Málshöfðun gegn ráðherrum

Þriðjudaginn 21. september 2010, kl. 15:22:43 (0)


138. löggjafarþing — 164. fundur,  21. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[15:22]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er flókið mál sem við ræðum nú og vandasamt. Ábyrgð okkar er mikil. Hér hefur dálítið verið rætt um það í dag að áhugi sé á að víkja sér undan pólitískri ábyrgð. Því er ég ósammála. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við öxlum pólitíska ábyrgð á því sem gerst hefur og pólitíska ábyrgð á hruninu, þeir flokkar sem að því komu, og við öll sem þjóð, að við áttum okkur á þeim atburðum sem leiddu til hrunsins og öxlum ábyrgð af þeim og reynum að gæta þess að slíkt endurtaki sig ekki.

Það má ekki rugla saman ábyrgð á hruni og pólitískri ábyrgð og ákæru á hendur fólki fyrir saknæman verknað. Þar er um tvennt ólíkt að ræða. Sumir segja: Er ekki vandalaust að ákæra og sjá hvað kemur út úr málinu fyrir dómi? Ef við förum þá leið höfum við slík endaskipti á hlutunum og brjótum þá grundvallarreglu réttarfars sem við höfum búið við að ég tel ekki líðandi að ganga fram með þeim hætti. Við verðum að hafa í heiðri þá meginreglu réttarfars að líkur á sekt séu meiri en líkur á sýknu áður en við komumst að þeirri niðurstöðu að ákæra beri. Það er grundvallarregla réttarfars og við eigum að hafa hana í heiðri.

Virðulegi forseti. Þegar við förum yfir þetta mál liggur fyrir niðurstaða þingmannanefndar sem hefur rannsakað málið og farið yfir það. Við verðum síðan hvert og eitt þegar við greiðum atkvæði að meta út frá þessum líkum á sekt eða sýknu hvernig við viljum halda á atkvæði okkar, hvernig við viljum að málið gangi fram. Það er vandasamt í þessu máli að ákærurnar sem fyrir liggja frá þingmannanefndinni byggja á grunni sem er sérstaks eðlis, þ.e. á athafnaleysi þeirra sem ákærðir eru, að þeir hafi ekki gripið til aðgerða, en við það er tvennt að athuga: Annars vegar liggur ekki ljóst fyrir hverjar aðgerðirnar hefðu getað orðið og hins vegar er ákært á grundvelli atburðarásar sem ég tel að hafi ekki verið sönnuð eða leidd í ljós með fullnægjandi hætti.

Þingmannanefndin byggir hvað atburðarásina varðar á skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Eins góð og sú skýrsla er og gagnleg, og allt gott um hana að segja — og hér var áðan sagt vel og réttilega að hún er skýr, hún er skýrt fram sett, hún er greinargóð og hún tekur á erfiðum þáttum. En eins góð og hún er þá er hún ekki gagn sem hægt er að byggja á um einstök atvik þannig að hægt sé að byggja á þeim ákæru vegna þess að nefndin kemst að almennri niðurstöðu. Hún byggir niðurstöðu sína á tiltekinni heildarmynd. En einstakir atburðir í þeirri mynd kunna að orka tvímælis. Það sem er umdeilanlegt í ákærugrunninum er að byggt er á atburðalýsingu rannsóknarnefndarinnar sem þó hefur aldrei verið gagnprófuð, það hefur aldrei verið leitt í ljós svo óyggjandi sé að atburðarásin hafi verið með þessum hætti.

Ég ætla að leyfa mér að taka eitt dæmi. Það er um hinn fræga fund 7. febrúar sem farinn er að eignast sjálfstætt líf í hugum þjóðarinnar og gekk áðan í umræðum frá manni til manns til sannindamerkis um að tilteknar upplýsingar hefðu komið fram á þessum fundi 7. febrúar. Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis kemur fram að þessi niðurstaða, ályktun rannsóknarnefndarinnar um hvað gerðist á þessum fundi 7. febrúar, er byggð á framburði eins manns, studd framburði starfsmanns hans. Það var með öðrum orðum formaður bankastjórnar Seðlabankans og starfsmaður hans. Aðrir fundarmenn eru efnislega algerlega ósammála um það hvað gerðist á þeim fundi, hvort heldur er þáverandi utanríkisráðherra, þáverandi forsætisráðherra eða þáverandi fjármálaráðherra. Þeim ber saman um að á þeim fundi hafi ekki verið færðar fram neinar efnislegar athugasemdir eða viðvaranir sem hægt sé að túlka sem slíkar af hálfu formanns bankastjórnar Seðlabankans. Þvert á móti hefði verið um öskur og garg að ræða, samhengislausan þvætting frá honum þar sem hann tvinnaði saman blótsyrðum um bankamenn. Það er alveg ljóst að slíkar eru þær upplýsingar sem utanríkisráðherrann þáverandi skrifaði hjá sér í sína minnisbók og er vel að merkja eina skriflega gagnið frá þeim fundi.

