Málshöfðun gegn ráðherrum

Mánudaginn 27. september 2010, kl. 15:19:24 (0)


138. löggjafarþing — 167. fundur,  27. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[15:19]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Í stuttu máli ætla ég að gera grein fyrir áliti mínu og hv. þm. Ólafar Nordal sem myndum minni hluta allsherjarnefndar í þessu máli. Allsherjarnefnd hefur, eins og komið hefur fram, fengið málið frá þingmannanefndinni með þeim formerkjum að við ætlum að svara tilteknum lögspurningum um gildi laga gagnvart stjórnarskrá. Það var ekki spurt sérstaklega um þetta mál sem er sérstakt vegna þess að við fjöllum um tilteknar tillögur og þessi takmörkun af hálfu þingmannanefndarinnar var ákveðinn galli. Við vekjum athygli á þessu í minnihlutaáliti okkar og um leið athygli á því að tíminn sem okkur var gefinn til að svara þessum fræðilegu spurningum var afar knappur, tveir sólarhringar. Það var of skammur tími til að vinna með þeim hætti sem við í minni hlutanum hefðum kosið. Það er þannig með flókin verkefni að ekki er hægt að ætlast til þess að menn snari fram áliti fyrirhafnarlaust. Mér finnst rétt að geta þess að mér finnst þingmannanefndin ekki hafa gefið sér nægan tíma til að fara yfir málið milli umræðna. Mér finnst áliti meiri hluta þingmannanefndarinnar hafa vera unnið með því sem við getum kallað, eins og gert er í tölvu, afrita/líma-aðferðinni, þ.e. kaflar eru teknir úr upphaflegri greinargerð og límdir inn í nefndarálit frekar en tekið sé tillit til sjónarmiða sem fram hafa komið, en það er önnur saga. Mér finnst þessi málsmeðferð hvorki fullnægjandi né í samræmi við það sem ætlast er til þegar tekist er á við mál sem er fyrst og fremst málshöfðun gegn tilteknum einstaklingum og markar um leið tímamót í störfum okkar á Alþingi. Þetta er í fyrsta sinn sem við stöndum frammi fyrir því að taka afstöðu til tillagna um að beita lögum um ráðherraábyrgð og landsdóm. Í sögu þingsins og réttarframkvæmda hér á landi er þetta sögulegt. Þess vegna finnst mér málsmeðferðin ófullnægjandi. Ég vil koma sjónarmiðum mínum skýrt fram vegna þess að þingmannanefndin, svo ég leyfi mér að segja það, er gjörn á að hrósa sér og vinnubrögðum sínum. Þess vegna gagnrýni ég það að miðað við að hér er um sögulegt mál að ræða sem á sér ekki fordæmi og miðað við að við ræðum vandasamar spurningar, þá finnst mér ófullnægjandi af hálfu þingmannanefndarinnar að gera ekkert annað milli umræðna en að ítreka fyrri sjónarmið.

Að mínu mati endurspeglar það hvers vegna engin ástæða var til að senda málið til þingmannanefndarinnar milli umræðna. Við lögðum til að málið yrði sent til allsherjarnefndar þar sem voru aðrir þingmenn en þeir sem báru ábyrgð á flutningi tillögunnar sem hér er rædd. Auðvitað óttuðumst við þetta þegar málið gekk aftur til þingmannanefndarinnar milli umræðna, að hún væri það niðurnjörvuð í afstöðu sinni að hún mundi ekki skoða málið frá nýjum sjónarhóli heldur beita afrita/líma-aðferðinni til að undirbúa nefndarálitið. En það er önnur saga.

