Málshöfðun gegn ráðherrum

Þriðjudaginn 21. september 2010, kl. 19:30:35 (0)


138. löggjafarþing — 164. fundur,  21. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

707. mál
[19:30]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég átti hér áðan nokkur orðaskipti við hv. þm. Magnús Orra Schram, annan flutningsmann þeirrar þingsályktunartillögu sem við ræðum hér, þar sem ég var að reyna að átta mig á því í hverju röksemdafærslan væri fólgin á bak við tillöguna sem hér er til umræðu. Ég verð að játa að mér var ekki mikið rórra eftir að hafa hlustað á svör hv. þingmanns, þau voru svo veik að mínu mati og matskennd. Það er gjörsamlega útilokað að hægt sé að komast að niðurstöðu í máli af þessu tagi á grundvelli svo veikrar röksemdafærslu.

Svo að ég árétti það er ég eindregið þeirrar skoðunar að hugmyndir um að ákæra hæstv. fyrrverandi viðskiptaráðherra séu út úr öllu korti, séu fráleitar. Það er ekkert sem hægt er að rökstyðja með tilvísun til verka hans eða meints athafnaleysis sem gefur tilefni til að ákæra hæstv. fyrrverandi viðskiptaráðherra. Ég er sannfærður um að hæstv. ráðherra var, eins og aðrir, að reyna að vinna eins vel og hægt var við mjög þröngar og erfiðar aðstæður. Það sem ég segi hér á eftir er ekki til þess fallið með nokkrum hætti að varpa rýrð á hans ágætu störf enda hafði ég af honum mikil og góð kynni og veit að vilji hans stóð til þess að starfa vel og vandlega að þeim málaflokkum sem honum var trúað fyrir.

Í röksemdafærslu hv. þingmanna Magnúsar Orra Schrams og Oddnýjar G. Harðardóttur er reynt að færa fyrir því rök að einhverjir aðrir hlutir eigi við um þennan tiltekna ráðherra en aðra þá ráðherra sem hafa verið til umfjöllunar og voru til umfjöllunar í þeirri þingsályktunartillögu sem við ræddum fyrr í dag.

Vísað er til tiltekinna funda sem haldnir hafi verið á árinu 2008 án vitundar eða vitneskju fyrrverandi viðskiptaráðherra. Þá vaknar þessi óhjákvæmilega spurning: Hvert var inntak þeirra funda? Hvað var það sem fór fram á þessum fundum sem gerir það að verkum að ætla megi að þar hafi komið fram svo drastískar og miklar upplýsingar að þær hefðu átt að vera sérstakt og sjálfstætt tilefni til viðbragða af hálfu ráðherra sem höfðu þær undir höndum? Svarið við þessum spurningum er auðvitað mjög rýrt í roðinu, vegna þess að það er í eðli sínu matskennt.

Ég hef ekki heyrt það tíundað hér í þessari umræðu, ekki af hv. þm. Magnúsi Orra Schram, sem mælti fyrir þingsályktunartillögunni, hvað nákvæmlega hafi farið fram á þessum fundi sem gaf tilefni til að bregðast við með öðrum hætti en gert var af hálfu þáverandi ráðherra sem höfðu með þessi mál að gera. Vel getur verið að eitthvað hafi farið fram á þessum fundi sem hafi gefið þetta sjálfstæða tilefni, sem hafi gert það að verkum að brýnna hafi verið að grípa til aðgerða í ljósi þeirra upplýsinga sem þar komu fram. En þá er það sjálfsögð krafa til flutningsmanna tillögunnar að þeir geri okkur nákvæmlega grein fyrir því hvað það var í smáatriðum sem gerði það að verkum að mönnum hafi borið að bregðast við með öðrum hætti en gert var á árinu 2008. Meðan þær upplýsingar koma ekki fram hljótum við að túlka vafann á þann veg að hv. þingmenn hafi ekki fært nægjanleg rök fyrir máli sínu.

Allt orsakasamhengi í þessu máli er fullkomlega óljóst. Það er engum ljóst hvað hv. þingmenn eru að fara með þessari hugmyndafræði sinni eða röksemdafærslum. Hvað er það sem býr þar að baki, hvað er það sem átti nákvæmlega að gera? Þegar við höfum í höndunum svona matskenndar forsendur er öllum ljóst að það verða ekki reistar neinar ákærur á hendur nokkrum manni á grundvelli einhverra slíkra óljósra fregna. Á þessum grundvelli er einfaldlega ekki hægt að fara af stað með ákærur. Þegar við erum að tala um svona matskennda hluti verða þeir hlutir ekki lagðir sem lóð á neinar vogarskálar til að meta hvort það séu auknar líkur á því eða minni að til sakfellingar kunni að koma ef ákærur verða reistar.

