Málshöfðun gegn ráðherrum

Þriðjudaginn 21. september 2010, kl. 14:15:50 (0)


138. löggjafarþing — 164. fundur,  21. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[14:15]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Nú erum við stödd á haustþingi, septemberstubbi, sem hefur það endamark að nýtt haustþing hefst 1. október. Ég er sammála þingmanninum, við eigum ekki að flýta okkur um of, við erum að tala um líf fólks, við erum að tala um mikilsverð mannréttindi sem við erum að velta fyrir okkur hvort séu virt. Við erum að tala um mjög alvarlega hluti, við erum að tala um að fólk gæti verið dæmt til fangelsisvistar þannig að ég er alveg sammála þingmanninum um að við eigum ekki að flýta okkur.

En bara til að ég fái það þá hreint út: Við erum þá ekki að tala um, ef þingmaðurinn fær að ráða, að við klárum þetta á þessu þingi, eða hvað?