Málshöfðun gegn ráðherrum

Þriðjudaginn 28. september 2010, kl. 11:16:44 (0)


138. löggjafarþing — 168. fundur,  28. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[11:16]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Stjórnmálin hafa brugðist í því að leiða til lykta farsællega málið sem hér liggur fyrir og það má einu gilda á hvorn veginn atkvæðagreiðslan fer síðar í dag. Þingið er þverklofið og stjórnmálastéttinni hefur mistekist að ná sameiginlegum skilningi um það hvernig axla megi ábyrgð og ná sáttum eftir þá erfiðu hluti sem hafa gengið á. Þar er ábyrgð okkar mikil og skortur á pólitískri forustu. Þar mun trúlega á annan veginn ráða nokkru refsivilji og á hinn bóginn afneitun.

Ég held að það geri að verkum að viðfangsefni okkar lýkur ekki í dag með atkvæðagreiðslunni því að í raun og veru er það eftir sem áður óleyst á hvorn veginn sem fer. Það er dapurlegt að málið hafi orðið að ágreiningsmáli í þingmannanefndinni og að þar hafi flokkalínur litað niðurstöður manna. Ég tek þó skýrt fram að ég ætla ekki neinum nefndarmönnum annarleg sjónarmið í því heldur hygg ég að þeir hafi hver og einn tekið afstöðu út frá sinni bestu sannfæringu. Okkur hefur á hinum pólitíska vettvangi ekki tekist að leiða þessa vegferð þangað að samstaða næðist. Þó erum við á þeim tímum í sögu lands og þjóðar að aldrei fyrr er samstöðu þörf og skilnings hvers gagnvart öðru.

Ég tel þó að þingmannanefndin hafi unnið mikið og óeigingjarnt starf og að við höfum falið þeim þingmönnum, sem ekki voru aðilar að hrunstjórninni sem áðan var nefnd og ekki gerendur á vettvangi eins og mörg okkar verk sem allir vissu að væri erfitt og gæti jafnvel orðið ógeðfellt, sé full ástæða til þess að þakka þeim fyrir hvernig þeir störfuðu að því og af trúmennsku allir sem einn.

Ég vil í meginatriðum segja um starfshætti þingmannanefndarinnar að það er svo um allar nefndir og störf þeirra að þær má gagnrýna en í öllum aðalatriðum hafi verið starfað eins og hægt sé að ætlast til. Auðvitað eru hlutir sem einhverjum fyndist að hefðu mátt vera öðruvísi. Mér til að mynda kom á óvart að fyrrverandi hæstv. utanríkisráðherra skyldi ekki vera gefið með skýrari hætti færi á því að bregðast við þeim ávirðingum sem menn höfðu í huga.

Hér hefur verið mikil umræða um lögin, formið og mannréttindin. Auðvitað hefur umræðan verið fullkomlega eðlileg, þessi lög hafa aldrei verið notuð. Þetta er óvenjuleg aðferð við að setja fram ákærur og það er full ástæða til þess að hafa áhyggjur af mannréttindum fólks og hvort formsins hafi verið réttilega gætt. Ég held að umræðan öll hafi að mestu leyti sýnt fram á að réttarfar í líkingu við þetta þekkist víðs vegar í kringum okkur. Á öðru þjóðþingi á Norðurlöndunum er ekkert ósvipað ferli í gangi. Því hefur sem betur fer verið beitt í mjög fáum tilfellum annars staðar. Þetta er leið sem stjórnarskráin mælir fyrir um. Við höfum svarið eið að stjórnarskránni og höfum ekki gert neina undanþágu í eið okkar að fylgja fram þessu ákvæði. Við höfum nýlega, árið 2008, bætt réttarfar laganna og höfum fengið marga sérfræðinga og hv. allsherjarnefnd til að fara með okkur yfir mannréttindaþáttinn og formið á milli umræðna. Ég hygg að eftir því sem hægt er sé formhlið málsins þannig að fullur sómi sé að.

Það er skylda okkar að taka afstöðu til efnis málsins. Það er þungbær skylda okkar allra auðvitað en kannski ekki síst okkar sem sátum hér árið 2007 og deilum ábyrgð með fólkinu sem hér er fjallað um. Fyrir mig til að mynda, þjóðkjörinn alþingismann, sem tók þátt í stjórnarmeirihlutanum og veitti þessum einstaklingum umboð mitt og þeir störfuðu í umboði mínu, er það fjarri því að vera létt verk að meta störf þeirra. Við þekkjum umræðuna um hæfi og vanhæfi o.s.frv.

