Málshöfðun gegn ráðherrum

Þriðjudaginn 21. september 2010, kl. 19:08:32 (0)


138. löggjafarþing — 164. fundur,  21. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

707. mál
[19:08]
Horfa

Anna Margrét Guðjónsdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir með hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur að þetta séu mjög gagnlegar og ásættanlegar niðurstöður eða tillögur sem þarna eru settar fram, enda kom ég í fyrri ræðu minni um skýrslu þingmannanefndar inn á það að ég tel að hún hafi unnið afar gott starf.

Við erum hins vegar að tala um þessar tvær þingsályktunartillögur um að gefa út ákærur á hendur þremur eða fjórum fyrrverandi ráðherrum. Mér finnst það orðin óþægileg umræða. Eins og ég sagði í ræðu minni hef ég áhyggjur af því hvernig hún muni þróast. Þess vegna lagði ég fram þrjár tillögur að lausn í þessu máli. Ég átta mig á því að það kann að vera í þversögn við þingsköp og meðferð þingsályktunartillagna og annað því um líkt. Ég ræddi þetta, eins og ég sagði, við starfsmann þingsins í dag sem taldi ekki óeðlilegt að setja þessar hugmyndir inn í umræðuna milli fyrri og síðari umræðu og það væri síðan nefndarinnar að ákveða hvernig með þetta yrði farið.

Nú verð ég að bera við stuttri þingreynslu um hvernig mætti halda málinu áfram. Þetta er sem sagt útspil um hugmynd um það hvernig við komumst út úr þessu vonda máli sem ég tel að við séum komin í.