Málshöfðun gegn ráðherrum

Þriðjudaginn 21. september 2010, kl. 15:48:42 (0)


138. löggjafarþing — 164. fundur,  21. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[15:48]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég heyrði það á ræðu hæstv. ráðherra að fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, Davíð Oddsson, er honum mjög hugleikinn og allt í góðu lagi með það. En ég verð að segja að margt í ræðu hæstv. ráðherra um þann mann var heldur ósæmilegt og ekki með þeim hætti sem við viljum sjá hér, að ræða þannig um einstaklinga sem ekki geta svarað fyrir sig úr þessum sama ræðustól. En mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra: Gerði Seðlabanki Íslands á þessum tíma eitthvað annað en seðlabankar annarra landa voru að gera í efnahagskrísunni varðandi fjárveitingar til fjármálafyrirtækja? Hvað hefði hæstv. ráðherra t.d. sagt ef Seðlabankinn hefði ekki sinnt bönkunum í lausafjárkrísunni og ekki veitt þeim neina fyrirgreiðslu? Hvað hefði gerst? Ég held að þeir hefðu farið á hausinn þann sama dag. (Forseti hringir.) Er ekki hæstv. ráðherra sammála mér um það og af hverju gerði hæstv. ráðherra engar athugasemdir á þeim tíma?