Málshöfðun gegn ráðherrum

Þriðjudaginn 21. september 2010, kl. 15:44:55 (0)


138. löggjafarþing — 164. fundur,  21. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[15:44]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég rakti í ræðu minni þá tel ég mig hafa fært fram ákveðin sjónarmið því til rökstuðnings. Annars vegar sé grunnur atvika sem ákært er fyrir hvorki í ljós leiddur né rökstuddur. Hvað varðar atburðarásina frá 7. febrúar er einungis einn maður til frásagnar og það er versti sökudólgur þeirra allra, þáverandi aðalbankastjóri Seðlabankans. Þetta eru efnislegar athugasemdir um að ekki sé í ljós leitt hver atburðarásin var.

Hitt sem ég hef fært fram sem athugasemd við að ákæra geti staðist er að ég sé ekki hverjar aðgerðirnar hefðu átt að vera og mér finnst skorta umfjöllun þar um. Þetta tvennt þarf ég að fá fram og það eru efnisleg sjónarmið. Ég bendi líka á að fólkið fékk ekki tækifæri til að hafa réttarstöðu sakborninga (Forseti hringir.) áður en rannsóknin hófst eins og gert var í Tamílamálinu því mikið hefur verið vitnað í Tamílamálið.