Sagt hefur verið að ekki megi grípa til þessara gömlu lagaákvæða vegna þess að þá muni enda með því að við gerum upp pólitíska ábyrgð í réttarhöldum hvert gegn öðru eftir því hver nær meiri hluta á kjörtímabilinu. Það er ástæða til þess að hafa áhyggjur af þessu. Það er ástæða til þess að hafa áhyggjur af því að fara ekki offari, m.a. vegna þess að ef menn skoða málin sem farið var í áður en Tamílamálið kom upp, ég hygg að ég muni það rétt, hafi um 15 ráðherrum verið stefnt en aðeins tveir dæmdir. Önnur þing hafi verið nokkuð ákæruglöð í ljósi reynslunnar og því er ákaflega mikilvægt að fara varlega og túlka vafa þeim í vil sem hér eru undir.

Það er hægt að segja að viðburðirnir sem urðu árið 2008 í okkar litla landi séu í hópi stærstu gjaldþrota í sögunni. Ekki aðeins í sögu Íslands heldur sögu veraldarinnar. Jafnvel þó að þær gríðarlegu hamfarir leiddu til þess að kalla þyrfti saman landsdóm og menn þyrftu að svara fyrir eitthvað þá tel ég ekki að menn muni fara í mál hverjir við aðra á hverju kjörtímabili. Ég er sammála því sem komið hefur fram, m.a. hjá ýmsum hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, að það er nauðsynlegt að skýrt sé um hvað málið snýst. Það þarf að vera skýrt að þeir sem í hlut eiga hafi haft upplýsingar til þess að gera það sem þeir létu ógert. Að þeir hafi haft vald til þess að framkvæma og að þeir hafi haft tækifæri til þess að gera eitthvað sem minnkað hefði umtalsvert tjón okkar í hruninu.

Það er vitað, og liggur fyrir, að við verðum að vera meðvituð um það í þessari umræðu að höfuðábyrgð á hruninu bera allt aðrar manneskjur en hér eru undir. Það er líka vitað að í árslok 2006 varð hruninu varla afstýrt. Þetta ráðuneyti sem hér er undir tók við 2007. Það er engu að síður þannig að auðvitað hefði verið hægt að grípa til ráðstafana sem hefðu takmarkað tjón okkar frá því sem þó varð. Í því efni hafa verið höfð uppi margvísleg varnaðarorð. Það er full ástæða til þess, af því að það er auðvelt að vera vitur eftir á, að þetta hefði átt að gera og hitt hefði átt að gera. Það er líka auðvelt að hafa pólitískar skoðanir á því að einhver önnur pólitík hefði átt að ráða ferðinni. Ég tel ekki að slík efni eigi að vera undir í þessari umræðu. Ég held að umræðan þurfi að takmarkast við það hvort eitthvað sé í athöfnum eða athafnaleysi sem varðar við stjórnarskrána og/eða lögin. Fara formlega eftir þeim reglum sem við ætlumst til að allir fari eftir. Ekki verður hjá því komist að láta á það reyna hvort svo hafi verið og að það hafi leitt þingmanninn sem þarf að gera það upp við sig til þeirrar niðurstöðu að líklegt sé að sakfellt verði.

Þegar ég fer yfir atburðina alla er erfiðast að fallast á ákveðna atvikalýsingu. Þrátt fyrir erfiðar aðstæður, skorti á úrræðum og tímaskort og allt það sem gekk á, á ég erfitt með að fallast á að hægt sé að una við. Mér finnst a.m.k. áleitin sú spurning hvort ekki hafi þurft að krefjast meiri ábyrgðar en sýnd var. Það snertir sérstaklega aprílmánuð árið 2008. Tillögur og tilboð sem forusta Seðlabankans og forsætisráðherra fengu frá öflugum alþjóðlegum aðilum, frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og frá Englandsbanka, um að koma okkur til aðstoðar og með hvaða hætti rétt væri að bregðast við. Ég spyr mig hvort ekki sé ætlast til þess þegar skip er í nauðum að skipstjóri þess þiggi þá hjálp sem boðin er? Ég spyr mig líka hvort það verði ekki að ætlast til þess að þessum upplýsingum sé deilt með öðrum stjórnendum á skipinu?

