Málshöfðun gegn ráðherrum

Þriðjudaginn 21. september 2010, kl. 17:25:36 (0)


138. löggjafarþing — 164. fundur,  21. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[17:25]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er ekki rétt hjá hv. þingmanni að fyrir þessu hafi ekki verið færð málefnaleg rök. Ég las upp úr þingskapalögunum áðan, úr 23. gr. þingskapa. Hv. þingmaður, formaður sérnefndar um rannsóknarskýrsluna, verður að gera sér grein fyrir því að jafnvel þótt nefndin hafi haldið fullt af fundum og fjallað um málið í marga mánuði er það nú einu sinni þannig að nefndin skilaði ekki sameiginlegri tillögu heldur voru það einstaka þingmenn, fimm annars vegar og tveir hins vegar, og hvor hópur skilað sinni þingsályktunartillögu. Þess vegna, og það eru málefnaleg rök, virðulegi forseti, er ekkert fordæmi fyrir því að málið eigi endilega að fara í viðkomandi nefnd, fyrir utan að það eru engin ákvæði. Hv. þingmaður heldur áfram að vísa í lögin um sérnefndina en það eru engin ákvæði um málsmeðferð á milli umræðna í þeim sérlögum. Bið ég hv. þingmann að koma með jafnmálefnaleg rök og hann kallar eftir hjá mér.

Það eru heldur engin fordæmi fyrir þessari nefnd eins og hv. þingmaður veit. Það eru engin fordæmi fyrir þessari þingmannanefnd vegna þess að þessi vinna er fordæmislaus. Hún var sett á laggirnar vegna aðstæðna í íslensku samfélagi sem eru fordæmislausar. Það er því ekki hægt að tala um að ekki sé málefnalegt að vísa til þingskapalaga. Það er ekki hægt að segja að ekki sé málefnalegt að halda því fram að nefnd flytji ekki mál þegar við getum skoðað þingsályktunartillögurnar. Ég bið hv. þingmann að gera það, að skoða þær. Stendur að nefndin flytji málið? (Forseti hringir.) Nei, nöfn þingmannanna standa á þingsályktunartillögunum en það eru ekki níu nöfn (Forseti hringir.) á tveimur tillögunum.