Málshöfðun gegn ráðherrum

Þriðjudaginn 21. september 2010, kl. 15:16:31 (0)


138. löggjafarþing — 164. fundur,  21. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[15:16]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi spurninguna um bankahrunið er það augljóst að bankarnir hrundu, það bara gerðist. Það var vitað í febrúar árið 2008 hvert stefndi. (PHB: Nei.) Að sjálfsögðu hefði þá átt að bregðast við með viðeigandi hætti, eins og formaður þingmannanefndarinnar hefur lagt til. Það hefði verið hægt að skipa tilsjónarmann með bönkunum. (Gripið fram í.) Það hefði verið hægt að taka utan um bankana og segja sem svo: Hér erum við komnir með allt of stórt bankakerfi, það er við það að fara á hausinn, nú verðum við einfaldlega að grípa til viðeigandi neyðarráðstafana til þess að koma í veg fyrir að hrunið verið algert. Það tókst að einhverju leyti í bankahruninu með því að halda greiðslumiðluninni opinni en það var algerlega ófyrirgefanlegt að þeir þingmenn og ráðherrar sem vissu af yfirvofandi bankahruni horfðu á landsmenn og almenning halda áfram að taka hér lán á kjörum sem þeir vissu að mundu ekki standast, horfðu á þá fremja fjárhagslegt sjálfsmorð án þess að lyfta litla fingri til að láta þá vita hvert stefndi. Það er, eins og hv. þm. Margrét Tryggvadóttir orðaði það áðan, ógeðslegt athafnaleysi að horfa upp á almenning í þessari stöðu og gera ekkert í málinu. Og það er ófyrirgefanlegt.

Það er ekki hægt að lýsa því yfir eins og hv. þingmaður gerir að það hefði ekki verið hægt að koma í veg fyrir bankahrunið fyrr því að bankarnir hefðu bara hrunið fyrr. Þeir hefðu hrunið fyrr en með miklu minni og vægari afleiðingum en urðu þegar upp var staðið. Við skulum ekki gleyma því.

Og varðandi það að hv. þm. Pétur Blöndal hafi beðist afsökunar á því að bera ábyrgð á þeirri löggjöf og þeirri hugmyndafræði sem var hér í gangi (PHB: Ekki …) finnst mér sú ábyrgð, (Gripið fram í.) sú afsökunarbeiðni vera léttvæg og ég tel alveg einboðið að hv. þingmaður eigi að sjálfsögðu, vegna ábyrgðar hans á þessu hruni, að segja af sér þingmennsku og leyfa þinginu að halda áfram inn á nýjar brautir. Það bara er þannig.