Málshöfðun gegn ráðherrum

Þriðjudaginn 21. september 2010, kl. 16:59:59 (0)


138. löggjafarþing — 164. fundur,  21. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[16:59]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Frú forseti. Við erum væntanlega komin að lokum þessarar umræðu um fyrri tillögu af tveimur til þingsályktunar um málshöfðun gegn fjórum ráðherrum, en í þeirri tillögu sem við eigum eftir að ræða er um málshöfðun gegn þremur ráðherrum að ræða. Þessi umræða hefur að mestu leyti verið ágæt og að mestu leyti málefnaleg, en þó hafa nokkur atriði verið með þeim hætti að mér finnst ástæða til að stíga hér í pontu.

Ég vil í upphafi máls míns óska eftir því formlega, frú forseti, að þetta mál verði sent til allsherjarnefndar en fari ekki til meðhöndlunar í þingmannanefndinni. Ég er ekki sammála þeim rökum sem hv. þingmaður Árni Þór Sigurðsson færði hér áðan fyrir því að þingmannanefndin eigi að taka málið til umfjöllunar. Í fyrsta lagi vil ég segja að með þessari ósk minni er ég ekki með nokkrum hætti að lýsa vantrausti á nefndina. Formaður nefndarinnar háttvirtur sem situr hér í salnum má alls ekki taka því þannig að með því sé ég að lýsa vantrausti á hann eða þá nefnd sem hann hefur stýrt með ágætum, heldur vil ég færa þau rök fyrir þessari ósk að í fyrsta lagi segir hvergi skýrt í þeim lögum sem mörkuð eru um störf nefndarinnar að vísa eigi málum eftir atvikum til hennar, eins og hv. þingmaður Árni Þór Sigurðsson vildi vera láta. Þvert á móti er það þannig að í þessu tilfelli á ekki það sama við og um þá þingsályktun og skýrslu sem við ræddum í síðustu viku. Þar stóð nefndin heil og óskipt að þingsályktunartillögunni og þess vegna geri ég ekki athugasemdir við það ef nefndin vill skoða þær breytingartillögur sem fyrir liggja á milli umræðna.

Hvað varðar hins vegar þessa tillögu til þingsályktunar og þá sem á eftir að ræða er augljóst að nefndin flytur þær ekki einróma. Þetta er ekki afrakstur nefndarstarfsins sem slíks heldur eru þetta tvær þingsályktunartillögur fluttar annars vegar af fimm þingmönnum og hins vegar af tveimur. Tveir nefndarmenn, fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, kusu að skila ekki þingsályktunartillögu vegna þess að þeir komust að þeirri niðurstöðu, sem ég er sammála, að ekki sé ástæða til þess að höfða mál gegn fyrrverandi ráðherrum, en aðrir nefndarmenn komust að þeirri niðurstöðu að slíkt bæri að gera. Ef við lítum til þingskapalaganna þá segir í 1. mgr, 23. gr. þingskapa., með leyfi forseta:

„Til fastanefnda getur þingið vísað þeim þingmálum sem lögð eru fram og þörf þykir að nefnd íhugi. Vísa skal frumvörpum, þingsályktunartillögum og skýrslum til nefnda eftir efni þeirra og hafa um það hliðsjón af skiptingu málefna í Stjórnarráðinu.“

Í 3. mgr. sömu greinar segir:

„Nefnd, sem fengið hefur mál til athugunar, skal heimilt að vísa því til annarrar fastanefndar telji hún við nánari athugun að málið eigi frekar heima í þeirri nefnd.“

Hér veitir 1. mgr. í sjálfu sér takmarkaða leiðsögn nema ef vera skyldi að síðari málsgreinin styðji þá afstöðu að málið fari til allsherjarnefndar út af efni þess. Þau atriði sem helst hafa verið gerðar athugasemdir við í þessari umræðu varða þau mál sem eru á forræði og málasviði allsherjarnefndar. Gerðar eru athugasemdir við réttarfarsleg atriði, mannréttindaákvæði í réttarhöldum, og þá er það einsýnt í mínum huga að allsherjarnefnd fjalli um þetta mál.

Ég hef hér með komið þessari ósk á framfæri og ég vænti þess að um þá tillögu verði greidd atkvæði í þingsal að lokinni umræðu eða hvenær sem hæstv. forseti ákveður að sú atkvæðagreiðsla fari fram.

Annað varðandi ræðu hv. þingmanns Árna Þórs Sigurðssonar sem ég vil gera athugasemd við og er leitt að hann skuli ekki vera í salnum. Hann talaði mikið um það og gerði við það athugasemd að menn væru að fetta fingur út í málsmeðferð og formsatriði á þessu stigi, að menn hefðu átt að gera þær athugasemdir fyrir fram. Hann benti á að þverpólitísk samstaða hefði verið um að setja málið í þennan farveg og þess vegna væri það ómakleg gagnvart nefndinni að gera þessar athugasemdir núna. Ég vil gera athugasemd við þann málflutning vegna þess í fyrsta lagi gátu menn ekki séð það fyrir í upphafi að þessar athugasemdir yrðu gerðar, þetta er eitthvað sem fram kemur og verður ljóst við skoðun málsins, við þá miklu vinnu sem nefndin lagði á sig við að fara í gegnum lögin, fara í gegnum öll þessi ákvæði og menn sáu þetta náttúrlega ekki fyrir.

