138. löggjafarþing — 167. fundur,  27. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[10:56]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kem upp til þess að lýsa þeirri skoðun minni að mér þykir þingmannanefndin fara of langt, þ.e. meiri hluti þingmannanefndarinnar, í því að afmarka þau mál sem hún gat tekið til skoðunar. Það segir í lögum nr. 142/2008 að rannsóknarnefnd Alþingis hafi að því marki sem sú nefnd telji nauðsynlegt heimildir til að láta rannsaka atburði sem áttu sér stað eftir gildistöku laganna, þ.e. atburði sem áttu sér stað eftir hrunið.

Með nákvæmlega sama hætti hafði þingmannanefndin auðvitað heimildir til að fara út í slíkar rannsóknir ef hún hefði talið þess þörf. Að því marki sem ekki hefur unnist tími til að gera það er alveg sjálfsagt og eðlilegt að við gerum það hér. Þegar við settum lög nr. 142/2008 voru þingmenn almennt sammála um að það gæti verið tilefni til að rannsaka ýmislegt sem átt hefði sér stað eftir hrunið. Ef við tökum Icesave-málið sérstaklega þá er það mál rakið mjög rækilega í rannsóknarnefndarskýrslunni. Þar er komist að þeirri meginniðurstöðu að innleiðing á tilskipunum Evrópusambandsins sem þar eiga við hafi verið með sama hætti á Íslandi og annars staðar og það sé ekkert tilefni til að ætla að nokkur ríkisábyrgð sé til staðar vegna Icesave-reikninganna. Það mál er rakið í smáatriðum í rannsóknarnefndarskýrslunni. Það er því fullt tilefni fyrir okkur til að ræða jafnt um það sem gerðist eftir hrunið og fyrir hrunið í Icesave-málinu. Það sætir þess vegna mikilli furðu að svona mikil tregða sé til að láta skoða embættisfærslur í ljósi þeirra mikilvægu upplýsinga um Icesave-málið sem finna má í rannsóknarskýrslu Alþingis.

Athugasemd mín er hins vegar almenn. Mér finnst nefndin almennt vera of treg til þess að vilja skoða hluti sem áttu sér stað eftir hrunið og eins það sem féll fyrir utan (Forseti hringir.) það sem nefndin hafði tíma til að skoða vegna þess að við gerðum ráð fyrir því í lögunum.