Ég hef verið ósáttur við umræðuna um upplýsingar, bæði í skýrslu rannsóknarnefndarinnar og eins hjá þingmannanefndinni. Ég er ósammála áherslunni sem lögð var á 7. febrúar. Ég tel að hættan sem skapaðist af alþjóðlegu lánsfjárkreppunni hafi ekki mátt vera almenningi ljós. Ég er þeirrar skoðunar að allir sem fylgdust með efnahagsmálum og viðskiptum hafi mátt gera sér grein fyrir því frá því lánsfjárkreppan skall á í júlí, ágúst 2007 að ef hún varði óhóflega lengi mundi það ógna íslensku bönkunum og íslensku samfélagi. Spurningin var hversu langur sá tími væri og hvort kreppunni slotaði áður en af því yrði. Fréttirnar sem Davíð Oddsson, formaður bankastjórnar Seðlabankans, færði 7. febrúar sneru fyrst og fremst að því að tímapunkturinn kynni að hafa færst framar. Ég held að bæði rannsóknarnefndin og þingmannanefndin geri allt of mikið úr því.

Ég geri alvarlegar athugasemdir við það. Ég tel að það sé ekki heilbrigð mynd þegar við reynum að gera upp við þennan tíma. Þetta er ekki vegna þess að það hafi verið einhver fjórmenningaklíka sem hafði allar upplýsingar um það hættulega sem ætti að fara að gerast og allir aðrir hafi mátt vera grandalausir um það. Svoleiðis var það ekki. Það var alvarleg alþjóðleg lánsfjárkreppa. Við vorum með gríðarstórt bankakerfi og fjölmargir aðilar í samfélaginu, þar á meðal ég og margir sem í þessum sal sitja, menn í atvinnulífi, háskólum, fjölmiðlum o.s.frv., máttu vita að bankar sem ekki fá lánað í lánsfjárkreppu lenda í greiðsluþroti. Þegar fer að skorta á um lausaféð styttist yfirleitt sá tími sem menn hafa til stefnu frá því sem þeir upphaflega hugðu. Það súrnar í fjármögnuninni og rekstrinum og fleiri og fleiri kippa að sér hendinni.

Mig undrar hins vegar að upplýsingarnar sem voru í tillögum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í apríl og upplýsingarnar í bréfum Melville James í sama mánuði hafi af formanni bankastjórnar Seðlabankans, Davíð Oddssyni, og hæstv. forsætisráðherra, Geir Haarde, hvorki verið látnar ganga áfram til samstarfsflokksins né teknar fyrir á formlegum ríkisstjórnarfundum. Ég spyr mig hvort það hafi verið í lagi og eigi að vera í lagi í framtíðinni eða hvort við verðum ekki að segja að ef við erum í nauðum stödd og öflugir alþjóðlegir aðilar bæði koma með tillögur og bjóða okkur hjálp við að taka á vandanum áður en Icesave er komið upp í Hollandi, áður en gjaldþrot Seðlabankans er orðið og áður en ýmislegt ófagurt var gert inni í viðskiptabönkunum, hvort ekki verði ætlast til þess af verkstjóra ríkisstjórnarinnar og formanni bankastjórnar Seðlabankans að fara ekki með slíkar upplýsingar sem sitt einkamálefni heldur taka þær upp við samstarfsráðherra sína og í ríkisstjórn og taka afstöðu til þess hvort þiggja eigi hjálpina eða jafnvel gera kröfu til þess að maður þiggi hjálp þegar hann er í nauðum staddur og hún er boðin? Við Íslendingar erum sæfaraþjóð og á hafinu gerum við kröfu um hjálp. Þess vegna höfum við sett lög um það hvað þann vettvang varðar, vil ég segja, hvort við þurfum ekki einnig að gera sömu kröfur hér.

Ég hef hins vegar verið miklu gagnrýnni á þá umfjöllun sem fyrrverandi hæstv. utanríkisráðherra fær í þessum tillögum og finnst þær ekki sannfærandi gagnvart henni og embættisfærslum hennar. Ein af ástæðunum fyrir því er að ég tel það yfir höfuð mjög varhugavert fyrir pólitíska nefnd þingmanna að ákveða að taka stjórnmálamann sem ekki var talin hafa vanrækt neitt í skýrslu rannsóknarnefndarinnar, hinni faglegu skýrslu sem þingmannanefndin vann með. Ég skil röksemdir þingmannanefndarinnar og virði þá afstöðu sem menn hafa í því en mér finnst þær ekki byggja á traustum grunni.