Það er rétt að geta þess að þessi tveggja sólarhringa frestur sem við fengum var vel nýttur. Bæði við og meiri hlutinn lögðum nótt við dag til að ganga frá áliti á þessum stutta tíma. Til að gæta fyllstu sanngirni fengum við viðbótarfrest, hálfan sólarhring og ég þakka fyrir það, til að skila okkar minnihlutaáliti. Engu að síður, miðað við sögulega þýðingu málsins og að ekki eru til fordæmi sem hægt er að vísa til, þá var þessi tími ekki nægur til að vinna málið með þeim hætti sem hefði verið þinginu sæmandi.

Ég nefndi áðan að þingmannanefndin fól allsherjarnefnd að skoða nokkrar lögspurningar, þ.e. fræðilegar spurningar um það hvort tiltekin lög stæðust ákvæði stjórnarskrár. Við fjölluðum nokkuð um það. Við ræddum 70. gr. stjórnarskrárinnar ítarlega og til að gera langa sögu stutta teljum við að það sé ástæða til að hafa áhyggjur af þættinum sem snýr að réttarvernd þeirra sem bornir eru sökum á rannsóknarstigi máls. Við takmörkum okkur við það. Við erum ekki að lýsa áhyggjum af málinu eftir að það er komið í hendur landsdóms svo það liggi fyrir, við rökstyðjum það í okkar máli.

Varðandi réttarstöðu hinna grunuðu sem hafa ekki verið ákærðir enn þá en eru grunaðir, þó þeir hafi ekki fengið tilkynningu um það, þá er það þannig að málsmeðferðin — ef við tökum lagalega þáttinn þá er löggjöfin um ráðherraábyrgð og landsdóm augljóslega ófullnægjandi varðandi rannsókn fyrir ákæru. Það er ekkert um það, það er bara eyða. Á þetta hafa fræðimenn bent. Hér hefur verið vitnað til Eiríks Tómassonar og við gerum það í nefndaráliti okkar þar sem hann segir árið 2005, með leyfi forseta:

„Hversu vönduð sem lög um ráðherraábyrgð eru þjóna þau engum tilgangi ef ekki er unnt að framkvæma þau. Frumskilyrði þess“ — takið eftir: „frumskilyrði þess að slíkum lögum verði beitt og Alþingi geti tekið afstöðu til þess hvort ástæða sé til að höfða mál gegn ráðherra fyrir landsdómi er að fram hafi farið ítarleg rannsókn á sakargiftum í garð ráðherrans með svipuðum hætti og þegar lögregla rannsakar mál þegar ákvörðun er tekin um saksókn.“

Ég hef ekki heyrt neinn færa rök gegn þessari skoðun. Ég hef heyrt því haldið fram að af því að réttindi sakborninga séu tryggð fyrir landsdómi þá skipti engu máli hvað gerist í aðdragandanum. Ég er ósammála því sjónarmiði. Ég tel að vegna gallanna í lögunum og skorts á ákvæðum sé málið ófullnægjandi að þessu leyti. Þetta kann að rekast á við kröfuna sem byggja má á 70. gr. stjórnarskrárinnar og eftir atvikum 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um réttláta málsmeðferð.

