Málshöfðun gegn ráðherrum

Þriðjudaginn 21. september 2010, kl. 15:47:22 (0)


138. löggjafarþing — 164. fundur,  21. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[15:47]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það eru bara allir þeir sérfræðingar sem við höfum rætt við, sérfræðingar jafnvel sem aðstoðuðu nefndina, sammála um að okkur beri að taka ekki þessa ákvörðun ef við teljum meiri líkur á sýknu en sekt. Það eru ráðin sem við fáum frá helstu sérfræðingum í réttarfari, refsirétti, stjórnskipunarrétti og ég er einfaldlega að reyna að tala fyrir því hvernig ég horfi á málið eins og staðan er í dag. Eru meiri líkur á sekt en sýknu?

Það er alveg hægt að reyna að tala það inn í það að verið sé að komast undan ábyrgð. Ég er ekki að reyna að komast undan ábyrgð, síður en svo. En ég hef aldrei trúað á pólitísk réttarhöld. Ég hef aldrei trúað á það að menn eigi að taka ákvarðanir á pólitískum forsendum um að henda mönnum fyrir dóm. Slíkt er ekki til farsældar fallið fyrir nokkurt samfélag. Það á að vinna á grundvelli forsendna réttarríkisins. Þetta eru ráðin sem við fáum: Horfið til þess sem horfir til sektar eða sýknu og takið einungis ákvörðun um að efna til ákæru ef þið eruð sannfærð um að það séu meiri líkur á sekt en minni.