Mikið hefur verið talað um af hverju fyrrverandi hæstv. utanríkisráðherra hafi haldið hlutum leyndum fyrir öðrum ráðherrum í ríkisstjórninni. Ég minni einnig á að á þessum tímapunkti, í apríl 2008, þegar mér virðist hafi verið raunverulegt tækifæri til þess að þiggja hjálp og grípa til aðgerða sem nokkuð ótvírætt hefðu dregið úr tjóninu sem við urðum fyrir, hafi hún ekki haft upplýsingar þar um.

Ég verð síðan að segja um sakargiftir fagráðherranna sem í hlut eiga, bæði Árna M. Mathiesens og Björgvins G. Sigurðssonar, að þar skortir mig enn atvikalýsingar. Umræðan er ekki búin og auðvitað hlustum við vel eftir því hvað aðrir segja. Að þar séu ekki atvikalýsingar eins og ég nefndi áður og þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa m.a. kallað eftir um einhverja tiltekna aðgerð, einhverja tiltekna athöfn sem annar hvor þessara ráðherra hafði upplýsingar um, vald til og tækifæri til að taka. Það er kallað eftir betri greiningu og ég hygg að það sé ekki nægilegt.

Sömuleiðis er kallað eftir því að þessir tveir ráðherrar hefðu átt að ganga eftir því að minnka íslenska bankakerfið. Ég verð um fyrrverandi hæstv. fjármálaráðherra að segja í því sambandi að mér þykir vera býsna langt gengið í að túlka skyldu fjármálaráðherra gagnvart bankakerfinu í landinu þar sem hann var hvorki ráðherra efnahagsmála né bankamála. Mér er ekki alveg ljóst með hvaða hætti eða með hvaða tiltekinni athöfn fyrrverandi hæstv. fjármálaráðherra hefði átt að hlutast til um.

Um fyrrverandi hæstv. viðskiptaráðherra er það svo að stöðvaður var samruni. Mál voru tekin upp á ríkisstjórnarfundi, þó seint væri, hinn 14. ágúst. Það verður líka að hafa í huga að fyrrverandi hæstv. viðskiptaráðherra fór ekki með stjórn þeirra sjálfstæðu eftirlitsstofnana sem voru fyrst og fremst í færum til þess, Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins. Stjórnarstefnan var þveröndverð þessu sakarefni.

Í þriðja lagi, og það er kannski það sem er áþreifanlegast í þessum efnum sem varðar þá Árna M. Mathiesen og Björgvin G. Sigurðsson. Þeir höfðu ekki gripið til aðgerða til þess að flytja innstæður í dótturfyrirtæki á Englandi. Þar verð ég að segja að það er auðveldara um að tala en í að komast. Ég hef ekki sannfæringu fyrir því að Bretar hafi á þessum tíma verið tilbúnir til þess að taka við ábyrgð á innstæðunum öðruvísi en að full greiðsla kæmi. Ég hef enga sannfæringu fyrir því að tjónið sem við á endanum munum sitja upp með verði endilega meira en við hefðum þurft að greiða við þær aðstæður. Það er ósannað eða a.m.k. alls ekki nægilega vel rökstutt að hér hafi verið betri leið í boði. Það er fyrst og fremst út frá þessu, út frá því hvaða upplýsingar ráðherrarnir sem í hlut áttu höfðu, hvaða vald þeir höfðu og hvaða tækifæri þeir höfðu til þess að grípa til aðgerða. Ég er sammála því að við hljótum að þurfa að horfa á tilteknar athafnir en ekki pólitískt mat eða pólitíska óskhyggju að hér verði menn að fara varlega fram. Ég árétta um leið að auðvitað er það svo um allt þetta fólk að það kappkostaði sem best það gat að vinna landi og þjóð gagn. Ýmislegt af því sem það gerði á þessum erfiðu tímum gerði það vel og það á sér auðvitað margs konar málsbætur, jafnvel þó að einhver þeirra eða einhverjir þyrftu að svara fyrir landsdómi, og er fullfært um að færa þær fram enda ekki kvartað undan því.

Ég árétta að ég tel að málinu ljúki ekki í dag. Ég held satt að segja að við höfum brugðist í því pólitíska hlutverki sem við eigum að vera í að ná sameiginlegum skilningi um það hvernig menn eigi að klára uppgjörið við svona hrun. Við munum ekki ná miklum árangri í því að byggja upp samfélag okkar og traust nema við náum sameiginlegum skilningi og að við berum ábyrgð á þeirri ómögulegu stöðu sem hér er uppi í dag.