Ég ætla ekki að staldra lengur við þetta án þess að nefna að það er mat okkar í minni hlutanum að aðdragandi málsins, eins og hann var, fullnægir engan veginn kröfunum sem gera má til rannsóknarinnar. Við nefnum nokkur atriði. Það er alveg ljóst að þeim sem grunur beindist að var ekki ljóst og aldrei tilkynnt að að þeim beindist grunur um tiltekin brot eða verið væri að rannsaka það á þeim forsendum. Þeir vissu að þeir höfðu sætt gagnrýni. Þeir vissu þegar skýrsla rannsóknarnefndar kom út að þeir voru gagnrýndir fyrir tiltekin atriði en það er allt annað en að sæta rannsókn á grundvelli refsiákvæða, á grundvelli refsilaga, það er svolítið annað. Það er líka ljóst að þegar þingmannanefndin beindi sjónum sínum að tilteknum brotum sem mér er ekki ljóst hvort var í maí eða júní, að þegar ráðherrunum fyrrverandi voru send bréf þar sem þeim var gefinn kostur á að andmæla var ekki einu sinni vísað til ákvæða ráðherraábyrgðarlaganna. Af þeirri ástæðu er alveg klárt að ráðherrarnir fyrrverandi höfðu ekki stöðu til að bregðast við grun eða rannsókn á sérstökum sakargiftum og gátu þess vegna ekki neytt réttinda sem slíkir. Við rekjum þetta ítarlega í nefndaráliti okkar. Ég ætla ekki að staldra lengur við það. En atriðið sem snertir réttarstöðu sakborninga, réttláta málsmeðferð og annað teljum við að sé ófullnægjandi í ljósi 70. gr. stjórnarskrárinnar og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Það er auðvitað rétt sem kemur fram í áliti meiri hluta þingmannanefndarinnar og meiri hluta allsherjarnefndar að það er ekki hægt að fá úr þessu skorið með óyggjandi hætti nema fyrir landsdómi og eftir atvikum Mannréttindadómstólnum. Þarna er vafi sem verður aðeins leystur fyrir dómstólum. Við verðum einfaldlega að sætta okkur við að vafinn er fyrir hendi.

Það er ljóst að fari málið áfram mun þetta atriði koma til skoðunar í þessu sambandi.

Það má segja að hin spurningin sem þingmannanefndin beindi til okkar í allsherjarnefnd hafi lotið að skýrleika refsiheimilda. Við fjöllum um það í alllöngu máli bæði b-lið 10. gr. og c-lið 8. gr. Við tökum fram í upphafi umfjöllunar að það er enginn ágreiningur um að hér sé um matskennd ákvæði að ræða, ég held að allir séu sammála um það. Þetta eru matskennd ákvæði, ekki síst b-liður 10. gr. Það reynir líka á mat í sambandi við beitingu c-liðar 8. gr. að því er lýtur að skýringum á 17. gr. stjórnarskrárinnar. Er matið eða matskennda eðli ákvæðanna þess eðlis að þetta séu ófullnægjandi refsiheimildir? Við göngum ekki svo langt að fullyrða að svo sé. Við vekjum hins vegar athygli á að kröfur um skýrleika refsiheimilda hafa aukist í dómaframkvæmd hér á landi auk þess sem dómstólar virðast gera auknar formkröfur í refsimálum. Það er því ljóst að á þessi atriði mundi reyna fyrir dómstólum. Eins og í hinu tilvikinu þá er enginn sem getur gefið okkur skýr svör. Allsherjarnefnd getur ekki gefið skýran úrskurð á tveimur sólarhringum um það hvort þessi atriði standist, en vafi er fyrir hendi. Í áliti okkar teljum við að allvíðtæk samstaða sé hjá þeim sem hafa skrifað um þessi mál, að þörf sé á að gera refsiákvæði laga um ráðherraábyrgð skýrari vegna réttarþróunar í landinu.

Vísað hefur verið til þess í margvíslegum skrifum, alla vega frá 1999 og fram á síðasta ár, að gera þurfi refsiákvæðin skýrari í ljósi aukinnar kröfu dómstóla um skýrleika refsiheimilda. Eru ákvæðin of óskýr til að þeim verði beitt? Það verður ekki úr því skorið nema fyrir dómstólum, en þarna er vafi.

Það verður að viðurkennast að því svörum við þó við höfum ekki verið spurð hvernig eigi eða hvernig við sjáum fyrir okkur eða hvernig við metum það hvernig eigi að færa meint brot tiltekinna ráðherra til þeirra refsiákvæða sem vísað er til. Við fjöllum um það í textanum og vísast til þess í því sambandi. Það tengist því hvernig ákærurnar eru settar fram og hvernig brotin eru tilgreind í ákæruskjölunum. Að okkar mati undirstrikar það skýrt hvað refsiákvæðin eru óljós og matskennd. En það er ekki nóg með það heldur það sem ráðherrunum fyrrverandi er borið á brýn ansi óljóst og matskennt. Ég nefni nokkur atriði sem við tiltökum í nefndaráliti okkar.

