Málshöfðun gegn ráðherrum

Þriðjudaginn 21. september 2010, kl. 16:26:38 (0)


138. löggjafarþing — 164. fundur,  21. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[16:26]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þingmaðurinn sagði að það hefði legið fyrir að kröfurnar sem við gerum til réttlátrar málsmeðferðar og mannréttinda hafi legið fyrir strax í upphafi — eða umgjörðin sem við höfum á málinu stæðist ekki þær kröfur sem við gerum í dag. Þá spyr ég aftur: Af hverju var umgjörðinni þá ekki breytt í upphafi máls áður en lagt var af stað í þessa vegferð? Mér finnst það mjög sérkennilegt satt að segja.

Ég tel að það hafi verið góð samstaða um það hvernig leggja eigi málið upp og hvernig vinnu eigi að vinna. Það kom fram í gögnum samþykktum á Alþingi að m.a. ætti þingmannanefndin að fjalla um ábyrgð að því marki sem heyrði undir Alþingi. Það vita allir hvað það þýðir. Það þýðir að fjallað verður um ráðherraábyrgðina m.a. með hliðsjón af lögunum um landsdóm.