Málshöfðun gegn ráðherrum

Þriðjudaginn 21. september 2010, kl. 15:51:13 (0)


138. löggjafarþing — 164. fundur,  21. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[15:51]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Þá skulum við líka ræða aðeins um frammistöðu Samfylkingarinnar sem hæstv. ráðherra virðist búinn að gleyma af því að ég heyri að Samfylkingin vill fyrst og fremst einblína á árin 2001–2007 og það er allt í lagi. Ég vil minna hæstv. ráðherra á að þáverandi varaformaður Samfylkingarinnar, Ágúst Ólafur Ágústsson, talaði um það úr þessum ræðustól að Samfylkingin væri eini raunverulegi skattalækkunarflokkurinn á Íslandi fyrir kosningarnar 2007 en ekki Framsóknarflokkurinn eða Sjálfstæðisflokkurinn. Þessu verður auðvitað að halda til haga þegar hæstv. ráðherra er að gagnrýna skattatillögur annarra flokka.

Ég vil síðan benda hæstv. ráðherra á að á þessum tíma, þ.e. í árslok 2005 og 2006, birti t.d. Morgunblaðið margar greinar um stöðu íslenska bankakerfisins, álitsgerðir innlendra og erlendra greiningardeilda. (Forseti hringir.) Engum þingmanni Samfylkingarinnar datt í hug á þeim tíma að taka undir þessi sjónarmið eða hafa uppi nokkur varnaðarorð (Forseti hringir.) lík þeim sem hæstv. ráðherra vill halda að gera hafi átt á þeim (Forseti hringir.) tíma nú.