Málshöfðun gegn ráðherrum

Mánudaginn 27. september 2010, kl. 17:44:18 (0)


138. löggjafarþing — 167. fundur,  27. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[17:44]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég nefndi tvö dæmi úr veraldarsögunni um það sem ég gæti tekið undir að hefði verið rétt að kalla saman landsdóm, annars vegar Tamílamálið í Danmörku og hins vegar blóðmálið í Frakklandi. Mér finnst það vera um alveg skýrt afmarkað refisvert aðgerðaleysi.

Mér fannst það aðgerðaleysi sem var sýnt hér í aðdraganda hrunsins verulega ámælisvert eins og komið hefur fram í máli mínu. En hvernig mundi málflutningurinn fara fram fyrir dómi? Tökum sem dæmi að ekki tókst að setja Icesave-reikningana í dótturfélag. Nú er ákæran orðin þannig að ekki hafi verið unnið að því með virkum hætti að koma Icesave-reikningunum í dótturfélag. Fyrir dómi mundi þetta mál fara þannig að ráðherrarnir sem áttu að sjá um að setja Icesave í dótturfélag — án þess reyndar að hafa til þess heimildir, það var Fjármálaeftirlitið ef ég man rétt — mundu auðvitað mótmæla þessu. Þeir gerðu ýmislegt. (Forseti hringir.) Þeir gerðu nefnilega ýmislegt þannig að á sama tíma og ég er sáttur við að rannsóknarnefndarskýrslan kemst bara að þeirri (Forseti hringir.) niðurstöðu að hér hafi verið sýnt aðgerðaleysi er ég sáttur við þá niðurstöðu. Hún bara stendur.