Málshöfðun gegn ráðherrum

Mánudaginn 27. september 2010, kl. 14:30:58 (0)


138. löggjafarþing — 167. fundur,  27. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[14:30]
Horfa

Frsm. minni hluta þingmn. um skýrslu RNA (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti minni hlutans í þingmannanefndinni sem skipuð var til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Í stuttu máli sagt er það niðurstaða okkar í minni hlutanum að við teljum saknæmisskilyrðin ekki uppfyllt. Við teljum að ráðherrar hafi hvorki af ásetningi né stórfelldu hirðuleysi brotið gegn stjórnarskrá lýðveldisins, öðrum landslögum eða stofnað hagsmunum ríkisins í fyrirsjáanlega hættu með athöfnum sínum eða athafnaleysi. Þetta er sannfæring okkar og þess vegna stöndum við ekki að þeim tveim þingsályktunartillögum sem lagðar hafa verið fram af öðrum nefndarmönnum í þingmannanefndinni. Við teljum að ekki eigi að leggja fram þingsályktun um að kalla saman landsdóm og ákæra ráðherra fyrir brot gegn lögum um ráðherraábyrgð.

Frú forseti. Fjallað hefur verið um þetta mál annars vegar út frá formi og hins vegar út frá efni. Varðandi formið höfum við gagnrýnt að þær málsmeðferðarreglur sem gert er ráð fyrir að farið sé eftir út frá lagagrundvelli landsdómslaganna og laganna um ráðherraábyrgð, uppfylli ekki þau mannréttindasjónarmið og þá þróun sem orðið hefur á grundvelli mannréttinda í heiminum á undanförnum áratugum. Málsmeðferðin, sérstaklega gagnvart meintum sakborningum á rannsóknarstigi málsins, uppfylli ekki almenn sjónarmið í sakamálaréttarfari varðandi málsmeðferð. Þetta höfum við gagnrýnt og vel er farið í þetta í nefndaráliti okkar og svo að sjálfsögðu í nefndaráliti minni hluta allsherjarnefndar sem ég geri ráð fyrir að hv. þm. Birgir Ármannsson og hv. þm. Ólöf Nordal geri grein fyrir á eftir.

Ég ætla að nota tíma minn í dag til að fara yfir efnið í meginatriðum og ástæðurnar fyrir því af hverju við teljum saknæmisskilyrði ekki vera uppfyllt. Í 2. gr. laganna um ráðherraábyrgð er kveðið á um að krefja megi ráðherra ábyrgðar samkvæmt því sem nánar er fyrir mælt í lögunum, fyrir sérhver störf eða vanrækt starfa, er hann hefur orðið sekur um, ef málið er svo vaxið að hann hafi annaðhvort af ásetningi eða stórfelldu hirðuleysi farið í bága við stjórnarskrá lýðveldisins, önnur landslög eða að öðru leyti stofnað hagsmunum ríkisins í fyrirsjáanlega hættu. Ef menn ætla að fara inn á þessa braut þarf að skoða embættisverk ráðherrans sem liggja fyrir og það þarf jafnframt að fara eftir því hvaða verkefni voru á ábyrgðarsviði viðkomandi ráðherra. Samkvæmt lögunum er skilyrði refsiábyrgðar að hægt sé að sýna fram á ásetning eða stórfellt hirðuleysi. Það er sérstaklega tekið fram í ákærunni að hvort tveggja sé þar undir og í nefndarálitinu sem hér liggur fyrir og þá vísað til greinargerðarinnar með þingsályktunartillögunni frá meiri hluta þingmannanefndarinnar að hugsanlega hafi verið um ásetning að ræða.

Við mat á því hvort saknæmisskilyrði teljist uppfyllt þarf að líta til þessarar háttsemi ráðherra, þ.e. var ráðherrann í góðri trú varðandi þá athöfn eða það athafnaleysi sem varð í starfi hans, og var talið að viðkomandi athöfn eða athafnaleysi færi saman við hagsmuni ríkisins á þeim tíma þegar ákvörðun var tekin. Fjallað er um það í kafla 1.8 í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis að auðvelt sé að vera vitur eftir á. Auðvelt sé að dæma ákvarðanir annarra þegar maður situr sjálfur í rólegheitunum með mikið af upplýsingum í höndunum, heila rannsóknarskýrslu, og dæma þannig verk annarra. Menn verða að líta til þess á hvaða tíma ákvarðanir voru teknar og hvaða upplýsingar viðkomandi höfðu.

