Málshöfðun gegn ráðherrum

Þriðjudaginn 21. september 2010, kl. 19:55:39 (0)


138. löggjafarþing — 164. fundur,  21. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

707. mál
[19:55]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Það hefur talsvert verið rætt bæði í andsvörum við þá sem hér stendur og eins af hálfu hv. þm. Atla Gíslasonar, að þingmenn Sjálfstæðisflokksins í þingmannanefndinni, sem ekki standa að þingsályktunartillögunum sem varða ráðherraábyrgð og þá ákærur, hefðu átt að skila inn nefndaráliti eða sérstakri þingsályktunartillögu.

Samkvæmt þingsköpum tíðkast ekki að þingmenn skili nefndarálitum fyrir fram. Það tíðkast að þingmenn skili nefndarálitum þegar mál eru farin í nefnd til umfjöllunar. Því var þetta ekki fær leið.

Þá hefur því verið fleygt að þingsályktunartillaga hefði átt að koma fram af okkar hálfu. Ég hef þá spurt á móti: Þingsályktunartillaga um hvað? Þingsályktunartillaga um að ekki beri að kalla saman landsdóm? Ég tel að það hefði ekki staðist skoðun að leggja fram slíkt skjal enda hefur það einfaldlega komið fram hér í umræðunni hvernig við rökstyðjum afstöðu okkar. Það tíðkast ekki þegar þingmál er lagt fram í formi þingsályktunartillögu að fram komi „and-þingsályktunartillaga“ við málið. Það er einfaldlega ástæðan. Auk þess stöndum við að þingsályktunartillögu sem allir þingmenn í þingmannanefndinni lögðu fram.

Það hefur verið fyrirferðarmikið í umræðunni í dag að þingmenn hafa bent á að þingið þyrfti að álykta um pólitíska ábyrgð ráðherra og sumir haldið því fram að beita ætti vítum sem heimilt er í dönskum rétti og hefur verið nýtt í danska þinginu.

Ég tel að þingsályktunartillagan sem nefndin leggur fram, sem er innifalin í skýrslunni sem þingmannanefndin lagði fram, hafi að geyma harðorðar ályktanir á störf fyrrverandi ráðherra. Ég tel rétt að vekja sérstaka athygli á því hér í lok umræðunnar. Ég vísa sérstaklega til bls. 30 þar sem fram kemur svohljóðandi tillaga, þ.e. niðurstöður og ályktanir þingmannanefndarinnar. Með leyfi forseta:

„Það er mat þingmannanefndarinnar að skýrsla rannsóknarnefndarinnar sé áfellisdómur yfir verkferlinu við sölu ríkisbankanna og vinnubrögðum þeirra ráðherra sem voru í forsvari við einkavæðingu bankanna.“

Hér tekur þingmannanefndin harða afstöðu og er með harðorða ályktun um vinnubrögð ráðherranna sem voru í forsvari við einkavæðingu bankanna. Hér er tillagan komin fram. Það hefur talsvert verið rætt um þetta í dag.

Jafnframt er finna á bls. 15 í skýrslu þingmannanefndarinnar mjög harðorðar ályktanir, m.a. þessa sem hljóðar svona, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis sé áfellisdómur yfir stjórnvöldum, stjórnmálamönnum og stjórnsýslu, verklagi og skorti á formfestu.“

Hér er um harðorða ályktun að ræða sem allir þingmenn þingmannanefndarinnar standa að. Ég tel að þingsályktunartillagan sem liggur frammi af hálfu þingmannanefndarinnar sé einsdæmi í þingsögunni. Ég tel að hún taki á öllum atriðunum sem bent hefur verið á í umræðunni. Það þarf að taka pólitíska ábyrgð. Ég tel að sjónarmiðin sem hafa verið uppi í dag um frekari rannsókn, um að setja verði málið í nýja nefnd svo hægt verði að koma með aðrar ályktanir, séu einfaldlega óþörf. Ég tel að þetta liggi fyrir nú þegar. Hafi menn vilja til að breyta orðalagi þingsályktunartillögunnar sem liggur fyrir, hefur þingmönnum verið frjálst að gera það.

Það var afstaða mín að standa að þessum harðorðu ályktunum um ábyrgð ráðherra sem stóðu að einkavæðingunni og um ábyrgð stjórnvalda, stjórnmálamanna og stjórnsýslu sem fjallað er um í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Ég tel að fari menn yfir þetta og skoði málin (Forseti hringir.) niður í kjölinn sannfærast þingmenn um að hér séu teknar harðorða ályktanir varðandi pólitíska ábyrgð.