Málshöfðun gegn ráðherrum

Mánudaginn 27. september 2010, kl. 17:36:50 (0)


138. löggjafarþing — 167. fundur,  27. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[17:36]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst ekki alveg nógu sannfærandi rök að segja að það að Alþingi hafi ekki fengið upplýsingar á þessum tíma hafi leitt til þess að það gat ekki rækt eftirlitshlutverk sitt. Það hefur fyrirspurnavald. Það þurfa ekki annað en að vakna grunsemdir. Mér finnst ekki að upplýsingar þurfi endilega að vera fyrir hendi svo maður fari í fyrirspurn. Það voru nógu mörg alvarleg teikn á lofti á hverjum tíma. Þess vegna vekur það einfaldlega undrun mína að á hinu háa Alþingi hafi menn ekki verið meira á tánum, a.m.k. get ég ekki séð það af fundargerðum eða skjalalistanum.

Síðan er það hitt, þjóðinni blæðir, já, og ég vék að því einmitt í ræðu minni að ég tel það vera viðfangsefnið sem við eigum að fara að glíma við. Mér finnst það alveg afleitt ef afstaða manns um að vilja ekki kæra þessa ráðherra er túlkuð þannig að maður vilji gera lítið úr þeim vanda (Forseti hringir.) — það finnst mér afleitt. (Gripið fram í: Hver sagði þetta?)