Málshöfðun gegn ráðherrum

Þriðjudaginn 21. september 2010, kl. 19:10:00 (0)


138. löggjafarþing — 164. fundur,  21. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

707. mál
[19:10]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég stend ekki að þeim þingsályktunartillögum sem ræddar eru varðandi ráðherraábyrgð vegna þess að ég hef ekki sannfæringu fyrir því að menn hafi sýnt af sér eða framið brot, refsiverð brot. Hins vegar stend ég að þessum tillögum. Ég hef verið á þeirri skoðun að þinginu beri að álykta um ábyrgð, pólitíska ábyrgð, eins og við erum að leggja til í skýrslunni. Þar tel ég vera nákvæmlega sama hlutinn og menn hafa sumir hverjir verið að koma með inn í umræðuna í dag, reyndar velti hv. þingmaður upp fleiri leiðum. Ef menn setjast niður í rólegheitunum, anda aðeins með nefinu og fara yfir það sem liggur fyrir úr sameiginlegri vinnu þingmannanefndarinnar, þá er þetta allt hérna. Hér er harður áfellisdómur yfir fyrri stjórnendum. Hér er harður áfellisdómur yfir eftirlitsstofnunum, frá níu þingmönnum sameiginlega. Ég man ekki annað en í umræðunni um skýrsluna að margir þingmenn hafi hrósað þessari vinnu, þótt ég skilji það að sjálfsögðu að menn geti ekki tekið undir hvert einasta orð sem kemur fram í skýrslu þingmannanefndar.

Ef menn taka eitt skref til baka og horfa á það með einhverjum vilja að nálgast málið þannig þá erum við í uppgjöri. Skýrsla þingmannanefndarinnar tekur á öllum þessum atriðum. Það er skoðun mín og varð niðurstaða mín í þingmannanefndinni að þessi harði áfellisdómur og þetta harða orðalag í ályktun þingmannanefndar sé nægjanleg. Það er ekki um refsiverð brot að ræða. Hins vegar er um pólitíska ábyrgð að ræða. Í skýrslu þingmannanefndar er tekið á því á talsvert harkalegan hátt.