138. löggjafarþing — 167. fundur,  27. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[12:14]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mig langaði að taka upp tvo punkta úr andsvari hv. þm. Péturs Blöndals og annar varðar flækjustigið núna. Vissulega hefur eitthvað verið aukið á flækjustig en ég vil líka benda hv. þingmanni á að snúið hefur verið af þeirri braut að skattbyrðin aukist stöðugt á þeim tekjulægstu á meðan hún væri að minnka á þeim tekjuhæstu. Og það er þannig að þegar þú vilt ná fram jöfnun lífskjara, þegar það er eitt af markmiðunum með tekjuöfluninni, þá kostar það kannski örlítið meira flækjustig. Þá verður maður að meta: Vill maður einfaldleikann eða vill maður jöfnun lífskjara? Ég vel jöfnun lífskjara og styð það.

Hv. þingmaður ræddi hins vegar Seðlabankann og ábyrgð hans á peningamálastjórninni. Það tek ég heils hugar undir. En aðstæður voru þannig í hagkerfinu að þenslan var gífurleg og Seðlabankinn beitti mest tæki sínu, sem voru stýrivextirnir, til að reyna að slá á þessa þenslu. Það var ljóst á þeim tíma sem þetta gekk á að þetta var ekki nein lausn sem hægt var að búa við. En það er kannski það sem við höfum lært. Ég sat í seðlabankaráði og ber fulla ábyrgð á því að hafa setið í því ráði og hef mikla skömm á því og sagði mig úr því. En það sem við stöndum uppi með núna er að horfa á það að við vorum með hagstjórn í þessu landi sem var ekki sjálfbær, sem gat ekki gengið og sem gat ekki skilað neinu nema mjög harðri lendingu eins og fram kemur í rannsóknarskýrslunni. Enginn er undan skilinn í ábyrgð sinni á því. En það er líka skylda okkar allra að komast til botns í málunum og reyna að koma því þannig fyrir að þetta gerist ekki aftur.