Málshöfðun gegn ráðherrum

Þriðjudaginn 21. september 2010, kl. 16:25:26 (0)


138. löggjafarþing — 164. fundur,  21. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[16:25]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er spurning um efnisatriði og formið. Efnisatriðin eru klár, það kom fram m.a. í máli hæstv. forsætisráðherra í gær. Fjölmargir þingmenn, m.a. þeir sem ég nefndi hérna áðan, hafa fært fram gild rök að það standi ekki efni til þess að ákæra.

Þetta er líka spurning um formið. Núna gerum við meiri kröfur sem lúta að réttindum meintra sakborninga. Þetta eru spurningar um mannréttindi. Það væri fáheyrt ef við, við þessar aðstæður, tækjum ekki tillit til þróunarinnar sem orðið hefur. Það er útúrsnúningur af hv. þingmanni að segja sem svo að reynt sé að sveigja leikreglurnar frá því sem við lögðum af stað með. Í upphafi lögðum við af stað með málið vegna þess að við vildum komast til botns í því. Við vildum átta okkur á því hvar ábyrgðin lægi. Það gerir það ekki að verkum að við séum tilbúin til þess að kvitta upp á ákæruferli sem stenst síðan ekki (Forseti hringir.) meginreglur réttarríkisins eins og við skoðum þær í dag.