Málshöfðun gegn ráðherrum

Miðvikudaginn 22. september 2010, kl. 10:43:46 (0)


138. löggjafarþing — 165. fundur,  22. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[10:43]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Það kemur nokkuð á óvart að þingmenn komi upp hver á fætur öðrum og segi að ekki hafi nein rök heyrst fyrir því að málið fari annað en til þingmannanefndarinnar. (BirgJ: Komdu með þau.) Má ég ítreka það sem hér hefur áður verið sagt við þessa atkvæðagreiðslu? Hér er um að ræða eina stærstu ákvörðun þingsins í þingsögunni, hvort ákæra eigi ráðherra fyrir embættisverk þeirra. Það liggur fyrir að í þingmannanefndinni sem málið á að ganga aftur til eru allir flutningsmenn tillögunnar og það liggur fyrir hver hugur þeirra manna sem sitja í nefndinni er til allra þeirra athugasemda sem fram hafa komið í umræðunni, til réttarfarsatriðanna, til þeirra atriða sem lúta að verndun mannréttinda, til atriða sem snúa m.a. að saknæmisskilyrðunum. Þeir sem leggja fram tillögurnar hafa tekið harkalega til varnar vegna allra þeirra athugasemda sem fram hafa komið í umræðunni. Við hverju búast menn þegar þessar athugasemdir koma síðan til endurskoðunar inn í sömu nefnd? Búast menn virkilega við því (Forseti hringir.) að það komi fram einhver ný sjónarmið í umræðunni frá þeim sömu mönnum og hér hafa tekið þátt í umræðunni? Það er ekkert að því að málið gangi til annarrar nefndar en ég treysti því að fari atkvæðagreiðslan eins og hér stefnir í sjái menn ljósið og vísi a.m.k. málinu til umfjöllunar í allsherjarnefnd (Forseti hringir.) sem getur þá farið yfir málið fyrir sitt leyti.