Málshöfðun gegn ráðherrum

Þriðjudaginn 21. september 2010, kl. 12:06:34 (0)


138. löggjafarþing — 164. fundur,  21. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[12:06]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum tillögur til þingsályktunar um málshöfðun gegn ráðherrum sem sátu í ríkisstjórn Íslands í aðdraganda hrunsins.

Virðulegi forseti. Það er ekki miklu að bæta við ræðu hv. þm. Ólafar Nordal. Ég vil samt reyna að rökstyðja þá niðurstöðu mína að ekki beri að kalla saman landsdóm og ákæra fyrrverandi ráðherra úr ríkisstjórn Íslands.

Í fyrsta lagi ef við víkjum að ákærunni. Niðurstaða sannleiksnefndar Alþingis er að fjórir embættismenn og þrír ráðherrar hafi sýnt af sér vanrækslu, þó ekki í skilningi laganna um ráðherraábyrgð. Óumdeilt er að sannleiksnefndin byggði á öðrum mælikvörðum við mat sitt en er að finna í lögum um ráðherraábyrgð. Saksóknari vísaði frá máli embættismannanna á grundvelli þess að ekki væri tilefni til ákæru á grundvelli rannsóknar. Þingmannanefndin skilaði hins vegar þrem niðurstöðum.

Í fyrsta lagi að fulltrúar Vinstri grænna, Hreyfingarinnar og Framsóknarflokksins telja að ákæra beri fjóra ráðherra; Geir Haarde, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, Björgvin Sigurðsson og Árna Mathiesen. Þeir eru því ósammála niðurstöðu sannleiksnefndarinnar um að Ingibjörg Sólrún hafi ekki sýnt af sér vanrækslu.

Í öðru lagi. Fulltrúar Samfylkingarinnar telja að ákæra beri þrjá ráðherra; Geir Haarde, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur og Árna Mathiesen. Fulltrúar Samfylkingarinnar eru ekki sammála sannleiksnefndinni um að Björgvin Sigurðsson hafi sýnt af sér vanrækslu, né heldur að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hafi ekki sýnt af sér vanrækslu.

Í þriðja lagi að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja að ekki beri að ákæra neinn ráðherranna. Þeir hafna því að um vanrækslu hafi verið að ræða í skilningi ráðherraábyrgðarlaganna.

Það vefst fyrir mér að fulltrúar allra flokka nema Sjálfstæðisflokksins hafa talið sig geta lagt annað mat á vanrækslutilefni en sannleiksnefndin þar sem engin sjálfstæð rannsókn fór fram á vegum þingmannanefndarinnar. Hvernig má það vera?

Annað atriðið: Ásetningur.

Ég held að enginn geti með góðu móti sakað fyrrverandi ráðherra um að hafa ætlað sér að knésetja fjármálakerfið á Íslandi í október 2008, enda hef ég engan með fullu viti heyrt halda því fram að um ásetningsbrot sé að ræða.

Þriðja atriðið: Vanræksla.

Er með góðu móti hægt að saka ráðherrana um vítaverða og stórfellda vanrækslu? Ljóst er að allt frá byrjun árs 2008 gat hver sem bar sig eftir því gert sér grein fyrir því að fjármálastofnanir á Íslandi voru í vanda staddar. Vilja menn virkilega halda því fram að ekkert hafi verið að gert til að afstýra eða lágmarka það tjón sem yrði ef versta niðurstaða fengist fram? Þannig voru bankastjórar stærstu banka á Íslandi kallaðir reglulega á fundi með forsætisráðherra og helstu ráðherrum frá janúar 2008 þar sem farið var yfir stöðuna og úrræða leitað.