Á þessum veika grunni er ákæra reist á hendur því fólki sem sat þennan fund. Eitt er að draga almenna ályktun eins og gert er í rannsóknarskýrslunni af þessum fundi, um að þarna hafi almennt orðið til einhver vitneskja hjá ráðherrunum þremur. En að reisa ákæru fyrir saknæmt athæfi á svo veikum grunni hlýtur að orka tvímælis. Að byggja á þessu eina vitni sem, held ég að óhætt sé að fullyrða, verður að teljast eitt alóáreiðanlegasta vitnið um atburðarás ársins 2008 sem um getur. Ég held að formaður bankastjórnar Seðlabankans, Davíð Oddsson, sé einhver mótsagnakenndasti leikarinn í þessari atburðarás. Ekki nóg með að hann segi, til að koma sér undan ábyrgð sjálfur, að hann hafi sagt tiltekna hluti 7. febrúar sem aðrir fundarmenn kannast ekki við. Hann er líka maðurinn sem skellir skollaeyrum við viðvörunum jafnt breska seðlabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og leynir hvoru tveggju fyrir ráðherrunum.

Hann segir okkur síðan á viðskiptanefndarfundi undir árslok 2008 að hann hafi sagt við forsætisráðherrann í júnímánuði 2008 að það væru 0% líkur á að bankarnir mundu lifa af árið 2008. Engu að síður fer þetta trúverðuga vitni og lánar 300 milljarða af almannafé til þessara sömu banka eftir þessa yfirlýsingu án nokkurra haldbærra veða. Það hlýtur að verða að draga mjög í efa trúverðugleika þessa stjörnuvitnis, Davíðs Oddssonar, þegar þessi forsaga er höfð í huga. Með öðrum orðum, það stendur ekki steinn yfir steini í neinum af hans framburðum og það er engin leið að sjá röklegt samhengi atburðarásar út úr því sem hann segir. Þvert á móti virðist blasa við að hann segir bara það sem honum hentar hverju sinni til að reyna að koma sök á aðra. Eða hvernig á annars að vera hægt að fá einhvern botn í það að sami maður og segir í júnímánuði 2008 að 0% líkur séu á að bankarnir lifi út árið vaði síðan fram og láni þeim 300 milljarða af almannafé án nokkurra veða? Þetta gengur ekki upp og við eigum að vera hafin yfir það sem réttarríki að reisa ákæru á hendur fólki á grundvelli jafnveikburða og mótsagnakennds framburðar og þessa.

Virðulegi forseti. Það er vandamál að það vantar traustari atburðalýsingu sem grunn fyrir ákærunni. Rannsóknarnefndin hefði getað efnt til framhaldsrannsóknar eða lagt fram frumvarp til að opna sakamálarannsókn. Það er vel að merkja sú aðferðafræði sem notuð var í Tamílamálinu af því að hér er mikið vitnað til þess. Þar var efnt til sjálfstæðrar sakamálarannsóknar áður en málið fór í landsdómsferlið og hún er grunnurinn, hún haslar völlinn, hún sannar tiltekna atburðarás, tiltekna röð atburða. Þá er réttarstaða sakborninga líka tryggð þannig að þeir viti um hvað málið eigi að snúast. En það hefur ekki enn verið afmarkað með fullnægjandi hætti, t.d. gagnvart þáverandi utanríkisráðherra sem hefur aldrei fengið að sjá fyrr en í ákæruskjalinu sjálfu eitthvert afmarkað sakarefni.

Virðulegi forseti. Það er margt sem fór úrskeiðis á árinu 2008. Fyrir liggur niðurstaða rannsóknarnefndar Alþingis um að atburðirnir á árunum þar á undan, líklega á sex ára tímabili, hafi hver á fætur öðrum leitt til þeirrar stöðu að hrun varð óumflýjanlegt. Og reyndar er það niðurstaða rannsóknarnefndarinnar að eftir árið 2006 hafi ekki verið hægt að koma í veg fyrir hrun. Eftir það hafi þetta fyrst og fremst snúist um að lágmarka tjón. Mér finnst skorta í ákæru einhverjar skýringar á því hverjar þær aðgerðir gætu verið sem hefðu raunverulega skipt efnislega máli á þessum tímapunkti, á árinu 2008 því að það er auðvitað ákærutímabilið sem verið er að horfa til fyrst og fremst, aðgerðir á árinu 2008.

Okkur hættir líka stundum til að horfa ekki út fyrir ramma. Það fór margt úrskeiðis en það var líka ýmislegt sem tókst vel. Ísland var ekki eina landið sem lenti í efnahagslegu áfalli í árslok 2008. Tökum dæmi af nágrönnum okkar Írum. Þar fór margt úrskeiðis, t.d. vegna þess að ríkisstjórn Írlands gerði kannski það sem menn eru að ásaka menn fyrir að hafa ekki gert. Hún fór á taugum og tók ákvarðanir og ríkisvæddi tjón bankanna með yfirlýsingu nokkrum dögum áður en hrunið varð á Íslandi þar sem ríkisstjórnin tilkynnti að hún mundi ábyrgjast innstæður í öllum bönkum írskum og ábyrgjast rekstur þeirra. Kröfuhafarnir voru orðnir öryggir. Það var búið að ríkisvæða tjónið.

