Málshöfðun gegn ráðherrum

Þriðjudaginn 21. september 2010, kl. 18:28:14 (0)


138. löggjafarþing — 164. fundur,  21. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

707. mál
[18:28]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka flutningsmanni fyrir ágæta ræðu og einnig, frú forseti, þeim níu þingmönnum sem sátu í þingmannanefndinni svokölluðu fyrir vinnu sína og að hafa tekið að sér það starf sem við höfum kannski ekki gert okkur grein fyrir og þá væntanlega síður að niðurstaða nefndarinnar mundi leiða okkur í þann farveg sem málið er nú í. Ég held að nefndin hafi unnið af miklum heilindum að þessu starfi og gert það samkvæmt bestu samvisku og innan þess ramma sem henni var skapaður. Ég ætla ekki að taka undir þær ádeilur sem hafa komið á nefndina sjálfa eða störf hennar. Það eru eflaust skiptar skoðanir um niðurstöður nefndarinnar og mun það að sjálfsögðu koma í ljós á endanum þegar greidd verða atkvæði um tillöguna. Ég held að það sé ósanngjarnt að gera nefndinni upp að hún hafi ekki staðið heiðarlega að vinnu sinni og gert eins vel og unnt var.

Ég vil því ítreka að hvað sem okkur þingmönnum kann að finnast um niðurstöðuna stöndum við í þakkarskuld við þessa einstaklinga fyrir að hafa tekið að sér þessa vinnu. Ég undraðist mjög, frú forseti, ræðu forsætisráðherra í gær, sérstaklega að því leytinu til. Mér fannst hún ganga býsna nærri nefndinni og þeirri vinnu sem hún innti af hendi. Að sjálfsögðu hefur forsætisráðherra leyfi eins og aðrir til að hafa sínar skoðanir, en við megum ekki gleyma því að það er mikil ábyrgð og því fylgja líka ákveðnar kröfur að vera forsætisráðherra.

Nefndin hefur lagt sig fram við að svara mörgum spurningum sem á lofti hafa verið varðandi bankahrunið og þá ábyrgð sem stjórnmálamenn báru og hvort ástæða sé til að einhverjir stjórnmálamenn svari fyrir slíka ábyrgð. Það er með mig eins og aðra að það rótast í hausnum á manni sú staðreynd að við ræðum um stjórnmálamenn í dag og að mögulega eigi að kæra þá fyrir landsdómi meðan höfuðpaurarnir, eins og fram kemur í skýrslu rannsóknarnefndarinnar, leika lausum hala út um víða veröld og því miður hillir ekki undir, eða ekki svo ég viti til, ákærur í málum gagnvart þeim sem er vitanlega sorglegt. Ég vona svo sannarlega að sérstakur saksóknari með allan þann mannskap og þá milljarða sem hann hefur geti komist að niðurstöðu fljótlega varðandi þessa kumpána og þetta lið sem lék sér með fjármál þjóðarinnar.

Meðal þeirra spurninga sem við veltum fyrir okkur eru: Af hverju þessir ráðherrar úr þessari ríkisstjórn? Hvað gerðu þeir? Hvaða ábyrgð bera þeir umfram aðra? Ég hef velt þessu mikið fyrir mér. Ég velti því líka fyrir mér hver sé staða hæstv. forsætisráðherra varðandi þessar kærur. Eftir því sem ég best veit sat hún ásamt fleirum í einhverri súpergrúppu í fyrrverandi ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Nefndin færir í sjálfu sér ágæt rök fyrir þeim niðurstöðum sem hún kemst að en þegar á hólminn er komið er það mat nefndarmannanna sem gerir að verkum að ákæruskjölin eða þingsályktunartillögurnar eru orðaðar með þessum hætti og eru misjafnar, og enn aðrir komast að þeirri niðurstöðu að ekki sé ástæða til að leggja fram slíkt skjal. Það segir okkur, frú forseti, að í raun er það sjálfstætt mat hvers og eins sem skiptir máli.

Ég velti fyrir mér eftir síðustu daga hvort við séum í þeirri stöðu að komnar séu flokkslínur í afgreiðslu á þessu máli hér á Alþingi. Það kann að vera að einhverjar ástæður séu fyrir því. Ég tek fram, frú forseti, þegar ég segi þetta að ekki síst séu komnar flokkslínur — að mér sýnist en vitanlega veit ég ekki frekar en aðrir hvernig endanleg atkvæðagreiðsla verður — eins og umræðan hefur þróast og mér sýnist t.d. vera ljóst að Vinstri grænir og Hreyfingin munu vera samþykk því að bera fram ákæru en Sjálfstæðisflokkur og Samfylking jafnvel á móti eða að stærstum hluta, svo höfum við framsóknarmenn látið koma fram að við ætlum hverjum og einum þingmanni að taka ákvörðun í þessu máli út frá eigin mati á þeim upplýsingum sem liggja fyrir.