Það er lagt til að ákært verði fyrir athafnaleysi á löngu tímabili. Það er umdeilt svo ég vitni beint í texta, með leyfi forseta:

„Umdeilt er hvenær tilefni var til aðgerða miðað við þær upplýsingar sem fyrir lágu á þeim tíma. Óljóst er til hvaða athafna hefði átt að grípa. Óljóst er til hvaða athafna var heimilt, unnt og forsvaranlegt að grípa, m.a. út frá eðlilegu hagsmunamati á þeim tíma. Ekki er sýnt fram á orsakasamhengi milli meints athafnaleysis og afleiðinga þess og ekki heldur hvort tilteknar athafnir, sem vanrækt var að grípa til eða fylgja eftir og nefndar eru í ákærutexta og greinargerð, hefðu skilað þeim árangri sem að var stefnt.“

Þá er ekki tekið tillit til athafna sem gripið var til á þessu tímabili og m.a. er getið um í andmælabréfum ráðherranna fyrrverandi enda er ljóst af gögnum, m.a. andmælabréfum, að um var að ræða ýmsar aðgerðir, athafnir og viðleitni af hálfu stjórnvalda til að bregðast við vandamálum fjármálakerfisins. Um var að ræða ýmsar aðgerðir í þessu sambandi þó að þær hefðu ekki skilað árangri, þó að þær hefðu ekki skilað þeim árangri að forða hruni.

Við nefnum í áliti okkar orsakasamhengi og mat á fyrirsjáanlegri hættu eða fyrirsjáanlegum afleiðingum, mat á því hver hættan er og hvernig á að bregðast við. Þetta krefst skoðunar í þessu sambandi og snertir líka spurningarnar um ásetning eða stórkostlegt hirðuleysi. Við nefnum að ekki sé rökrétt að ætla að ákæra fjóra einstaklinga og krefjast refsingar yfir þeim fyrir að láta ógert að krefjast aðgerða óháð mati á því hvort þær aðgerðir hefðu skilað árangri en hafna því á sama tíma að taka tillit til aðgerða sem gripið var til á þeirri forsendu að árangur hafi ekki náðst. Ef við segjum: Það skiptir ekki máli hvort atriðin sem við nefnum sé dæmi um eitthvað sem hefði verið hægt að gera. Það skiptir ekki máli hvort það hefði skilað árangri. Við erum líka að horfa á það sem menn gerðu óháð því hvort það skilaði í raun og veru árangri, er það ekki rökrétt? Ég get ekki séð það með öðrum augum.

Þetta tengist, eins og ég segi, spurningunni um saknæmi, ásetning eða stórkostlegt hirðuleysi. Ég ætla að hlaupa fljótt yfir það, vísa til nefndarálits okkar og ítarlegrar umfjöllunar í nefndaráliti hv. þingmanna Unnar Brár Konráðsdóttur og Ragnheiðar Ríkharðsdóttur í þingmannanefndinni sem fjallar töluvert um það atriði. Ég vil þó í þessu sambandi nefna, af því að ég ræddi um framsetningu ákæranna og kröfurnar sem gera má til þeirra, að það er afar erfitt að festa hönd á hvað þingmennirnir í þingmannanefndinni sem leggja til að ákært verði telja að fyrrverandi ráðherrar hefðu átt að gera. Það er afar erfitt, svo ekki sé meira sagt, að festa hönd á því. Við nefnum dæmi úr ákærum á hendur fyrrverandi forsætisráðherra Geir H. Haarde. Það er talað almennt um að hann hafi látið undir höfuð leggjast að beita sér fyrir aðgerðum, löggjöf, útgáfu almennra stjórnvaldsfyrirmæla eða töku stjórnvaldsákvarðana í því skyni að afstýra fyrirsjáanlegri hættu. Þetta er afar óljóst. Hvaða löggjöf? Hvaða stjórnvaldsfyrirmæli? Hvaða stjórnvaldsákvarðanir? Þurfum við ekki að reyna að glöggva okkur á því?

