138. löggjafarþing — 167. fundur,  27. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[11:24]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég var að vísa í — nú man ég ekki nákvæmlega frá orði til orðs hvað ég sagði hér áðan en ég var að vísa í að við værum flutningsmenn breytingartillögunnar, 14 eða 15 þingmenn Samfylkingarinnar, og þá er ég auðvitað að tala fyrir hönd þeirra þingmanna Samfylkingarinnar sem eru flutningsmenn og ég tel mig nú að einhverju leyti geta lýst afstöðu Samfylkingarinnar til stærstu mála héðan úr ræðustól.

Hins vegar er það auðvitað alveg rétt hjá hv. þingmanni að við eigum að láta af þeim ávana, flokksræðisávana sem hann átelur hér, og það hljóta þá allir þingflokkar og allir stjórnmálaflokkar að leggjast í þá sjálfsskoðun. Við höfum í þingflokki Samfylkingarinnar, einn þingflokka að því er ég best veit, ákveðið að hafa ekki flokkslínu til þessara tillagna. Það hefur verið rætt, krufið til mergjar í þingflokknum, og það er ekki búið að segja fólki neitt fyrir um það hvaða afstöðu þingmenn taki til tillagnanna. Það hefur svo sem legið fyrir og verið rætt hér og kynnt í þingsalnum.

Ég get líka alveg deilt þeirri reynslu minni með þingmönnum í þessum sal, hafandi verið í átta ár í stjórnarandstöðu gegn ríkisstjórnum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokk að þá sá maður oddvitaræðið og flokksræðið oftar en ég kæri mig um að muna í návígi, fyrst verið er að átelja okkur samfylkingarmenn fyrir það.