Meta þarf hvort ráðherra hafi hagað sér á þann hátt sem gegn og skynsamur maður hefði talið rétt við sambærilegar aðstæður. Fræðimenn hafa einnig bent á svokallaða „business judgement rule“ sem viðmiðunarreglu, sem felur í sér það viðmið að ef ráðherra er í góðri trú og háttsemi hans er ekki óforsvaranleg á tímamarki hennar þá mæli slíkt almennt gegn ábyrgð. Um þetta fjallar Andri Árnason í grein um ráðherraábyrgð í Tímariti lögfræðinga. Þetta þarf að hafa í huga þegar menn meta háttsemi sem er til skoðunar.

Fullyrt hefur verið að ráðherrar þjóðarinnar hafi ekki gert neitt til að sporna við þróuninni og atburðunum sem síðar urðu. Það fullyrti hv. þm. Atla Gíslasyni í andsvari fyrr í umræðunni. Ég tel fulla ástæðu til að mótmæla því harðlega að ekkert hafi verið gert af hálfu ríkisstjórnarinnar. Ég tel að allir þeir sem lesa skýrsluna sem rannsóknarnefnd Alþingis lagði fram sjái augljóslega að menn voru að grípa til aðgerða. Það er jafnframt augljóst ef menn lesa andmælabréfin sem bárust rannsóknarnefnd Alþingis frá þeim ráðherrum öllum sem hafa verið til skoðunar og eins ef menn skoða bréfin sem sömu fyrrverandi ráðherrar sendu þingmannanefndinni sjálfri. Þar er hægt að tína til margvíslegar aðgerðir.

Leitað var leiða til að efla gjaldeyrisvarasjóðinn og unnið var að því á vegum viðskiptaráðuneytis, að sjálfsögðu í samráði við Fjármálaeftirlitið og Landsbankann, að flytja innlánsstarfsemi Landsbankans í Bretlandi og Hollandi úr útibúi í dótturfélag. Lögð var áhersla á það af hálfu ríkisstjórnarinnar við bankana að draga úr umsvifum og minnka efnahagsreikninga sína. Unnið var að því af hálfu forsætis- og fjármálaráðuneyta að tryggja Íslandi aðild að samstarfi Evrópuríkja um fjármálastöðugleika, svo einhver atriði séu talin upp. Menn geta fræðst um fleiri atriði með því að lesa þessi andmælabréf og eins skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

Hins vegar er ljóst og það er mjög dapurlegt að þessar aðgerðir dugðu ekki til. Öllum er kunnugt um hversu víðtækar afleiðingar fall íslensku bankanna hafði. Aðgerðir stjórnvalda dugðu ekki til og það er stórkostlega erfitt að horfast í augu við það. Afleiðingarnar eru skelfilegar. Hins vegar ber okkur að meta hvort aðgerðir stjórnvalda hafi verið refsiverðar. Mín sannfæring er sú að ekkert í háttsemi þeirra ráðherra sem tillaga liggur frammi um að verði ákærðir og kallaðir fyrir landsdóm kalli á það að gefnar verði út ákærur þeim á hendur.

Því hefur jafnframt verið haldið fram í umræðunni og kemur fram í greinargerð meiri hluta þingmannanefndarinnar með þingsályktunartillögunni um ákæru, að ekki þurfi að sýna fram á orsakasamhengi milli athafna eða athafnaleysis ráðherranna og þess tjóns eða atburða sem urðu við fall íslensku bankanna. Ég tel einfaldlega að sá rökstuðningur sem hefur verið færður fram, bæði í þessum ræðustóli og í þeim þingskjölum sem lögð hafa verið fram, standist ekki. Ég tel að það verði að sýna fram á að orsakasamhengi sé þarna á milli. Ekkert hefur komið fram í umræðunni sem hefur sannfært mig um að það þurfi ekki að sýna fram á slíkt orsakasamhengi. Um þetta atriði er fjallað í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og þar segir, með leyfi forseta:

„Hvorki rannsóknarnefndin né aðrir aðilar geta fullyrt um að beint orsakasamhengi sé á milli vanrækslu um slík atriði og þess fjármálaáfalls sem hér varð haustið 2008 né slegið því föstu hver innbyrðis þýðing hinna samverkandi þátt sem leiddu til þess hafi verið.“

Hér fjallar rannsóknarnefnd Alþingis um mat sitt á vanrækslu og mistökum fyrrverandi ráðherra og kemst að þeirri niðurstöðu að ekki sé hægt að fullyrða neitt um beint orsakasamhengi. Þetta mat nefndarinnar stendur.

Virðulegi forseti. Jafnframt hefur verið fjallað mikið um skýrleika refsiheimilda. Við tökum aðeins á því í nefndaráliti okkar. Jafnframt vísa ég aftur til umfjöllunar hv. þm. Ólafar Nordal og hv. þm. Birgis Ármannssonar sem lögðu fram minnihlutaálit í allsherjarnefnd í kjölfar þess að þingmannanefndin sendi nefndinni bréf og bað allsherjarnefnd um að fjalla um ákveðin atriði. Meginregla í refsirétti er að refsiheimildir eigi að vera skýrar og sú regla byggist m.a. á stjórnarskránni og mannréttindasáttmála Evrópu. Sú meginregla felur í sér að refsiákvæði verður að vera nægilega skýrt og fyrirsjáanlegt til að einstaklingurinn geti gert sér grein fyrir því með lestri ákvæðisins og með því að skoða dómaframkvæmd, sé hún til staðar, hvaða athafnir eða athafnaleysi geti leitt til refsiábyrgðar á grundvelli þess.

Fjölmargir fræðimenn hafa fjallað um þetta, m.a. Eiríkur Tómasson, Andri Árnason og Róbert Spanó. Menn greinir á. Það eru ekki allir sammála um hvaða ákvæði ráðherraábyrgðarlaganna eru óskýr en færð hafa verið fyrir því rök í umræðunni og af hálfu þeirra sérfræðinga sem komið hafa fyrir nefndir þingsins, bæði allsherjarnefnd og þingmannanefndina, að verulegur vafi sé á því hvort ákvæði laganna um ráðherraábyrgð séu nægilega skýr til að uppfylla þessar meginreglur refsiréttarins. Ég vísa að öðru leyti til þess sem fram kemur í nefndaráliti okkar um þetta. Enda leggur þingmannanefndin til, allir níu þingmenn þingmannanefndarinnar, að lögin um ráðherraábyrgð og lögin um landsdóm verði endurskoðuð. Það er ekki að ástæðulausu.

Ég sjálf hefði kosið að þingmannanefndin hefði lagt fram sameiginlega skýrslu um ráðherraábyrgðina þar sem hægt hefði verið að fara yfir þau sjónarmið sem liggja til grundvallar því mati m.a. að endurskoða þurfi lögin. Hægt hefði verið að velta upp andstæðum sjónarmiðum vegna þess að heilmikið starf liggur eftir þingmannanefndina sem hvergi sér stað. Við fórum mjög ítarlega yfir þessi atriði og það hefði verið gott fyrir þingið að eiga slíka samantekt þrátt fyrir að við værum ekki sammála um niðurstöðuna. Engu að síður leggjum við til að lögin verði endurskoðuð og það er vel. Vonandi verður hægt að nýta þá vinnu sem þingmannanefndin hefur unnið á undanförnum vikum og mánuðum við mat og endurskoðun laganna.