Það er einnig nefnt að hann sé ákærður fyrir að hafa ekki beitt sér fyrir heildstæðri og faglegri greiningu á fjárhagslegri áhættu ríkisins. Heildstæð fagleg greining. Það getur verið dálítið teygjanlegt. Einnig þegar talað er um virkar aðgerðir til að draga úr stærð íslenska bankakerfisins. Hvaða virku aðgerðir hefðu skilað árangri í því skyni? Að stuðla að því að bankarnir minnkuðu efnahagsreikning sinn eða einhverjir þeirra flyttu höfuðstöðvar sínar úr landi? Eiga stjórnvöld að taka ákvarðanir um það að fyrirtækjum beri að flytja höfuðstöðvar sínar úr landi? Er verið að gera kröfu um það? (MÁ: Stuðla að.) Það að hv. þingmaður sem kallar fram í og vísar til orðanna stuðla að, segir okkur hvað það er erfitt að festa hönd á þetta. Stuðla að er opið orðalag. Ég segi fyrir sjálfan mig að jafnvel þó ég geti tekið undir, sem ég geri í mörgum tilvikum, þá gagnrýni sem komið hefur fram á framgöngu stjórnvalda og einstakra ráðherra á þessum tíma, jafnvel þó ég geti skrifað undir að þeir hafi ekki staðið sig í stykkinu í erfiðum kringumstæðum, jafnvel þó ég geti sagt að sumt sem var gert og sumt sem var látið ógert hafi verið vanræksla eða mistök, þá er ég ekki þeirrar skoðunar að um ásetning eða stórkostlegt hirðuleysi sé að ræða og eru skilyrði þess að refsiábyrgð sé beitt. Stórkostlegt hirðuleysi er það sem menn geta refsað fyrir, annað geta menn gagnrýnt. Það er gríðarlega mikilvægt að við gerum greinarmun í máli okkar í dag, annars vegar á því hvort við getum gagnrýnt það sem hann gerði eða hvort forsendur er til að fara í refsimál. Það eru gerðar allt aðrar kröfur í því sambandi.

Ég ætla, hæstv. forseti, í lok máls míns að vísa til niðurstaðnanna í nefndaráliti okkar að á formshliðinni eru ýmis vafaatriði. Það eru ýmis vafaatriði sem við hljótum að hafa í huga þegar við tökum afstöðu til þess hvort ákæra eigi eða ekki. Það eru ýmis vafaatriði sem lúta að því hvort unnt sé að refsa eða dæma til refsingar á þeim forsendum sem hér er lagt upp með. Þetta er formlega hliðin. Hún skiptir líka máli.

Efnishliðin er nákvæmlega þetta sem ég vék að síðast. Það er hvort efnislega sé hegðun, háttsemi þessara fjögurra fyrrverandi ráðherra sem við erum að ræða um, eða hvort framganga þeirra hafi verið með þeim hætti að unnt sé að beita refsiákvæðum. Það er kjarni málsins. Kjarni málsins er ekki sá hvort við viljum gagnrýna þá fyrir embættisfærslu, hvort við tökum undir það sem segir í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis eða þingmannanefndarinnar um að margt hafi verið gagnrýnisvert í stjórnsýslu og stjórnarathöfnum á þessum tíma. Það eru ekki spurningarnar sem við þurfum að spyrja okkur í dag. Það eru ekki spurningarnar sem þessar tillögur kalla á. Hér snúast spurningarnar um það hvort fram séu komin nægilega sterk rök fyrir því að sakfelling í refsimáli teljist líkleg á grundvelli þess sem hér liggur fyrir. Svar mitt við þeirri spurningu er ótvírætt nei.