138. löggjafarþing — 167. fundur,  27. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[12:12]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það voru fleiri þættir sem komu þarna til, t.d. stóraukin skuldsetning heimilanna sem byggðist á, að mínu mati, rangri peningastefnu Seðlabankans sem dældi hingað inn jöklabréfum sem fóru í neyslu. Jöklabréfin fóru í neyslu, en t.d. ekki Icesave, ekki skuldir bankanna heldur jöklabréfin sem fóru beint í krónur og þau fóru í neyslu. Það var einn þátturinn sem olli þessari miklu þenslu en eftir stendur að skattalækkanir þurfa ekki endilega að vera skattalækkanir, þær geta verið skattahækkanir ef kakan stækkar nægilega mikið. Það er einmitt það sem er að gerast núna. Við erum búin að hækka skatta, við gerðum það um síðustu áramót, mjög stórkostlega. Og við flæktum skattkerfið alveg óskaplega, sem gerir það mjög dýrt fyrir atvinnulífið. Afleiðingin er sú að það dregst allt saman, það er allt í einum allsherjarsamdrætti og tekjur ríkissjóðs af þessum sköttum eru að minnka á ýmsa mælikvarða, bæði sem hlutfall af þjóðarframleiðslu o.s.frv.

Þetta er einmitt það sem hv. þingmaður styður núna, hann styður hæstv. ríkisstjórn. Hann er að styðja það að skattar séu hækkaðir svo mikið, og flækjustigið aukið, að heimili og fyrirtæki kikna undan því og skatttekjurnar minnka eins og hæstv. fjármálaráðherra sagði á ráðstefnu í síðustu viku — sem er algerlega röng hugsun því að skattarnir voru hækkaðir gagnvart einstaklingunum en skatttekjurnar eru að minnka.