Málshöfðun gegn ráðherrum

Þriðjudaginn 21. september 2010, kl. 14:16:56 (0)


138. löggjafarþing — 164. fundur,  21. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[14:16]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Ég skal ekkert um það segja hvort við ráðum við það að ljúka málinu á þessu þingi, frú forseti. Svo mikið er víst að við þurfum að ljúka því áður en að fyrningarfrestir gera það ókleift að afgreiða málið. Það væri lítill manndómsbragur að því fyrir þingið að láta málið lenda í útideyfu og fyrnast, sem það mundi gera ef okkur tækist ekki að ljúka þessu fyrir áramót.

Það er ekkert óhugsandi að ef málið færi til nefndar núna, sem það gerir væntanlega milli fyrri og síðari umr., að menn gætu fengið sérfræðiálit um það og komist að niðurstöðu. Það þyrfti ekki að taka svo langan tíma, en um það vitum við í raun og veru ekki fyrr en á það reynir. Ef hægt er að afgreiða málið fyrir upphaf næsta þings, fyrir 1. október, geri ég ekki athugasemd við það en aðalatriðið er að við flýtum okkur ekki um of og að við látum ekki þær spurningar sem ég varpaði fram reka á reiðanum vegna þess að það sé einhver tímapressa í málinu. Það finnst mér grundvallaratriði.