Ég vil vekja sérstaklega athygli á einu sjónarmiði sem ekki hefur verið mikið rætt og það er að þær þingsályktunartillögur sem hér liggja fyrir gefa ákveðna vísbendingu um hvaða hátternisreglur Alþingi vill að ríkisstjórnir og ráðherrar ríkisstjórna viðhafi í sínum störfum. Sá ákæruliður sem mér finnst ganga lengst og í rauninni vera fjarstæðukenndur er ákæruliður sem merktur er II þar sem lagt er til að Alþingi ákæri fyrrverandi forsætisráðherra fyrir að hafa á framangreindu tímabili látið farast fyrir að framkvæma það sem fyrirskipað er í 17. gr. stjórnarskrár lýðveldisins, um skyldu til að halda ráðherrafundi um mikilvæg stjórnarmálefni. Þetta er einstaklega einkennilegur ákæruliður og í rauninni vart hægt að sjá annað en verði þetta að veruleika, samþykki Alþingi að fara fram með ákæru á þessum grundvelli, þá sé hægt að draga nánast alla fyrrverandi ráðherra og núverandi ráðherra fyrir landsdóm á grundvelli þessa ákvæðis. Þá er hægt að gera það og þá er verið að gefa slíka leiðbeiningu.

Tökum dæmi um t.d. samgönguráðherra sem situr í ráðuneyti sínu, fær á borð sitt skýrslu um jarðgöng á Íslandi sem ekki eru nægilega örugg. Að mínu viti er þetta mikilvægt málefni. Þessi skýrsla er komin fram og samgönguráðherrann kallar ekki eftir því að hún sé rædd í ríkisstjórn. Þar sem ekki þarf ekki að sýna fram á orsakatengsl milli athafnaleysis ráðherra og þess atburðar sem verður er þá hægt að leggja fram í þinginu tillögu til þingsályktunar um að viðkomandi samgönguráðherra verði dreginn fyrir landsdóm? Miðað við þá leiðbeiningu og þá vísireglu sem þeir hv. þingmenn sem standa að ákæruskjalinu leggja fram, er það svo. Inn á hvaða brautir erum við komin þá? Ég tel þetta vera mjög varhugavert og mjög einkennilegt að setja þetta fram með þessum hætti. Ég fullyrði að það væri aldrei farið fram með þennan ákærulið einan og sér. Honum er hent með í púkkið til að fylla upp í ákæruskjalið. Þetta yrði aldrei tekið fram sem sérstakt ákæruatriði, alla vega ekki enn sem komið er en hver veit hvað framtíðin ber í skauti sér verði þetta fordæmi sett.

Virðulegi forseti. Við í þingmannanefndinni fengum til okkar nokkra sérfræðinga og mikið hefur verið vísað til þeirra hér í umræðunni, sérstaklega í fjölmiðlaumfjölluninni. Það er rétt að árétta að engir sérfræðingar munu taka þessa ákvörðun fyrir okkur þingmenn hér í dag eða á morgun eða þegar sú atkvæðagreiðsla sem fram undan er fer fram. Það er ekki hægt að skýla sér á bak við sérfræðinga í þessu máli, við verðum að taka sjálfstæðar ákvarðanir og fara eftir eigin sannfæringu, eins og stjórnarskráin býður okkur, hvert og eitt okkar verður að gera það. Við stöndum ekki hér og vísum til þess að einhverjir sérfræðingar hafi sagt okkur að gera einhverja hluti, það er einfaldlega rangt. Sérfræðingarnir voru ekki á einu máli, alls ekki, og að teknu tilliti til þess sem ritað hefur verið af fræðimönnum um þetta efni er algjörlega ljóst að mikill vafi leikur á því hvort þau lög sem okkur er ætlað að fjalla um standist m.a. mannréttindasáttmálann og ég tel algjörlega fullljóst að ekki sé tilefni til að fara fram með þessar ákærur þar sem saknæmisskilyrði eru ekki uppfyllt.

Frú forseti. Það er athyglisvert að skoða þá umræðu sem fór fram í þinginu í desember 1962 þegar lög um ráðherraábyrgð voru lögfest og umræður um ráðherraábyrgðina og lögin fóru fram. Hér liggur m.a. frammi nefndarálit frá minni hluta allsherjarnefndar frá 10. desember 1962 sem Alfreð Gíslason, læknir og þáverandi þingmaður, stóð að. Þar er megininntakið að þáverandi hv. þingmaður telur lög af þessum toga vera óþörf og hann vísar sérstaklega til 10. greinarinnar, að ákvæði hennar séu óneitanlega nokkuð matskennd, og heldur áfram, með leyfi forseta:

„En það er víðar í frumvarpinu að finna hæpin ákvæði, t.d. í 9. gr., og skal það ekki rætt nánar. Sé nokkur frambærileg ástæða til að breyta lögum um ábyrgð ráðherra, þá er hún sú að fækka „matskenndum“ ákvæðum, en ekki að fjölga þeim, eins og þó er gert í frumvarpinu.“

Þetta er rétt mat hjá þessum fyrrverandi hv. þingmanni og ég tel að við eigum að einbeita okkur að því þegar við förum í endurskoðun þessara laga að fækka matskenndum ákvæðum. Enda sér þess hvergi stað í tillöguflutningnum eða þeirri greinargerð sem liggur fyrir að það hafi verið reynt að fara í þetta mat á saknæminu. Ég get ekki fundið því stað og tek undir með hv. þm. Bjarna Benediktssyni sem fór hér í andsvar við hv. þm. Atla Gíslason áðan og benti á að hér væri verið að færa pólitískt uppgjör inn í ákæruform. Það er miður og sorglegt að málið sé komið á þetta stig.

Hv. þm. Alfreð Gíslason benti jafnframt á að ástæðan fyrir því að það þyrfti að setja lög um ráðherraábyrgð væri sú að í stjórnarskránni er kallað eftir því. Síðan segir þingmaðurinn, með leyfi forseta:

„Þó sýnast þau heldur gagnslítil yfirleitt, nema þá helst þar sem pólitískt ofstæki má sín mikils, en þar gætu þau reynst einkar hentug.“

Þetta var umræðan á Alþingi 1962 og ég tel að full ástæða sé til að reifa og ræða þessi sjónarmið hv. þáverandi þm. Alfreðs Gíslasonar.

Virðulegi forseti. Við búum í réttarríki, við eigum að vanda okkur og við verðum að líta til þessara sjónarmiða og taka það hlutverk okkar alvarlega að vanda okkur, sérstaklega þegar við erum að fjalla um það viðkvæma málefni að fara fram með ákærur á hendur einstaklingum. Þessir einstaklingar eiga að njóta fullra mannréttinda eins og allir aðrir þegnar og íbúar þessa lands og þegar verulegur vafi leikur á því að við séum að uppfylla öll skilyrði varðandi mannréttindi fólks ber okkur að vanda okkur sérstaklega vel. Ég vil hvetja hv. þingmenn til að kynna sér vel það efni sem bent er á í nefndaráliti minni hlutans og eins í nefndaráliti minni hluta allsherjarnefndar.

Virðulegi forseti. Ég tel að allir þeir sem komu að íslensku stjórnsýslunni síðustu mánuðina fyrir hrun hafi af fullri einurð verið að vinna að því að koma landinu í gegnum hugsanlega efnahagskreppu án stóráfalla. Ég tel þetta fullljóst. Ég tel að enginn bjóði sig fram til þings eða taki að sér að verða ráðherra á Íslandi með annað að markmiði en að vinna þjóðinni gagn, ég tel að það sé fullljóst. Þess vegna tel ég mjög rangt að leggja það til og halda því fram að menn hafi af ásetningi sýnt af sér hegðun sem hafði þau áhrif að bankarnir féllu og/eða að þeir hafi af ásetningi ætlað sér að auka tjón íslenska ríkisins. Ég tel þetta fásinnu.

Á þessum tíma lágu fyrir ýmis opinber gögn, sem sum hver voru vottuð af endurskoðunarfyrirtækjum og opinberum stofnunum, um að staða bankanna væri sterk. Þetta lá fyrir. Ég geri mér grein fyrir því að stjórnvöld vissu að hætta væri á ferðum. Ég tel hins vegar að stjórnvöld hafi vanmetið þá hættu vegna þess að þeim var ekki kunnugt um hversu mikil veiking bankanna var orðin innan frá. Mönnum var ekki kunnugt um það og það kemur m.a. fram í andmælabréfi fyrrverandi forsætisráðherra Geirs H. Haarde að hann var ekki vanur því að logið væri að sér líkt og talið er að bankamenn hafi gert gagnvart íslenskum stjórnvöldum. Ef maður horfir á þær ákvarðanir sem stjórnvöld voru að taka á þessum tíma verður maður að horfa til þeirrar þekkingar sem þau höfðu á þeim tíma, hvaða upplýsingar þau höfðu um hættuna. Það sannast í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis að stjórnvöldum var ekki kunnugt um það hversu mikil veiking bankanna var orðin innan frá.

