Málshöfðun gegn ráðherrum

Þriðjudaginn 28. september 2010, kl. 11:02:18 (0)


138. löggjafarþing — 168. fundur,  28. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[11:02]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er áhugavert að hlusta á umræður í þinginu og hvernig þær eru að hitna á þessum degi. Ég get tekið undir margt sem kom fram hjá hv. þingmanni en vildi spyrja hana út í eitt vegna þess að hv. þingmaður byrjaði að tala um vinnubrögð sem mikið er talað um og allir eru sammála um að þar eigum við að bæta okkur. Það mál sem kannski er hægt að finna eitthvað samanburðarhæft við þetta mál er danska Tamílamálið. Þar var rannsóknarréttur skipaður 1990. Hann skilaði skýrslu þremur árum seinna upp á 2.218 síður og eftirrit af yfirheyrslum upp á 2.782 síður. 12. febrúar það ár hóf þingið að fjalla um málið og 2. júní kom tillaga. (Forseti hringir.) Þar var um mjög skýrt brot að ræða hjá viðkomandi ráðherra ólíkt því sem við ræðum núna og því vildi ég spyrja hv. þingmann og formann þingflokks Samfylkingarinnar hvernig henni finnst vinnubrögðin hjá okkur vera í samanburði við þetta.