Málshöfðun gegn ráðherrum

Þriðjudaginn 21. september 2010, kl. 15:39:25 (0)


138. löggjafarþing — 164. fundur,  21. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[15:39]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ágæta ræðu, skýra og málefnalega. Mig langar að varpa til hans spurningu. Er það niðurstaða hæstv. ráðherra að tillaga til þingsályktunar, sem liggur fyrir af hálfu þingmannanefndarinnar varðandi viðbrögð Alþingis við skýrslu rannsóknarnefndarinnar, sé fullnægjandi? Við leggjum til að Alþingi álykti að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis sé áfellisdómur yfir stjórnvöldum, stjórnmálamönnum og stjórnsýslu. Jafnframt ályktum við, þar sem ráðherrann fór inn á efnahagsmálin, að þingmannanefndin telur að mistök hafi verið gerð í hagstjórn og ríkisfjármálunum á árinu 2003 o.s.frv.

Jafnframt erum við með harðorða ályktun varðandi einkavæðinguna. Þar kemur fram mat nefndarinnar um að skýrsla rannsóknarnefndarinnar sé áfellisdómur yfir verkferlinu við sölu ríkisbankanna og vinnubrögðum ráðherranna sem voru í forsvari við einkavæðingu bankanna. Er þetta allt sem Alþingi þarf að segja eða var ráðherrann að tala um eitthvað annað?