Málshöfðun gegn ráðherrum

Þriðjudaginn 21. september 2010, kl. 16:29:14 (0)


138. löggjafarþing — 164. fundur,  21. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[16:29]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Það líður að lokum þessarar umræðu að því er virðist og margt hefur komið fram sem ástæða væri til að árétta sérstaklega.

Í ræðu minni í gærkvöldi staldraði ég fyrst og fremst við tvö meginatriði sem þingmenn verða að hafa í huga þegar þeir taka afstöðu til þeirra ákærutillagna sem hér eru til umræðu. Annars vegar er um að ræða þá meginreglu sakamálaréttarfars sem hvarvetna ríkir þar sem byggt er á hugmyndum um réttarríkið að einungis skuli ákæra þegar ákærandi telur meiri líkur á sakfellingu en sýknu fyrir dómi. Það er mikilvægt að hafa það í huga vegna þess að ákæruvaldinu á ekki að beita í einhverju tilraunaskyni heldur því aðeins að sá sem fer með ákæruvaldið telji sig hafa nægileg gögn og rök í höndunum til þess að ná fram sakfellingu í málinu. Ákæruvaldið er mikið vald sem ríkið hefur og því ber að beita af varfærni.

Það skiptir okkur talsvert miklu máli þegar við erum í hlutverki handhafa ákæruvalds. Það er rétt sem hv. þm. Árni Þór Sigurðsson sagði í ræðu sinni áðan, við erum í þingsal en ekki réttarsal, en á hinn bóginn verðum við að taka tillit til lagalegra sjónarmiða þegar við leggjum mat á verkefnið sem fyrir okkur liggur. Við getum ekki leyft okkur að taka tillit til einhverra annarra sjónarmiða en lagalegra í því sambandi.

Þegar við leggjum mat á málið, þó að við séum í þingsal en ekki réttarsal, gætum við t.d. haft í huga ákveðna leiðbeiningu. Hér hefur í umræðu einu sinni eða tvisvar verið vísað til leiðbeininga frá Þórði Björnssyni, fyrrverandi ríkissaksóknara, en hann segir í leiðbeiningum sem lesa má um í Morgunblaðinu frá 1986, að við mat sitt á því hvort líklegt sé að mál leiði til sakfellingar eða sýknu gæti það verið saksóknara til leiðbeiningar að setja sig í spor dómara og spyrja sjálfan sig hvort hann teldi sem dómari lögfulla sönnun vera komna fram fyrir sök. Það er ágætt að hafa þá leiðbeiningu í huga. Þó að við séum ekki í réttarsal heldur í þingsal verðum við að taka tillit til þessara sjónarmiða. Ef málið gengur til landsdóms mun það verða dæmt á lagalegum forsendum, engum öðrum.

Hin meginreglan sem ég fjallaði nokkuð um er að þingmenn verða að hafa í huga þegar þeir meta líkur á sakfellingu eða sýknu, þegar þeir meta líkurnar á því hvort landsdómur í þessu tilviki muni sakfella menn eða sýkna, að við dómsmeðferð í máli af þessu tagi eins og öllum öðrum sakamálum ber að skýra vafa hinum ákærða í hag. Allur vafi skal túlkaður hinum ákærða í hag, bæði varðandi málsatvik og lagarök. Í því felast mikilvægar leiðbeiningar fyrir okkur þingmenn þegar við tökum afstöðu til þess sem hér um ræðir.

Þau tvö grundvallarsjónarmið sem ég hef vikið að hljóta að leiða til þess að þingmenn skoði hug sinn vandlega áður en þeir komast að niðurstöðu og meti hlutina af mikilli varfærni þegar þeir taka ákvörðun um hvort þeir vilja ákæra eða ekki. Alþingi getur ekki frekar en aðrir handhafar ákæruvalds leyft sér að fara fram með mál sem byggir á einhverjum öðrum grundvelli en þeim grundvallarsjónarmiðum sem ríkja eiga í sakamálaréttarfari og ráða ríkjum í löndum þar sem sjónarmið réttarríkisins eru virt. Það þýðir að pólitísk sjónarmið, hvort sem um er að ræða flokkspólitísk eða hugmyndafræðileg sjónarmið, eiga ekki heima í þessari umræðu. Löngun til að gera upp við fortíðina með einhverjum almennum hætti, löngun til að gera upp við stjórnmálamenn eða stefnur á ekki heima í þessari umræðu.