Þegar nýr formaður var valinn í stjórn FME sagði hann að það væri eitt sitt fyrsta og helsta verkefni að færa erlenda innlánsreikninga í dótturfélög. Því miður tókst það ekki. Seðlabankinn rýmkaði reglur um veð í reglulegum viðskiptum hans við fjármálastofnanir til að létta á lausafjárskorti og koma peningamarkaði úr því frosti sem hann var allt vorið 2008. Veðhæfum eignum var fjölgað og reglur Evrópska seðlabankans voru hafðar hér til hliðsjónar og voru þær að nær öllu leyti fullkomlega sambærilegar. Í júní var samþykkt á Alþingi heimild til að taka fimm hundruð milljarða lán erlendis til að styrkja gjaldeyrisvarasjóðinn. Þá voru skiptasamningar gerðir við norrænu seðlabankana. Einnig var samið um að Ísland yrði aðili að samkomulagi Evrópusambandsþjóða um viðbrögð við fjármálakreppu til þess að auka fjármálastöðugleika á Evrópska efnahagssvæðinu. Í júní var tilkynnt um ráðstafanir tengdar Íbúðalánasjóði sem veittu fjármálafyrirtækjum möguleika á að koma húsbréfum í verð og bæta þannig lausafjárstöðu sína. Svo er það eitt aðalatriðið — um miðjan júlí réð forsætisráðherra efnahagsráðgjafa til þess að vera sér til halds og trausts varðandi aðgerðir. Í lok júlí var gjaldeyrisvarasjóðurinn aukinn um liðlega 12% með víxlaútgáfu ríkissjóðs. Í byrjun ágúst voru miklar þreifingar að frumkvæði forsætisráðherra að sameina Glitni og Landsbankann með aðkomu ríkisins með nýtt hlutafé og Kaupþings og að þá um leið gæfist færi á að minnka efnahagsreikning bankanna. Í lok júlí var þess farið á leit við Rússa að lána allt að 5 milljarða dollara til að styrkja gjaldeyrisvarasjóðinn. Allt frá miðju sumri stóðu yfir viðræður við Breta með aðkomu stjórnvalda um hvernig mætti leysa dótturfélagavandamál Landsbankans. Í byrjun ágúst var þess farið á leit við Kínverja að lána umtalsverðar upphæðir til að styrkja gjaldeyrisvarasjóðinn. Nú hefur verið gerður skiptasamningur við Kínverja sem byggður er á þessari beiðni, en það kom nú kannski svolítið seint. Í september voru viðræður við lífeyrissjóðina að frumkvæði forsætisráðherra að þeir færðu hluta eigna sinna erlendis til Íslands til að styrkja gjaldeyrisvarasjóðinn.

Þetta eru einungis nokkur dæmi sem eru valin næstum því af handahófi en þau eru valin vegna þess að ég tengist þeim beint eða óbeint. Það er ekki hægt með nokkurri sanngirni að halda því fram að menn hafi flotið sofandi að feigðarósi. Það er einfaldlega rangt. En augljóslega var ekki nóg að gert. En er það saknæmt? Á að krefjast refsingar yfir mönnum þótt þessar ráðstafanir hafi ekki skilað nægilega góðum árangri? Er það virkilega það sem menn vilja gera?

Fjórða atriðið: Stórfellt hirðuleysi.

Hvað með að ráðamenn hafi sýnt stórfellt hirðuleysi og þeir hafi ekki lagt sig fram um að lágmarka skaðann? Menn hafa gagnrýnt mjög samráðsnefndina svokölluðu. En menn hafa ekki látið þess getið að nefndin hafði lagt drög að neyðarlögunum og viðbrögðum ef allt færi á versta veg. Sagan af því þegar algjöru hruni fjármálakerfisins á Íslandi var afstýrt hefur ekki verið sögð. Eða hafa menn leitt hugann að því hvers lags afrek eða öllu heldur kraftaverk það var að greiðslumiðlun innan lands fór aldrei úr skorðum þrátt fyrir fall bankanna? Það komu ekki einu sinni hnökrar á kreditkortanotkun erlendis þegar bankarnir hrundu. Halda menn að það hafi verið af einhverri tilviljun? Eða var þetta e.t.v. vegna úthugsaðra viðbragða stjórnvalda sem á engan hátt er hægt að kenna við stórfellt hirðuleysi? Það er ótvírætt að með undirbúningi sínum tókst stjórnvöldum að afstýra enn meiri vá en raun varð á. Þetta mun sagan leiða í ljós.

Fimmta atriðið: Sakamálarannsókn.

Niðurstöður þingmannanefndarinnar eru byggðar á skýrslu sannleiksnefndar Alþingis. Þar voru menn kallaðir fyrir og skýrðu frá eftir bestu getu. Ég mætti fyrir nefndina, gaf skýrslu og svaraði spurningum og það var á engan hátt hægt að merkja að um einhvers konar yfirheyrslu væri að ræða af nokkru tagi eða um sakamálarannsókn væri að ræða. Það var einungis verið að reyna að varpa ljósi á hlutina í anda nefndarinnar, sannleiksnefndarinnar. Jafnframt er það svo að í sakamálarannsóknum hefur sakborningur ávallt andmælarétt. Það er ekki hægt að sjá á skýrslu sannleiksnefndarinnar að á nokkurn hátt hafi verið tekið tillit til andmæla þeirra sem mættu fyrir nefndina eða þeirra sem gafst kostur á andmælum, heldur voru þau birt til hliðar við skýrsluna á netinu.