Frú forseti. Þetta er stórt og mikið mál. Ég dreg ekki dul á að það er í sjálfu sér ekkert gamanmál, og það hefur vitanlega enginn talað um það þannig. Það er stórmál að Alþingi skuli standa frammi fyrir því að þurfa að taka ákvörðun um hvort kæra eigi fyrrverandi ráðherra fyrir landsdómi. Ég ætla að sleppa því að fara mjög djúpt í álit mitt á stjórnsýslunni sem hefur unnið með þessu fólki í gegnum tíðina og sjálfsagt stutt það að einhverju leyti, geri það væntanlega síðar. Fjölmiðla og annað hef ég mikinn áhuga á að ræða hér lengi varðandi bankahrunið en það kemur þessu í rauninni ekki við.

Þegar við, frú forseti, gerum upp hug okkar þurfum við, eins og ég sagði áðan, að leggja mat á alla mögulega hluti sem við getum og svara þeim spurningum sem við teljum að þingnefndin hafi ekki svarað.

Það er þannig, frú forseti, að þetta mál er mikilvægasta mál haustsins og klárlega það mál sem þetta þing þarf að klára. Við tölum um mál sem jafnvel, eins og ég skildi hæstv. forsætisráðherra í fréttaviðtali, er mikilvægt af því það er hluti af því að friða alþjóð. Það er vitanlega, frú forseti, og afsakið þó ég noti það orðbragð, „alveg snargalið“ að segja að mál sem þetta geti haft slíkt hlutverk. Við getum ekki talað þannig að rétt sé að fórna æru einhvers til að friða einhverja aðra. Það er einfaldlega ekki þannig. Menn taka afstöðu út frá þeim gögnum sem fyrir liggja og verða að lifa með þeirri afstöðu sem þeir taka, það er einfaldlega þannig.

Mér þykir, frú forseti, það hafa komið fram á síðustu dögum að sú ríkisstjórn sem er við völd er ekki mjög samstiga. Það hefur komið best fram síðustu daga. Ég velti því þá fyrir mér, frú forseti, í ljósi þess að fram undan er erfitt haust með fullt af öðrum málum en þessu og kannski málum sem einhver okkar, frú forseti, telja mikilvægari eins og framtíð fjölskyldna og heimila, fyrirtækja, atvinnuveganna — atvinnuleysi er mikið, fólk er að flýja land út af þeirri stöðu sem við erum í. Við getum því ekki, frú forseti, látið þetta mál þvælast þannig fyrir okkur að við förum með það fram á næsta þing. Við eigum að afgreiða málið, frú forseti, með atkvæðagreiðslu til að klára það. Það eru svo hrikaleg mál sem bíða okkar sem við verðum að horfast í augu við. Ég er samt ekki að segja, frú forseti, að við megum kasta til hendinni — alls ekki. Við verðum að vanda okkur því að þetta er stórt og mikið mál.

Við fengum í hendur, frú forseti, mikla skýrslu um tillögur að lagfæringum og tillögur að lagafrumvörpum og slíku. Sú skýrsla má ekki falla í skuggann af umræðum um hvort kæra eigi einhvern eða ekki. Það má ekki því að í henni er að finna það sem ég vil meina að sé grunnur að samfélagi sem ætlar að læra af því hruni sem hér varð. Skýrslan þarf að fá þá athygli sem hún á skilið og mun eflaust fá hana á nýju þingi, ég efast ekki um það.

Ég ætla ekki að fara djúpt, frú forseti, í umræðu um einkavæðingu bankanna. Eitt vil ég þó segja: Það er orðin hálfgerð síbylja að heyra þingmenn Samfylkingar marga hverja og ráðherra sérstaklega tala um að upphafið að bankahruninu sé einkavæðing bankanna. Ég minni á að margar aðrar fjármálastofnanir voru í einkaeigu eða voru á þessu svið áður en bankarnir voru einkavæddir. Ég er ekki að segja, frú forseti, að ekkert hafi verið að því ferli. Við framsóknarmenn tökum að sjálfsögðu undir það ef menn vilja rannsaka einkavæðinguna en bendum á að hugsanlega verði tíminn betur nýttur í eitthvað annað, en við munum að sjálfsögðu styðja slíka rannsókn.

Frú forseti. Ég ætla ekkert að hafa þetta mikið lengra. Ég vil að endingu segja það aftur að ég tel þá níu einstaklinga sem sátu í nefndinni hafa gert það sem þeir gátu og sinnt þessu af heilindum. Ég hef sjálfur ekki gert upp hug minn varðandi niðurstöðu í þeim kærum sem hér eru lagðar fram. Þingmenn Framsóknarflokksins munu hver og einn meta sjálfir út frá þeim gögnum sem þeir hafa hvað þeir telja best. Það er engin lína í því. Þetta er matskennt og ég bið þingmenn alla að vanda sig mjög vel þegar þeir fara yfir og velta fyrir sér hvernig þeir ætla að taka á málinu.