Við vorum að fjalla um skýrslu þingmannanefndarinnar, hina almennu skýrslu, í síðustu viku. Þar höfðu menn tækifæri til að fara í slíka umræðu. Hér erum við að tala um ákærutillögur. Þar eiga sjónarmið af þessu tagi ekki heima. Það nefndi ég sérstaklega í gær og tel ástæðu til að ítreka í dag vegna þess að í ýmsum ræðum þingmanna, ekki allra sem betur fer, sem hér hafa verið fluttar til stuðnings þessum ákærutillögum hefur verið látið í veðri vaka að málsókn, höfðun refsimáls gegn fyrrverandi ráðherrum sé nauðsynlegur þáttur í uppgjöri við hrunið. Því hefur verið haldið fram ítrekað að það sé nauðsynlegt til að samfélagið geti gert upp við hrunið að fara í refsimál gegn tilteknum fyrrverandi ráðherrum. Það er ekki svo. Í því liggur sá grundvallarmisskilningur sem hæstv. félagsmálaráðherra vék reyndar ágætlega að áðan, grundvallarmisskilningur sem felst í því að rugla saman pólitískri ábyrgð og refsiábyrgð.

Til að reyna að segja það í stuttu máli og einfölduðu liggur hin pólitíska ábyrgð ráðherra fyrst og fremst í þingræðisreglunni. Ráðherra verður að sækja stuðning til þings til að geta setið áfram í embætti. Það er hið þingræðislega aðhald sem ráðherrum er veitt. Ráðherrar bera líka pólitíska ábyrgð gagnvart kjósendum sínum í kosningum og þeir þingmenn sem styðja viðkomandi ráðherra bera ábyrgð á því gagnvart kjósendum sínum. Í því liggur hin pólitíska ábyrgð, svo það sé stytt og einfaldað. Hins vegar er alveg klárt að samkvæmt löggjöf okkar búa ráðherrar líka við refsiábyrgð og um það er fjallað í ráðherraábyrgðarlögum og stjórnarskrá. Þar er um að ræða refsiábyrgð, ábyrgð vegna refsiverðra brota. Þegar menn vilja ná fram pólitískri refsingu, eða pólitísku uppgjöri skulum við segja til að rugla ekki saman hugtökum, þegar menn vilja gera upp pólitískt fara menn ekki í refsimál. Það er ekki heimilt. Pólitískt mál á að leysa á pólitískum forsendum eftir leikreglum stjórnmálanna, refsimál, gegn ráðherrum í þessu tilviki, á að reka á öðrum forsendum og þar gilda grundvallarsjónarmið sakamálaréttarfars, pólitíkin skiptir þar engu. Þegar menn koma með mál fyrir landsdóm hlýtur hann að henda út öllum pólitískum sjónarmiðum og dæma á lagalegum grundvelli og það er atriði sem skiptir máli þegar við stöndum í þeim sporum að meta hvort meiri líkur séu á sakfellingu en sýknu.

Þetta vildi ég árétta, hæstv. forseti. Ég hef áður, ásamt fleiri hv. þingmönnum, þar á meðal formanni og varaformanni Sjálfstæðisflokksins hv. þm. Bjarna Benediktssyni og Ólöfu Nordal auk m.a. hv. þm. Unnar Brár Konráðsdóttur sem flutti ágæta ræðu í gær, rakið þær sterku efasemdir sem við höfum um hinn lagalega grundvöll sem málsóknartillögurnar byggja á. Við höfum nefnt fjölda atriða sem varða saknæmi, sem varða refsiheimildir, sem varða það hvort hægt sé að færa tiltekin meint brot til refsiákvæða o.s.frv., og lýst því að við teljum að vafinn sé slíkur (Forseti hringir.) í þessum málum að ekki sé fært, ekki sé réttlætanlegt, ekki sé unnt fyrir Alþingi að samþykkja (Forseti hringir.) þessar tillögur.