Það sem er varhugavert er akkúrat það að gefa sér að einhverjar tilteknar aðgerðir stjórnmálamanna á árinu 2008 hefðu getað forðað tjóni en samt sem áður ekki bakað ríkinu neina skaðabótaskyldu. Inngrip af hálfu stjórnvalda hefði líklega, eða alla vega mjög vel mögulega, getað kallað bótaábyrgð yfir ríkið. Inngrip af því tagi sem hér var nefnt áðan af einum hv. þingmanni, t.d. að segja sannleikann um bankana, að tala niður bankana — hvernig hefði því verið tekið á árinu 2008 að tala mikið um hversu veikt bankarnir stóðu? Ég stóð í umræðum um efnahagsmál í þessum sama stól 2. september 2008 og rakti það sem nú hefur komið í ljós að íslenska krónan væri of veikur grunnur og við yrðum að setja aðra stefnu fyrir alþjóðavætt hagkerfi en þennan gjaldmiðil. Þá var ég gagnrýndur fyrir að tala niður krónuna. Í sömu umræðum lagði formaður Framsóknarflokksins til stórfelldar skattalækkanir, tafarlausar, og tafarlausa lækkun vaxta, þáverandi formaður Framsóknarflokksins. (SDG: Þetta er ekki rétt.) Jú, jú, 2. september 2008. Þetta hefði leitt til enn meiri vanda.

Það er ekki þannig að í hinu pólitíska andrúmslofti eigi menn frjálst val um allar aðgerðir á öllum tímum. Ég held þess vegna að við verðum að reyna að horfa af sanngirni og heiðarleika yfir þetta svið. Það voru margar ákvarðanir á löngum tíma sem ollu hruni en mér finnst afskaplega erfitt að sjá að hægt sé að sýna fram á að saknæm vanræksla liggi að baki að einhverju leyti. Við eigum hins vegar að ræða af fullri hreinskilni hvað það var sem gerðist og hvaða atburðarás leiddi okkur til þessa hruns. En við eigum ekki að kaupa þá ódýru lausn að með því að ákæra einhverja einstaklinga fyrir einhverjar óskilgreindar vanrækslusyndir losum við okkur undan ábyrgð á því að svara fyrir þetta hrun. Þannig verður það ekki. Við munum öll þurfa að svara hvar við vorum og hvort við lögðum gott til eða ekki í aðdraganda þessa hruns, og það eigum við öll að gera. Og það eiga stjórnmálaflokkar líka að gera. Af því að ábyrgð Samfylkingarinnar var nefnd hér áðan þá á Samfylkingin ekki að skjóta sér undan því. Hún á að ræða það einlæglega hvað var rétt gert og hvað misfórst á ríkisstjórnartíð hennar. En það er ekki hluti af þeirri lausn að kasta syndunum aftur fyrir sig með því að fórna einhverju fólki og forðast að horfast í augu við aðgerðir og atburðarás.

Mistök voru gerð í hagstjórn árið á undan og ef við ræðum þau ekki eins og þau voru er stórhætta á að við lendum aftur í sömu súpunni. Ef við staðfestum það ekki í okkar huga að það var rangt að lækka skatta á þessum tímum, það var rangt að ganga gegn eðlilegum viðmiðum um blandað hagkerfi, það var rangt að beita ekki sveiflujöfnunartækjum sem stjórnvöld höfðu og það var röng efnahagsstefna sem rekin var á árinu 2003–2007. Ef menn horfast ekki í augu við það þá er hætta á því að við gerum þetta aftur. Ef við horfumst ekki í augu við það sjálf, samfylkingarfólk, að það var líka vanmat okkar að það væri yfir höfuð hægt að snúa af þessari braut, þá er það líka vangá. Við eigum að horfast í augu við það að ef við hefðum haft alla vitneskjuna sem við höfum núna þá hefðum við væntanlega gripið til annarra aðgerða strax í upphafi þessa stjórnarsamstarfs vegna þess að það var ljóst, sem okkur grunaði mörg, að krónan var of veikur gjaldmiðill til að þola frjáls milliríkjaviðskipti og sveiflur hennar og veikleiki hagkerfisins kallaði yfir okkur mikla erfiðleika. Menn reisa ekki alþjóðlegt fjármálakerfi á minnsta fljótandi gjaldmiðli í heimi. Það er líka lexía sem við eigum að læra. Allar þessar lexíur eigum við að læra og við eigum að horfast í augu við þær af hreinskilni. Við eigum að axla sanna ábyrgð en við eigum ekki að ákæra fólk ef ekki eru meiri líkur á sekt en sýknu.