Málshöfðun gegn ráðherrum

Þriðjudaginn 21. september 2010, kl. 15:49:59 (0)


138. löggjafarþing — 164. fundur,  21. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[15:49]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það verður að vera hægt að tala af hreinskilni um frammistöðu stjörnuvitnisins mikla, formanns bankastjórnar Seðlabankans. Verið er að reisa stóran hluta ákærunnar á grundvelli framburðar hans og sá framburður hefur aldrei staðist nokkra skoðun og innbyrðis þversagnir þar svo svakalegar að engu tali tekur.

Það er nokkurn veginn einsdæmi, hv. þingmaður, hvernig Seðlabanka Íslands tókst að lána íslenskum bönkum peninga án þess að hafa nokkur haldbær veð. Í flestum öðrum löndum tókst seðlabönkum að lána viðskiptabönkunum en fengu í staðinn einhver veð sem héldu, t.d. veð í undirliggjandi eignasöfnum. Það var ekki gert hér á landi. Ástarbréfaútgáfa Seðlabankans er þessi stórkostlega efnahagsuppfinning þáverandi formanns bankastjórnar Seðlabankans sem verður auðvitað að vera minnisvarði hans um aldur og ævi og til vitnis um mikla stjórnsnilld hans.