Málshöfðun gegn ráðherrum

Mánudaginn 27. september 2010, kl. 16:59:07 (0)


138. löggjafarþing — 167. fundur,  27. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[16:59]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Jú, það er einmitt það sem hv. þingmaður gerir, hann hótar. Í grein sinni og ræðum hótar hann ríkisstjórninni og ráðherrum að ef þeir geri það sem þeir mega ekki gera, geti verið að þeir lendi í því. Hvað væri svo vont við það, forseti, að það gerðist, ef atburðarásin hefur verið eins og hv. þm. Bjarni Benediktsson lýsir henni, ef hættan var svona mikil og aðstæðurnar eins og hv. þm. Bjarni Benediktsson heldur fram í greinum og ræðum? Væri þá ekki eðlilegt (Gripið fram í.) að ríkisstjórnin þyrfti með einhverjum hætti að verja sig gagnvart því?

Hv. þm. Bjarni Benediktsson sagði, og ég er alveg sammála honum, að við eigum fyrst og fremst að byggja á þingræðislegum úrræðum í þeirri stjórnmálabaráttu sem eðlileg er á þinginu og í samfélaginu, þ.e. að brot þurfa að vera sérstaklega alvarleg til að landsdómur komi til greina. Það verður hv. þingmaður að meta í þessu tilviki því að hann getur borið fram tillögu um að það gerist, fyrst með því að skipuð verði einhvers konar rannsóknarnefnd og þingmannanefnd í kjölfarið því að við höfum auðvitað verið að skapa ákveðna hefð í þannig málum.

Þingmaðurinn virðist hins vegar halda, og heldur því a.m.k. fram, að ráðherrar geti ekki farið fyrir landsdóm nema þeir hafi beinlínis brotið lög, þeir hafi verið nappaðir með peningana eða hafi sést sparka í mann eða eitthvað sem er „flagrant“ brot á venjulegan kvarða. Hann gleymir því að í lögunum um ráðherraábyrgð er talað um vanrækt starfa, um stórkostlegt hirðuleysi, um vanræktar embættisathafnir. Þvílík brot geta auðvitað ekki orðið annað en matskennd. Lýsingarorðið „matskenndur“ er ekki neikvætt í sjálfu sér. Það útheimtir hins vegar sérstaka rannsókn og að menn fari varlega og það hefur verið gert í þessu máli.