Meginniðurstaða skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis er sú að bankarnir sjálfir beri meginábyrgð á því hvernig fór, helstu stjórnendur bankanna og helstu eigendur bankanna beri meginábyrgð á því. Við í þingmannanefndinni höfum lagt fram stóra skýrslu, þar sem við drögum fram þá helstu lærdóma sem við teljum að verði að draga af þeim hræðilegu atburðum sem urðu hér á landi við fall bankanna. Við höfum lagt fram mjög harðorðar ályktanir um það hvernig okkur í þingmannanefndinni finnst rétt að koma á framfæri að okkur þyki t.d. ámælisverð þau vinnubrögð sem viðhöfð voru við einkavæðingu bankanna þar sem fallið var frá ákvörðuninni um dreifða eignaraðild. Það er mjög harðorð ályktun frá þingmannanefndinni í skýrslunni okkar á bls. 30, ef menn vilja fletta upp í henni. Þetta eru stór orð, að níu þingmenn taki fram að það sé áfellisdómur yfir vinnubrögðum fyrrverandi ráðherra að falla frá dreifðri eignaraðild. En við erum að því vegna þess að við erum að reyna að gera upp þá atburði sem hér urðu.

Jafnframt leggjum við til að Alþingi álykti að stjórnvöld hafi brugðist. Þetta eru stór orð en nefndin öll stendur saman að þessari ályktun. Ég vil og ég hef sannfæringu fyrir því að ef við lítum öll í eigin barm áttum við okkur á því að öll sú vinna sem farið hefur fram, fyrst af hálfu rannsóknarnefndar Alþingis og síðan af hálfu þingmannanefndarinnar, er uppgjör sem var nauðsynlegt, það er erfitt, en við eigum að nota það til þess að standa á þessari skýrslu sem lögð hefur verið fram og horfa síðan til framtíðar.

Ég tel einfaldlega að með því að leggja fram tillögur til þingsályktunar um að landsdómur verði kallaður saman séum við á rangri braut. Ég er sannfærð um að við erum á rangri braut með því. Ég tel einfaldlega að þær ályktanir sem við í þingmannanefndinni leggjum sameiginlega fram og það að við köllum eftir því að Alþingi álykti um þau atriði sem ég taldi hér upp um ábyrgð stjórnvalda, um það að eftirlitsstofnanir hafi brugðist og síðan sú afstaða sem þingmannanefndin tekur gagnvart þeim ráðherrum sem störfuðu við einkavæðinguna sé það uppgjör sem þjóðin þarf á að halda. Þetta er réttsýnt uppgjör og ég stend fyllilega í fæturna varðandi það mat sem þingmannanefndin komst sameiginlega að niðurstöðu um.

Hins vegar er það djúp sannfæring mín að í háttsemi þeirra ráðherra sem hér hafa verið til skoðunar og lagt er til að ákærðir verði sé ekkert refsivert. Ég fullyrði að ef menn lesa gögnin og kynna sér þau fræði sem fjölmargir fræðimenn hafa lagt á sig að koma á framfæri í gegnum tíðina komist menn að sömu niðurstöðu. Ég tel það einsýnt.

Virðulegi forseti. Umræðan hér um þessi mál hefur verið að mestu leyti málefnaleg og ég fagna því. Þetta er erfið reynsla en engu að síður vissum við það öll sem buðum okkur fram fyrir síðustu kosningar að erfiðir tímar færu í hönd og að það þyrfti að fara í erfið verkefni, þannig að þingmenn eiga ekkert að veigra sér við það að taka ákvörðun byggða á sinni eigin sannfæringu.

