Málshöfðun gegn ráðherrum

Þriðjudaginn 21. september 2010, kl. 16:22:44 (0)


138. löggjafarþing — 164. fundur,  21. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[16:22]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hefur skotið upp kollinum pólitísk nauðhyggja í þessari umræðu. Hún gengur út á það að pólitísk samstaða hafi verið um að setja á laggirnar rannsóknarnefndina og þingmannanefndina og því eigi menn að samþykkja undanbragðalaust allt sem þaðan komi.

Ég kannast ekki við að lagt hafi verið upp með málsmeðferð sem væri þannig að úr því að menn samþykktu málsmeðferðina og leikreglurnar eigi þeir einnig að kvitta fyrir fram upp á niðurstöðuna. Ég geri það ekki. Ég tel það hafa komið mjög skýrt fram í umræðunni að það eru alvarlegar veilur í ákærum sem kynntar voru í þingsályktunartillögum. Hv. þingmaður verður að líta þannig á það. Í þessu er ekki fólgið vantraust á fólkið sem starfaði í þingmannanefndinni. Það er einfaldlega verið að benda á að þarna eru miklar veilur.

Hæstv. forsætisráðherra gerði það mjög vel í málefnalegri umræðu í gær og uppskar miklar, mér liggur við að segja (Forseti hringir.) árásir fyrir vikið. Hv. þm. Bjarni Benediktsson og Ólöf Nordal gerðu það sömuleiðis með efnislegum rökum. Það er einfaldlega þannig að við (Forseti hringir.) erum komin að þeim tímapunkti að það er búið að sýna fram á að það eru alvarlegar veilur í málatilbúnaði þeirra sem vilja ákæra í þessum efnum.