Ég hef farið yfir málflutningi hv. þingmanna og ýmislegt er tínt til. Bara sem dæmi er nefnd heimsókn manns að nafni Andrew Gracie, sem er sérfræðingur sem Seðlabanki Íslands fékk til að koma til Íslands, sem lagði til tiltekna málsmeðferð. Ég spyr: Hver er þessi mister Gracie sem hefur þessi miklu áhrif? Sagði mister Gracie eitthvað sem á að hafa orðið þess valdandi að fremur er ástæða til að reisa ákærur á hendur þremur ráðherrum en þeim fjórða? Það sjá auðvitað allir, með fullri virðingu fyrir mister Gracie, að málin snúast ekki um þetta. Það vantar allar skýringar, það vantar allt sem heitir orsakasamhengi þegar kemur að þessu máli.

Það sem síðan virðist liggja til grundvallar þessari þingsályktunartillögu að öðru leyti er það að á árinu 2008 hafi menn lítt hafst að. Niðurstaða rannsóknarnefndar Alþingis, með réttu eða röngu, er síðan sú að hvað sem menn hefðu viljað gera eða reynt að gera frá árinu 2006 hefði það líklega ekki nægt til þess að afstýra hruninu. Menn hafa sagt sem svo að hægt hefði verið að draga úr áhrifunum og ef menn hefðu til að mynda haft þá yfirsýn sem við höfum núna, þegar við horfum í baksýnisspegilinn, hefðu menn örugglega brugðist öðruvísi við. En eins og ég rakti hér í ræðu fyrr í dag var það ekki þannig að allar vísbendingar bentu í sömu átt. Við vorum að fá upp í hendurnar skjöl sem bentu til þess að staða bankanna væri sterkari en raun bar vitni um að lokum.

Við vissum um lausafjárvanda bankanna og stöðugt á árinu 2008 var verið að reyna að vinna að því að leysa úr þeim mikla vanda. Það er hins vegar deginum ljósara að það tókst ekki og því fór sem fór, eins og við vitum, á haustdögum 2008. Það segir hins vegar ekki að ekkert hafi verið gert. Það er mjög margt sem var verið að gera. Það hefur verið vísað til þess að ekki hafi verið nægjanlega unnið í því að minnka efnahagsreikning bankanna, að bankarnir drægju saman seglin, en þá gleyma menn því að bankarnir voru sjálfstæðir lögaðilar. Það var ekki þannig að bankarnir þyrftu að taka öllum tilskipunum frá stjórnvöldum þó að stjórnvöld séu mikilsverð og máttug. Bankarnir lutu sinni eigin stjórn, þeir lutu eigendavaldi, og það voru einfaldlega í mörgum tilvikum ekki tilskipanir ráðherranna sem giltu þegar að slíkum ákvörðunum kom.

Í raun og veru er ekki búið að leggja neitt mat á það hvort þær ákúrur sem fyrrverandi ráðherrum eru veittar hafi, og þá með öðru, orðið þess valdandi að bankakerfi okkar hrundi. Það er ekkert sem getur að líta í rökstuðningi hvorki hv. þm. Magnúsar Orra Schrams og Oddnýjar Harðardóttur né þeirra þingmanna sem flytja hina þingsályktunartillöguna um ákærurnar sem bendir í þessa átt. Það er verið að reisa ákærur í máli sem standast ekki þá kvarða sem við leggjum til grundvallar þegar verið er að fjalla um þessi mál.

Burt séð frá því hvort þeir tilteknu fundir sem vísað er til í þingsályktunartillögu hv. þingmanna, sem við erum hér að ræða, hafi skipt máli eður ei er það þannig að allt árið 2008 voru menn að reyna að staðreyna upplýsingar um stöðu mála og meinta áhættu. Það kemur fram í viðtölum rannsóknarnefndarinnar við ráðherra og embættismenn að einmitt þetta var meginviðfangsefni ráðamanna, að gera sér grein fyrir þeim váboðum sem væru á lofti og bregðast við þeim. Það er erfitt að gera sér í hugarlund að á bak við þessar ákærur sé sanngjarnt mat á andmælum ráðherra eða annarra ráðamanna gagnvart þessum ávirðingum eða að það hafi verið farið með sómasamlegum hætti yfir sjónarmið annarra þeirra sem skrifuðu andmæli til rannsóknarnefndarinnar eða ræddu við hana. Þegar við skoðum þessi andmæli, til að mynda ráðherranna, fyrrverandi seðlabankastjóra, forstjóra Fjármálaeftirlitsins o.s.frv., sjáum við að þeir vekja athygli á slíkum atriðum sem ekki eru tekin fyrir, hvorki í rannsóknarnefndarskýrslunni og enn þá síður í niðurstöðum þeirra hv. þingmanna sem nú leggja til ákærur á hendur þessum ráðherrum.

