Málshöfðun gegn ráðherrum

Miðvikudaginn 22. september 2010, kl. 10:34:26 (0)


138. löggjafarþing — 165. fundur,  22. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[10:34]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Fyrir liggur úrskurður frá forseta Alþingis um að báðar tillögurnar séu gildar. Hér þarf að hafa nokkur atriði í huga. Í fyrsta lagi stafar þetta mál sem við höfum verið að ræða ekki frá nefndinni. Formaður nefndarinnar og aðrir þeir sem styðja að það gangi aftur til nefndar þurfa að horfast í augu við það að nefndinni tókst ekki að verða einhuga um þær tillögur sem við höfum verið að ræða. Það er staðreynd málsins. Það felst ekki í þessu neitt vantraust á nefndarstörfin, alveg sama þótt hv. formaður líti þannig á málið. Það verður þá bara að hafa það að formaðurinn líti á þetta sem vantraust á nefndina og störf sín. Það eru ekki allir nefndarmenn sem deila þeirri skoðun með hv. formanni nefndarinnar.

Þingið getur vel ákveðið að senda málið til annarrar nefndar og það ber ekki að gera eitt umfram annað eins og hv. síðasti ræðumaður tók fram í sinni ræðu. Þingið hefur það einfaldlega í hendi sér og það fer vel á því að þetta mál fari til annarrar nefndar, einmitt vegna þess (Forseti hringir.) að meiri hluti þeirrar nefndar sem ella fengi málið til umfjöllunar er þegar búinn að gera upp hug sinn til málsins og vill styðja það óbreytt.