Annað sem mér þykir þó mikilvægara er að í skýrslunni sem við ræddum hér í síðustu viku gerir nefndin sjálf tillögu til þingsályktunar um eða segir að það þurfi að endurskoða löggjöf og eftir atvikum undirbúa löggjöf á tilgreindum sviðum. Nefndin tiltekur sérstaklega í þingsályktunartillögu sinni, sem allir voru sammála um, að endurskoða þurfi lög um ráðherraábyrgð, nr. 4/1963, og lög um landsdóm, nr. 3/1963.

Í skýrslu nefndarinnar kemur ekki fram hvaða atriði það eru sem nefndin gerir athugasemdir við og hvaða atriði eigi að endurskoða og hverju eigi að breyta, fyrir utan að það er vísað til skýrslu vinnuhóps þar sem Bryndís Hlöðversdóttir var formaður og niðurstaðna og tillagna þess hóps um að þessi lög ætti að endurskoða, sérstaklega hvað varðar skýrleika refsiheimilda. Vinnuhópurinn gerði athugasemd við það. Það er það næsta sem maður kemst því að vita hvað þingmannanefndin var að hugsa. Á sama tíma telur meiri hluti nefndarmanna sér stætt á því að fara fram með ákærur á hendur fólki á grundvelli laga sem þessi sama nefnd gerir tillögu um að þurfi að endurskoða. Þetta finnast mér algjörlega óásættanleg vinnubrögð.

Mér finnst með ólíkindum að ekki hafi verið fjallað meira um þetta atriði í umræðunni vegna þess að við höfum fjallað hér um og farið mjög ítarlega yfir athugasemdir sérfræðinga. Formaður Lögmannafélagsins hefur verið nefndur, sem og formaður Lögfræðingafélagsins og sérfræðingur í refsirétti við Háskólann í Reykjavík. Sérfræðingar, sem við megum ekki nafngreina en höfum mátt kynna okkur gögn frá, hafa lýst efasemdum um akkúrat þessi atriði sem nefndin sjálf í þingsályktunartillögu sinni leggur til einróma að verði breytt. En samt telur meiri hluti nefndarmanna sér stætt á því að fara fram með ákærur á hendur fólki byggðar á löggjöf sem það sjálft telur gallað. Mér finnast þetta ekki vera vinnubrögð sem ég get tekið undir.

Þingmannanefndin hefur unnið gott starf. Hún hefur unnið af heilindum og það hefur verið vilji held ég allra þingflokka til að standa vel að þessu starfi, en við hljótum samt að mega gagnrýna það málefnalega, eins og ég tel mig vera að gera hér og eins og mér fannst hæstv. forsætisráðherra gera í ræðu sinni í gær, án þess að menn fari hreinlega af hjörunum af viðkvæmni yfir því að verið sé að vega að heiðri þeirra. Það er ekkert slíkt hér á ferð. Við verðum að passa okkur á því að eitt af því sem skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis gagnrýnir mest að hafi átt sér stað í aðdraganda hrunsins og gagnrýnir stjórnvöld, Alþingi, samfélagið og fjölmiðla fyrir er gagnrýnisleysi og hjarðhegðun, að allir fóru í sömu átt.

Við tókum öll þátt í leiknum. Við vorum ekki með nógu gagnrýna hugsun. Þá hljótum við að mega gagnrýna þá hluti sem okkur þykja gagnrýniverðir án þess að fólk móðgist, því sárni eða telji að sér vegið, vegna þess að þetta snýst ekki um það.

Annað sem hv. þingmaður Árni Þór Sigurðsson sagði í ræðu sinni var að við þyrftum að gæta okkur á því að réttarhöld eða málarekstur ætti ekki að fara fram hér í þingsal heldur í réttarsal. Þar er ég alveg sammála honum. Ég er mjög sammála því. Við eigum ekki að vera með réttarhöld hér í þingsal en við verðum líka að hafa það í huga sem er grundvallaratriði í réttarkerfi okkar og það er að við eigum ekki að fara fram með ákærur nema við teljum meiri líkur en minni á sakfellingu. Það er sú umræða sem á að fara fram í þingsalnum, það er sú umræða sem við eigum að taka hér: Eru meiri líkur en minni á því að ákærur um refsivert athæfi eða stórfellda vanrækslu standist? Ég held ekki.

