Málshöfðun gegn ráðherrum

Þriðjudaginn 21. september 2010, kl. 11:20:44 (0)


138. löggjafarþing — 164. fundur,  21. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[11:20]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef svo margoft og ítrekað fjallað um það sem ég tel að hafi farið úrskeiðis. Það sætir furðu að menn komi hingað upp og segi að Sjálfstæðisflokkurinn vilji ekki horfast í augu við neitt. Hvað hef ég sagt? Ég hef sagt að regluverkið við einkavæðingu bankanna hafi verið ófullnægjandi, það hefði verið betra að byggja á dreifðri eignaraðild. Reglur um viðskipti eigenda bankanna við þá sjálfa voru algerlega ófullnægjandi. Peningarnir tóku völdin. Menn treystu um of á að markaðurinn leysti úr vandamálum sínum sjálfur án nauðsynlegs aðhalds frá stjórnvöldum. Ég get haldið áfram. Ég er búinn að segja þetta allt mörgum sinnum, (Gripið fram í.) margoft. (Gripið fram í: Svaraðu …) Það er algerlega fráleitt að koma hér upp og halda því fram að menn ætli ekki að draga neinn lærdóm af því sem gerðist. (Gripið fram í.) Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins taka undir með öðrum þingmönnum í þingmannanefndinni um þær tillögur sem hér eru lagðar fram. Mér lýst ágætlega á þær. Ég get tekið undir þá vanrækslu á þeim forsendum sem rannsóknarnefndin sjálf gefur sér um hugtökin mistök (Forseti hringir.) og vanræksla sem fram koma í skýrslunni.

Um hvort málið geti gengið til atkvæðagreiðslu vil ég segja: Það verður bara að koma í ljós. Það verður að koma í ljós hvernig málið þróast. Það er ekki tímabært að úttala sig um það. (Gripið fram í: Þá vitum við það.)