Um ákærurnar í heild og hvernig þær líta út og hvernig þær eru settar fram held ég því fram að þær séu að því leyti gallaðar að ákæruatriðin eru allt of víð. Ég hef haldið því fram hér í fyrri ræðu minni um þetta mál að þetta sé líkt og að meiri hluti þingmannanefndarinnar sé að kasta út víðu neti, eins víðu neti og mögulegt er, til þess að reyna að draga eitthvað að landi. Þetta er eitthvað sem ákæruvald á ekki að gera. Ef menn ætla á annað borð að leggja fram ákærur verða menn að gera tilraun til þess að hafa þær það afmarkaðar, að hafa háttsemina það vel útskýrða að mönnum sé fullljóst hvað átt sé við. Ég vísa í þessu sambandi sérstaklega til liðar I þar sem er sagt að ákæra beri ráðherrana fyrir brot á starfsskyldum sem þeim hefði mátt vera kunnugt um og þeir hefðu getað brugðist við með því að beita sér fyrir aðgerðum, löggjöf, útgáfu almennra stjórnvaldsfyrirmæla eða töku stjórnvaldsákvarðana. Hvað er átt við hér? Hvað er það sem átti að gera? Hvað nákvæmlega er það sem ráðherrar í ríkisstjórn Geirs H. Haarde áttu að gera? Það hefur ekki verið gerð nein tilraun til að sýna fram á það.

Í umræðunni í dag hefur reyndar verið bent á að það hefði átt að skipa bönkunum tilsjónarmenn. Hefði það verið gert og bankarnir fallið beint í kjölfarið hvað værum við þá að ræða hér í dag? Værum við þá ekki að ræða tillögur um ákæru á hendur þeim ráðherra sem lagði til að slíkir tilsjónarmenn yrðu skipaðir? Er það ekki það sem við værum að gera? Ég hugsa að það væri akkúrat þannig. Þess vegna finnst mér skjóta mjög skökku við að það hafi ekki verið gerð nein tilraun af hálfu þeirra sem tala fyrir því að farið verði í þessar ákærur til að sýna fram á hvað hefði átt að gera. Hvað hefði átt að gera?

Niðurstaða rannsóknarnefndar Alþingis er að eftir árið 2006 hafi íslensk stjórnvöld ekki getað gripið til neinna ráðstafana til að hindra fall bankanna. Þetta er niðurstaða rannsóknarnefndar Alþingis. Það mat stendur óhaggað.

Frú forseti. Mig langar að síðustu að ræða aðeins um þau sjónarmið sem hefur verið haldið talsvert á lofti hér að verði þessar ákærur ekki að veruleika þurfi Alþingi að álykta að einhverju leyti eða átelja á einhvern hátt einhverja ákveðna einstaklinga í samfélaginu.

Alþingi Íslendinga setti á fór rannsóknarnefnd Alþingis. Alþingi fól rannsóknarnefndinni að komast að niðurstöðu um vanrækslu eða mistök þeirra sem mestu réðu í aðdraganda falls íslensku bankanna. Rannsóknarnefndin komst að niðurstöðu og kvað upp úr með það að ákveðnir aðilar hefðu sýnt af sér vanrækslu. Það mat rannsóknarnefndarinnar stendur óhaggað. Því er ekki hægt að áfrýja á nokkurn einasta stað, það mat stendur um aldur og eilífð að viðkomandi einstaklingar hafi sýnt af sér vanrækslu. Þetta er einsdæmi en það var Alþingi sem fól rannsóknarnefnd Alþingis að gera þetta mat og því mati er lokið. Það mat stendur óhaggað um aldur og eilífð og þess vegna er nóg að gert hvað það varðar.

Þess utan er fjöldinn allur af sakamálarannsóknum í gangi hjá sérstökum saksóknara er varða aðra aðila sem tengjast þá aðallega stjórnun bankanna þannig að fjölmörg mál eru í farvatninu. Ég tel að Alþingi hafi með því mati sem rannsóknarnefnd Alþingis var falið að fara í og með þeirri skýrslu sem þingmannanefndin hefur sameiginlega lagt fram og með þeim harðorðu ályktunum sem þar koma fram verið að loka málinu og klára uppgjörið við fortíðina. Það er nauðsynlegt að horfast í augu við mistökin. Fjölmörg mistök voru gerð en það var enginn sem sýndi af sér refsiverða háttsemi á þann hátt sem lagt er til að verði ákært fyrir hér í þessum þingsályktunartillögum.