Málshöfðun gegn ráðherrum

Þriðjudaginn 21. september 2010, kl. 16:19:54 (0)


138. löggjafarþing — 164. fundur,  21. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[16:19]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef ekki sagt að Vinstri hreyfingin – grænt framboð hafi séð hrunið fyrir. Ég sagði hins vegar að hafður var uppi málflutningur af hálfu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í mörg ár um þau alvarlegu teikn sem væru á lofti og það yrði að grípa til ráðstafana, sem ekki var gert. Það hefði kannski mátt hlusta á það.

Varðandi stærsta lífeyrissjóð landsmanna, sem þingmaðurinn nefndi, þá kannast ég ekki við að Vinstri hreyfingin – grænt framboð hafi stýrt honum. Hvað varðar aðrar spurningar eins og pólitísk réttarhöld þá lít ég ekki svo á að hér séu á ferðinni pólitísk réttarhöld. Málið er einfaldlega þannig að hér er þingsályktunartillaga um málshöfðun gegn ráðherrum sem byggir á málsmeðferðarreglum sem kveður á um í lögum um ráðherraábyrgð og landsdóm. Það er einfalt að svara því þannig og það er að mínu mati í samræmi við þau (Forseti hringir.) mannréttindaákvæði sem menn hafa gera að umtalsefni. Þau eru virk samkvæmt lögum og rökstuðningi sem kemur fram í greinargerð meiri hluta þingmannanefndarinnar.