Málshöfðun gegn ráðherrum

Þriðjudaginn 28. september 2010, kl. 11:14:18 (0)


138. löggjafarþing — 168. fundur,  28. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[11:14]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég hygg að þó að menn setji fram sitt efni með ýmsum stíllegum hætti hafi enginn haldið því fram í alvöru að ekki hafi verið gert neitt. Það var ekki þannig. En það var eins og hv. þingmaður lýsti, menn voru að taka alls konar ákvarðanir í stöðu sem þeir höfðu ekki séð fyrir, sem þeir höfðu ekki haft vit á eða höfðu ekki haft dug til eða höfðu ekki haft hæfileika til að sjá fyrir. Og það áttu þeir að gera. Það er niðurstaðan af málinu. Ábendingar sem nú liggja fyrir, þær vísbendingar sem nú liggja fyrir, m.a. í þeim fjórum atriðum sem ég tiltók áðan, eru þannig að það átti að vera búið að kanna þetta allt. Það átti að virkja samráðshópinn. Það átti að setja af stað rannsókn á bankakerfinu. Það átti að skoða hvaða afl Ísland hafði án þess að fara í „road-show“-in með yfirlýsingagleðina og kokteilpartíin, hvaða afl Ísland hafði í þeirri alþjóðakrísu sem þarna gekk yfir og hvernig væri búið um bankakerfið okkar (Forseti hringir.) gagnvart þeirri vá. Það var það.