allt farið á versta veg.

En það sem skortir á að sýnt sé fram á er hvernig hafi átt að bregðast við því og þá sérstaklega að menn hafi af ásetningi — af ásetningi — eða stórkostlegu hirðuleysi, eins og þingmennirnir halda fram, brugðist embættisskyldum sínum. Það er það sem við erum að ræða. Við erum ekkert að ræða um hvort hér hefði ekki mátt sjá að hætta steðjaði að, (Gripið fram í: Jú.) við erum ekki að ræða það. Við erum að ræða hvort ráðherrarnir eigi að sæta refsiábyrgð vegna þess að þeir hafi framið einhver afbrot í starfi sínu. Um það snýst umræðan.

Varðandi spurningu hv. þingmanns um rannsóknarnefndarskýrsluna stendur hún sjálfstæð. Með þeim skýringum um vanrækslu og mistök sem fram komu í skýrslunni tel ég ekki tilefni til að rifja upp hvert og eitt einstakt (Forseti hringir.) mat nefndarinnar um vanrækslu vegna þess að það mun engum tilgangi þjóna í þingsal.