Ásetningur eða stórkostlegt hirðuleysi. Er hægt að halda því fram að á árinu 2008 hafi þeir ráðherrar sem hér um ræðir setið með hendur í skauti og ekki gert eitt og horft á íslenska bankakerfið falla af ásetningi? Nei. Hverjum dettur í hug að halda því fram að það hafi verið ásetningur þessara ráðherra að íslenska bankakerfið hryndi? Ég held að enginn geti fullyrt það. Ég trúi því ekki að menn haldi því virkilega fram að það hafi verið ásetningur þessara fjögurra ráðherra að íslenska bankakerfið hryndi.

Þá komum við að hinu, stórkostlegt hirðuleysi. Ég vil leyfa mér að halda því fram að það sé ekki með neinni sanngirni eða neinum rökum hægt að halda því fram að um stórkostlegt hirðuleysi hafi verið að ræða. Það hefur verið farið yfir það hér. Það hefur verið farið yfir það af ræðumönnum úr mínum flokki og öðrum flokkum. Við höfum ekki talað um annað síðan bankakerfið hrundi að mörg mistök hafi verið gerð. Ég er ekki að koma fram með neinn sannleika þótt ég segi að ég sé sammála því. Mörg mistök voru gerð. En voru þau gerð af stórkostlegu hirðuleysi? Sat fólk virkilega með hendur í skauti og gerði ekkert til þess að forða þessu? Nei, það er ekki hægt að halda því fram. Ef menn lesa til að mynda andmæli fyrrverandi ráðherra, t.d. fyrrverandi forsætisráðherra, þá er ekki hægt að halda því fram með nokkurri sanngirni að ekkert hafi verið að gert. Það er hægt að halda því fram að ekki nóg hafi verið að gert. Því fór sem fór. Það finnst okkur öllum jafnömurlegt, hvar í flokki sem við stöndum. En það er ekki hægt að halda því fram að menn hafi setið með hendur í skauti. Menn gerðu sér ekki grein fyrir því að þeir væru að vinna í aðdraganda bankahruns vegna þess að — hvað sem hv. þingmaður Þór Saari sagði hér í dag — þá sá það enginn fyrir. Hvað sem við getum sagt með allri þeirri eftiráspeki sem við getum tínt til, þá sá þetta enginn fyrir. Það sá enginn það fyrir að hér mundu stóru bankarnir þrír hrynja á nokkrum sólarhringum í október 2008. Það er ekki hægt að halda því fram.

Við getum haft allar skoðanir á því að það hefði mátt gera suma hluti betur. Það hefði mátt gera eitthvað annað og sleppa sumu sem var gert, en það er ekki hægt að halda því fram að hægt hefði verið að koma í veg fyrir þetta bankahrun ef menn hefðu ekki setið með hendur í skauti og verið stórkostlega hirðulausir. Því miður og það er mjög leitt.

Við verðum að gera okkur grein fyrir því að við erum hér að tala um refsiábyrgð. Við erum að tala um að ákæra fólk mögulega til fangelsisvistar vegna þessa máls. Það er töluverður munur á pólitískri ábyrgð og refsiábyrgð. Það getur enginn haldið því fram að þetta fólk hafi ekki axlað sína pólitísku ábyrgð.

Ég sagði frá því í ræðu minni við umræðu um þingsályktunartillöguna að vinur minn fór út að skokka 11. september upp úr klukkan sex eftir að niðurstöður þingmannanefndarinnar höfðu verið kynntar. Hann skokkaði í Bústaðahverfinu fram hjá ungum dreng, sex ára dreng, sem stóð þar á götuhorni með skilti. Á skiltinu stóð: Ég vil ekki hefnd. Vinur minn tók þennan unga dreng tali og spurði hverju þetta sætti og þá sagði sá stutti að hann hefði verið að hlusta á sexfréttirnar og hann væri búinn að fá nóg af þessu, hann vildi ekki hefnd. Þetta er sex ára drengur. Hann hafði greinilega skrifað þetta sjálfur, vegna þess að e-ið var á hvolfi.

Ég verð að endurtaka það sem ég sagði hér í síðustu viku: Förum nú að hugsa um framtíð þessa drengs. Hugsum um hvernig við öll í sameiningu getum gert þetta land að því besta landi sem við mögulega getum þar sem allir, þessi ungi drengur og börnin okkar, fá tækifæri og þar sem við stöndum saman. Látum fortíðina vera í fortíðinni. Við erum hér með gott gagn í höndunum til þess að læra af mistökunum, læra af því sem miður fór. Við erum með skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis sem við getum enn fremur byggt á. Komum í veg fyrir að svona nokkuð geti nokkurn tímann gerst aftur, en ég tek undir með litla drengnum: Ég vil ekki hefnd. Ég verð að viðurkenna að þegar ég skoða málareksturinn og hversu veikur grundvöllur er fyrir ákærunum get ég ekki að því gert að hugsa að þetta sé byggt á því, en þetta er ekki það sem við viljum fyrir samfélag okkar.