Málshöfðun gegn ráðherrum

Mánudaginn 27. september 2010, kl. 19:11:33 (0)


138. löggjafarþing — 167. fundur,  27. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[19:11]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé hárrétt hjá hv. þingmanni, það að vera formaður í stjórnmálaflokki gerir mann ekki ábyrgan á einn eða neinn hátt. En þegar maður er oddviti stjórnarflokks þar sem tveir stjórnarflokkar vinna saman — foringjar þessara stjórnarflokka setjast að sjálfsögðu niður og ræða málin og ráða ráðum sínum, og ég tala nú ekki um þegar það eru erfiðir og viðsjárverðir tímar. Það eru ákveðnir fundir sem við vitum að eru lykilfundir og lykilatburðir í þeirri atburðarás sem átti sér stað og þá fundi sat hæstv. fyrrverandi utanríkisráðherra fyrir hönd ráðherra Samfylkingarinnar, má segja. Og með vitneskju sinni og í raun og veru undirskriftum og öðru slíku verður að teljast eðlilegt — þar sem hún útdeildi ábyrgðinni ekki áfram til fagráðherra, get ég ekki séð annað en að það sé eðlilegt að hún sæti ábyrgð sem slík.