Málshöfðun gegn ráðherrum

Þriðjudaginn 21. september 2010, kl. 14:27:05 (0)


138. löggjafarþing — 164. fundur,  21. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[14:27]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Þau orð sem ég notaði í ræðu minni finnast öll í íslenskri orðabók. Það voru engin sérstök ummæli í ræðu forsætisráðherra, heldur frekar það viðmót sem mér fannst koma þar fram sem ég kann ekki að meta. Og mér fannst vegið að störfum nefndarinnar, mér fannst nefndarmenn gerðir tortryggilegir í þessari umræddu ræðu en ég er ekki að segja að þeir sem eru mér ekki sammála í þessu máli geti ekki haft rétt fyrir sér. Það eru vinnubrögðin og það viðhorf sem fram kom sem mér finnst ekki ásættanlegt. Og ég ítreka það hér að hver og einn þingmaður í þessu máli á að greiða atkvæði eftir eigin sannfæringu en ekki flokkslínum en þegar formaður stjórnmálaflokks, sjálfur forsætisráðherra, kemur upp í ræðustól Alþingis og gerir lítið úr störfum nefndarinnar finnst mér það ámælisvert.