Síðan er það auðvitað rangt, sem hefur verið haldið fram, að ekkert hafi verið gert til að draga úr umfangi bankakerfisins. Það er hluti af því ákæruskjali sem hv. þm. Oddný G. Harðardóttir og Magnús Orri Schram hafa lagt hér fram að það hafi einfaldlega ekkert verið aðhafst til að reyna að draga úr umfangi bankakerfisins. Ég lýsti þeim vanda sem menn sannarlega stóðu frammi fyrir í ljósi þess að hér var um að ræða sjálfstæð fyrirtæki með eigin stjórn og eigendaábyrgð.

Það breytir ekki því að tilmæli stjórnvalda lágu fyrir. Það liggur fyrir af utanaðkomandi sérfræðingi eins og Kaarlo Jännäri að það var yfirlýst stefna stjórnvalda, og þar með að sjálfsögðu yfirlýst stefna hæstv. fyrrverandi viðskiptaráðherra, að reyna að draga úr umfangi bankakerfisins og að því voru menn að reyna að vinna. Það kemur líka fram í gögnum frá þessum ráðherrum. Og bankakerfið dróst saman þó að það væri ekki nægjanlegt til að draga úr þeirri áhættu sem um var að ræða.

Í sjálfu sér er ekki ástæða til þess fyrir mig að fara nánar út í þessi mál öll sömul. Mér finnst að sú þingsályktunartillaga sem hér liggur fyrir sé á ákaflega veikum grunni reist svo að ekki sé meira sagt. Röksemdafærslurnar á bak við tillögur hv. nefndarmanna, hv. þm. Oddnýjar G. Harðardóttur og Magnúsar Orra Schrams, eru veikar. Vísað er í tiltekna fundi án þess að þess sé getið hvað fór fram á þeim fundum. Vísað er til þess að einhverjar upplýsingar hafi komið þar fram án þess að það sé tíundað hvaða afleiðingar það hefði haft fyrir ákvörðunartöku stjórnvalda á þeim tíma ef þær upplýsingar hefðu verið á vitorði fleiri en raun bar vitni. Vísað er í þessa tilteknu fundi án þess að lagt sé mat á hvers eðlis upplýsingarnar voru sem þar komu fram. Með öðrum orðum: Það er hreint fúsk af hálfu hv. tveggja þingmanna að leggja fram plagg af þessu tagi og taka undir þær innstæðulausu ákærur sem koma fram að öðru leyti í málflutningi þeirra sem stóðu að þeirri þingsályktunartillögu sem við ræddum fyrr í dag.

Virðulegi forseti. Það er einmitt þetta mat sem er svo erfitt og í eðli sínu svo afstætt og það er örðugt að leggja slíkt til grundvallar þegar tekin er ákvörðun um það hvort ákæra eigi menn á grundvelli laga sem við erum í sjálfu sér öll sammála um að mundu ekki duga í nútímaréttarfari. Það eru gerðar miklar kröfur þegar ákæra er lögð fram. Eins og margoft hefur komið fram í þessari umræðu er grundvallaratriðið það að ákærurnar séu byggðar á þeirri sannfæringu þess sem ákærir að það séu mun meiri líkur á sakfellingu en sýknu.

Þegar við skoðum þetta mál allt með hlutlægum hætti og gerum okkur grein fyrir því að allt er þetta ákaflega matskennt, verður ekki vegið og metið eins og margt annað þegar verið er að hefja sakamálaákærur, þá gerum við okkur grein fyrir því að þetta er pólitískt mat og það er það sem við stöndum frammi fyrir núna. Viljum við hefja þessa vegferð á grundvelli upplýsinga sem eru í eðli sínu matskenndar, upplýsinga sem erfitt er að staðreyna? Það er alls ekki hægt að setja þær upplýsingar inn í eitthvert orsakasamhengi, þ.e. að hefði þetta legið fyrir hefði eitthvað annað ekki gerst eða mögulega gerst o.s.frv. Það er einfaldlega ekki boðlegt að fara inn á þessa braut í fyrsta skipti í heila öld á grundvelli laga sem hafa verið í gildi án þess að hafa verið notuð, laga sem menn litu á sem neyðarhemil, eins og formaður Sjálfstæðisflokksins talaði um, löggjafar sem á rætur sínar til allt annars konar stjórnskipunar, löggjafar sem engum manni dytti í hug í dag að leggja til grundvallar annars konar sakamálarannsókn, í ljósi þess að þeir sem hér eru bornir þungum sökum hafa ekki fengið eðlilegt tækifæri til að bregðast við.

Það er því mjög brýnt að þessi tillaga verði felld rétt eins og sú þingsályktunartillaga sem liggur fyrir og við ræddum hér fyrr í dag.