Málshöfðun gegn ráðherrum

Mánudaginn 27. september 2010, kl. 14:26:10 (0)


138. löggjafarþing — 167. fundur,  27. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[14:26]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja það í upphafi að hvorki ræða hv. þingmanns né það nefndarálit sem hann mælti fyrir sannfæra mig um það að efnislegar ástæður séu til þess að gefa þær ákærur út sem hér er lagt til að verði gefnar út. Að sama skapi hef ég enn þá uppi efasemdir um að sú málsmeðferð sem hér er lagt til að ráðist verði í og lögin mæla fyrir um standist þær lágmarkskröfur sem lög og mannréttindasáttmálar mæla fyrir um, fræðimenn hafa bent á að svo sé ekki. (MÁ: Hvaða fræðimenn?)

Hæstv. forsætisráðherra gagnrýndi málsmeðferð nefndarinnar mjög harkalega í ræðu sinni hér á dögunum, hún taldi að það hefði verið eðlilegt að leita álits hjá Feneyjanefndinni og gagnrýndi nefndina fyrir það að hafa á engu stigi upplýst ráðherrana fyrrverandi um það hvaða kæruatriði (Forseti hringir.) væru til skoðunar og gagnrýndi síðan harkalega af hverju þeir voru ekki fengnir fyrir nefndina til skýrslugjafar, bæði skriflegrar og munnlegrar. (Forseti hringir.) Mér sýnist að hv. þingmaður hafi í raun ekkert gert með þá leiðsögn og þær ábendingar sem komu frá hæstv. forsætisráðherra og mig langar til þess að spyrja hvers vegna.