138. löggjafarþing — 167. fundur,  27. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[11:59]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Frú forseti. Ég var í forsvari fyrir eina af þeim breytingartillögum sem gerðar voru við þingsályktunartillögu þingmannanefndarinnar um skýrsluna sem hún lagði fram. Nú er það svo að þingmannanefndin hefur ákveðið að taka þessar tillögur ekki inn, hún hefur samþykkt það. En ég vil fara þess á leit við forseta að það verði tryggt að allar þessar tillögur verði bornar upp til atkvæða. Ég tel eðlilegt að meiri hluti Alþingis fái að taka ákvörðun um það hvort þær rannsóknir sem verið er að leggja til til viðbótar nái fram að ganga.

Þingmannanefndin hafnar þessari tillögu á þeim forsendum að koma eigi með nýja tillögu á næsta þingi og þar eigi að skoða lánveitingar til viðskiptabankanna þegar þær hófust árið 2004 og lán lífeyrissjóða og viðskiptabanka. En ég ætla bara að segja að þessi tillaga, sem er ágæt af hálfu nefndarinnar, byggist á ákveðnum misskilningi varðandi tillöguna sem hér liggur fyrir.

Tillaga mín og meðflutningsmanna minna snýr ekki eingöngu að húsnæðislánum og húsnæðismarkaði heldur að mikilvægi skipunar húsnæðislána fyrir hagstjórn í landinu. Verið er að leggja til rannsókn á alvarlegum hagstjórnarmistökum sem rædd eru í skýrslu rannsóknarnefndarinnar, en þar eru talin upp þrjú alvarlegustu hagstjórnarmistökin af hálfu ríkisvaldsins sem voru stóriðjuframkvæmdir, breytingar á útlánareglum Íbúðalánasjóðs og skattalækkanir sem voru þensluhvetjandi aðgerðir. Þetta var gert varðandi Íbúðalánasjóð þrátt fyrir aðvaranir Seðlabanka og Hagfræðistofnunar eins og nákvæmlega er rakið í skýrslunni og farið vel yfir.

Nú er ég ekki að bera blak af þeirri aðferðafræði sem viðskiptabankarnir beittu við húsnæðislánveitingar sínar. Og ég ætla að leyfa mér, frú forseti, að taka svo stórt til orða og segja að þær hafi verið forkastanlegar. En við getum ekki litið fram hjá því að Íbúðalánasjóður er ríkisbanki. Hann er banki sem Alþingi og framkvæmdarvaldið ber fulla ábyrgð á og það erum við sem munum á næstunni þurfa að samþykkja milljarðafjárveitingar til að efla eigið fé Íbúðalánasjóðs. Þá hljótum við að krefjast svara við þeim spurningum hvers vegna við þurfum á þessum erfiðu tímum að leggja sjóðnum til fé og hvernig við getum tryggt að slík mistök endurtaki sig ekki. Ég tel því mjög mikilvægt að Alþingi samþykki þessa breytingartillögu og óska þess eindregið að hún ásamt öllum öðrum verði borin undir atkvæði.

Ég tek algerlega undir það með þingmannanefndinni að mikilvægt er að móta húsnæðisstefnu. Ég hef á áætlun minni, og fagna því ef þingmenn vilja vera með mér í því, að leggja fram þingsályktunartillögu um mótun slíkrar stefnu sem ég hef í smíðum, enda eru húsnæðismál mikilvæg velferðarmál sem varða grundvallarvelferð fjölskyldnanna í landinu. En þau eru jafnframt mikilvægt hagstjórnarmál því að einu fjárfestingar heimilanna eru í húsnæði og á Íslandi eiga yfir 85% heimila húsnæði sitt. Við verðum alltaf að tryggja að annað markmiðið verði ekki á kostnað hins. En við verðum líka að tryggja að fólk búi við húsnæðisöryggi sem er grundvöllur þess að velferð fái þrifist í þessu landi.

Það hefur verið undirrót að mjög mikilli angist í samfélaginu undanfarið að fólk sér fram á að missa húsnæði sitt og það er ekki hægt að láta eins og þetta sé ekki vandamál og þetta sé eitthvað sem ríkisvaldið geti drepið á dreif með því að fara í allsherjarrannsókn á öllum stofnunum samfélagsins samhliða. Þetta er vandamál sem mun koma til kasta þingsins í háum reikningum og við skulum bara horfast í augu við það. Við skulum leysa það verkefni sem er fullkomlega í okkar höndum. Þegar það er komið til getur ríkisvaldið ákveðið, eins og lagt er til í þingmannanefndinni, upp úr rannsóknarskýrslunni, að Seðlabankanum verði gefin tæki til að hefta útlán. En það sem ég og meðflutningsmenn mínir, frú forseti, viljum fá svör við er um ákvörðunartökuna um þessar auknu lánveitingar og breytingu á fjármögnunarkerfi sjóðsins, og eins hvernig Íbúðalánasjóður tók þá ákvörðun að veita fjármagn til viðskiptabanka og sparisjóða til að fjármagna eignarbólu í húsnæði sem sannarlega ýmsir aðrir aðilar bera mikla ábyrgð á ef ekki höfuðábyrgð. Ég ítreka sem sagt að það er ekki eingöngu út frá velferðarþættinum varðandi húsnæðislán sem þessi tillaga er lögð fram heldur vegna mikilvægis húsnæðislána fyrir hagstjórnina.

Það er kannski ástæða til að fara yfir það, svo að við gleymum því ekki í þessari umræðu, að það voru fjögur atriði sem ríkisstjórnin 2003–2007 hafði í huga varðandi húsnæðislánin. Eitt var að hækka hámarkslánshlutfall í 90% af verðgildi eigna. Númer tvö var að hækka hámarkslán úr 9 millj. kr. í 15,4 millj. kr. Þetta voru aðgerðir sem bæði Hagfræðistofnun og Seðlabanki sögðu um: Þetta mun hafa áhrif til hækkunar fasteignaverðs núna þegar svona mikil þensla er í hagkerfinu. Þetta mun auka á skuldir heimilanna, sem eru gríðarlegar, og þetta mun krefjast aukins aðhalds í peningamálastefnunni.

Þá var litið til punkta nr. 3 og 4 sem voru þeir að húsnæðislán yrðu einungis veitt gegn 1. veðrétti og 4. punktinum um að hámarkslánstími yrði styttur úr 40 árum í 30 ár. Þessar aðgerðir áttu að hafa andstæð áhrif við þensluhvetjandi áhrifin í punktum 1 og 2, heldur að draga úr áhrifum þessara hækkana. Þetta kom mjög skýrt fram í máli Seðlabankans. En allt kom fyrir ekki. Ríkisstjórnin ákvað að fara eingöngu í þær aðgerðir sem voru þensluhvetjandi og láta hinar sitja á hakanum. Ég tel að í skýrslunni sé verið að fjalla um þetta sem hagstjórnarmistök og ég vil að þetta verði rannsakað sem hagstjórnarmistök en ekki útvatnað í einhvers konar úttekt á húsnæðislánum eingöngu. En þingsályktunartillögu um mótun húsnæðisstefnu hyggst ég leggja fram mjög fljótlega á nýju þingi.