Málshöfðun gegn ráðherrum

Þriðjudaginn 21. september 2010, kl. 14:28:20 (0)


138. löggjafarþing — 164. fundur,  21. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[14:28]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er gott að það kemur fram að það voru engin orð sem hv. þingmaður getur haft eftir hæstv. forsætisráðherra sem réttlæta hið gildishlaðna orðalag hennar um viðurstyggilega og ógeðslega afstöðu gagnvart niðurstöðum nefndarinnar, enda hafði nefndin enga eina niðurstöðu sem hægt var að byggja á. Ég minnist þess hins vegar þegar ég hlustaði á ræðu forsætisráðherra hér í gær, þótt ég sé ekki með það orðrétt, að hún þakkaði nefndinni fyrir störfin og tók það sérstaklega fram að hún teldi að nefndin hefði unnið af heilindum og fullri fagmennsku. Það voru óbreytt orð hæstv. forsætisráðherra, að ég tel að ég muni rétt, og ég kannast ekki við að nokkur þingmaður, a.m.k. ekki úr röðum Samfylkingarinnar, hafi gert lítið úr nefndinni, störfum hennar eða þeim erfiðu niðurstöðum sem nefndin hefur komist að. Við höfum öll fullan skilning á því þungbæra hlutskipti sem hv. þm. Atli Gíslason kallaði svo, að komast að þessari niðurstöðu, en við hljótum að áskilja okkur rétt til að vera henni ekki sammála eða hafa á henni skoðun. Í því felst engin niðurlæging gagnvart hv. þingnefnd heldur kannski frekar hitt að við eigum öll í erfiðum rökræðum við samvisku okkar og réttlætiskennd í þessu máli.