Sjötta atriðið: Orsakasamhengi.

Það virðist vanta allt orsakasamhengi í ákæruna, eða í tillöguna. Ekki verður á neinn hátt séð að ráðherrarnir hafi með aðgerðum sínum eða aðgerðaleysi á tímabilinu 6. febrúar til 7. október 2008 orðið til þess að hættu sem steðjaði að fjármálakerfinu yrði afstýrt. Eins og ég skil orsakasamhengi á það til að mynda við ef ég kveiki á eldspýtu og ber að húsi sem í kjölfarið brennur þá er augljóst að um orsakasamhengi er að ræða. Ég hef orðið valdur að bruna hússins.

Sjöunda atriðið: Ósamkvæmni.

Sannleiksnefndin lét í 1. bindi hafa eftir sér að eftir árið 2006 hafi ekki verið hægt að bjarga fjármálakerfinu. Því kemur það á óvart að með aðgerðum eða aðgerðaleysi sínu á tímabilinu 6. febrúar til 7. október 2008 séu ráðherrarnir sakaðir um að hafa ekki sinnt því að afstýra stórkostlegri fyrirsjáanlegri hættu fyrir heill ríkisins. Hér er innra ósamræmi sem gengur ekki upp í sakamáli.

Áttunda atriðið: Líkur á sakfellingu.

Í sakamáli fer saksóknari ekki í þá vegferð að ná fram sakfellingu nema yfirgnæfandi líkur séu á sakfellingu. Það er ein af grunnstoðum réttarkerfis okkar að eftir þeirri meginreglu sé farið. Það er ekki sakfellt til að ná fram sýknu. Menn eru ekki saksóttir til að hreinsa mannorð þeirra. Af ástæðum sem ég hef rakið og mörgum fleiri tel ég litlar líkur á að hægt sé að ná fram sakfellingu og því eigi ekki að leggja í þessa vegferð. Það eru ekki rök að kallað sé á málsókn af almenningi. Það eru brot á mannréttindum og aðför að réttarríkinu því að réttvísin er blind.

Níunda atriðið: Fordæmi.

Hvers lags fordæmi er það sem við erum að skapa hér? Á að gera það saknæmt að boða ekki til ríkisstjórnarfunda um mikilvæg stjórnarmálefni? Á að gera það saknæmt að hafa ekki brugðist við aðsteðjandi ógn sem menn gátu á engan hátt gert sér grein fyrir á réttan hátt? Á að gera það að saknæmisefni fyrir ráðherra að bankakerfinu á Íslandi hafi verið stjórnað af glannaskap og áhættusækni hafi verið of mikil? Er með einhverri sanngirni hægt að segja að stjórnmálamenn og stjórnkerfi í öðrum löndum hafi undirbúið sig betur en stjórnmálamenn og stjórnkerfið á Íslandi? Í hvaða landi heims er til að mynda verið að draga stjórnmálamenn til ábyrgðar fyrir gjörðir bankamanna og afleiðingar fjármálakreppunnar sem geisaði í heiminum?

Af ofangreindum ástæðum öllum og fleirum til er það niðurstaða mín að ekki beri að sækja neinn ráðherranna til saka og mun ég því alfarið leggjast gegn báðum þingsályktunartillögum þingmannanefndarinnar. Það sem ég vil undirstrika er að ég vil einhvers konar réttlæti, ég vil ekki hefnd.

Málflutningur sumra hæstv. ráðherra og sumra hv. alþingismanna minnir mann í raun á annað lögmál varmafræðinnar — þ.e. þegar komið er það ástand að orðið hefur það sem við köllum varmadauða en það er þegar sameindahreyfingar sem ákvarða hita stöðvast við ákveðið stig — og þeir einhvern veginn telja að við þetta stig geti uppbyggingin og endurnýjunin einungis orðið, þ.e. að eins sé í varmafræðinni og með stjórnmálin og efnahagslífið að einhvers konar varmadauði verði að vera á Íslandi áður en við byggjum upp. Því hafna ég algjörlega og vísa aftur til fyrri orða minna að ég vil réttlæti en ekki hefnd.